Andlát

4. september 2024

Andlát

Haukur Guðlaugsson

Haukur Guðlaugsson, fyrrum söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, lést þann 1. september síðast liðinn, 93 ára að aldri.

Haukur fæddist á Eyrarbakka 5. apríl árið 1931 og ólst þar upp.

Foreldrar hans voru Guðlaugur Ingvar Pálsson, kaupmaður á Eyrarbakka, og Ingibjörg Jónasdóttir, húsfreyja og listakona á Eyrarbakka.

Haukur hóf píanónám 13 ára gamall og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1951.

Hann stundaði orgelnám við Staatliche Hochschule für Musik í Hamborg á árunum 1955-1960.

Framhaldsnám stundaði hann í orgelleik við Accademia di Santa Cecilia í Róm 1966, 1968
og 1972.

Haukur var tónlistarkennari og kórstjóri Karlakórsins Vísis á Siglufirði 1951-1955 og skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi 1960-1974.

Þá var hann einnig organisti og kórstjóri Akraneskirkju 1960-1982 og kórstjóri Karlakórsins Svana.

Hann var söngmálastjóri íslensku þjóðkirkjunnar og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar í yfir aldarfjórðung eða frá 1974-2001.

Þá stóð hann árlega fyrir organista og kóranámskeiðum í Skálholti í 27 ár.

Á starfsferli sínum stóð Haukur meðal annars fyrir útgáfu um 70 nótna og fræðslubóka fyrir kóra og organista.

Hann hélt orgeltónleika víða á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum og lék einleik á orgel með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Einnig héldu kórar undir hans stjórn tónleika á Íslandi og víða í Evrópu og í Ísrael.

Haukur gerði upptökur fyrir útvarp, sjónvarp og á hljómplötur og geisladiska.

Hann gaf út tvo tvöfalda geisladiska árið 2011 og árið 2020 og samdi og gaf út Kennslubók í organleik í þremur bindum.

Haukur hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, var heiðursfélagi, bæði í Félagi íslenskra organleikara og Félagi íslenskra tónlistarmanna.

Árið 1983 var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og árið 2008 hlaut hann Liljuna, sérstök tónlistarverðlaun íslensku þjóðkirkjunnar.

Eftirlifandi eiginkona Hauks er Grímhildur Bragadóttir,  bókasafnsfræðingur og kennari.


slg


  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Tónskóli þjóðkirkjunnar

  • Andlát

logo kirkjan.png - mynd

Þjóðkirkjan opnaði nýja vefsíðu

01. des. 2025
...Þjóðkirkjan opnaði nýja vefsíðu
Logo.jpg - mynd

Laust starf

21. nóv. 2025
... starf prests við Borgarfjarðarprestakall í Vesturlandsprófastsdæmi með sérstakar skyldur við prófastsdæmið
Sigurður flosa.jpg - mynd

Sigurður Flosason söngmálastjóri

18. nóv. 2025
Biskup Íslands hefur valið Sigurð Flosason tónlistarmann, tónskáld og tónlistarkennara í starf söngmálastjóra.