Þreföld hátíð í Dómkirkjunni í Reykjavík

14. nóvember 2022

Þreföld hátíð í Dómkirkjunni í Reykjavík

Biskup Íslands ásamt þátttakendum í guðsþjónustunni og nokkrum úr sálmabókarnefndinni

Þreföld hátíð var í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 13. nóvember.

Þá var kirkjudagur Dómkirkjunnar, kristniboðsdagurinn og ný sálmabók var formlega tekin í notkun.

Fulltrúar úr sálmabókarnefndinni tóku þátt í guðsþjónustunni með ritningarlestri og bænagjörð.

Frú Edda Möller framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar, sem gefur bókina út, afhenti Biskupi Íslands frú Agnesi M. Sigurðardóttur sálmabókina á formlegan hátt.

Sr. Sveinn Valgeirsson sóknarprestur kirkjunnar þjónaði fyrir altari, Dómkórinn söng og organisti var Guðmundur Sigurðsson.

Sr. Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins predikaði.

Hóf hann predikun sína á því að segja frá trúarlegri upplifun sem sálmaskáldið Bjarni Eyjólfsson varð fyrir í Dómkirkjunni þegar hann var ungur maður.

Bjarni var framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins í áratugi, en hann á 11 sálma í nýju sálmabókinni.

Sálmur hans Ó, Drottinn, ég vil aðeins eitt var svo sunginn eftir predikun sr. Ragnars.

Þannig sameinuðust öll þrjú tilefni hátíðarguðsþjónustunnar í þessari frásögn af Bjarna Eyjólfssyni, Dómkirkjan í Reykjavík, Kristniboðsdagurinn og nýja sálmabókin.

Fjölmenni var í Dómkirkjunni þennan dag og í kaffisamsæti sem haldið var eftir guðsþjónustuna í safnaðarheimilinu voru sungnir tveir sálmar við píanóundirleik organistans, Guðmundar Sigurðssonar og kontrabassaleik sóknarprestsins.

Nýtt vefsvæði, sálmabók.is mun bjóða upp á fjölbreytta möguleika til kynningar og fræðslu um sálma og mun það smám saman auka við ítarefni auk þess sem hægt verður að sjá alla sálmana eins og þeir birtast í sálmabók.

Á næstu dögum opnar fyrsti hluti vefsvæðisins þannig að sálmarnir verða sýnilegir með nýju númerunum.

 

slg




Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Þjóðkirkjan

  • Útgáfa

  • Biskup

logo kirkjan.png - mynd

Þjóðkirkjan opnaði nýja vefsíðu

01. des. 2025
...Þjóðkirkjan opnaði nýja vefsíðu
Logo.jpg - mynd

Laust starf

21. nóv. 2025
... starf prests við Borgarfjarðarprestakall í Vesturlandsprófastsdæmi með sérstakar skyldur við prófastsdæmið
Sigurður flosa.jpg - mynd

Sigurður Flosason söngmálastjóri

18. nóv. 2025
Biskup Íslands hefur valið Sigurð Flosason tónlistarmann, tónskáld og tónlistarkennara í starf söngmálastjóra.