Víðistaðakirkja

 

Viltu verða heill?

„Viltu verða heill?” Segir Jesús við veika manninn í guðspjalli þessa sunnudags – og þannig spyr hann okkur öll þegar þörf er á, jafnvel daglega og oft á dag ef því er að skipta, „viltu verða heill?”

Þessi maður hafði verið veikur í 38 ár og vildi sannarlega verða heill, hann vildi geta baðað sig í lauginni í von um að fá lækningu og beið þess vegna þolinmóður dag eftir dag eftir því að einhver hjálpaði honum í laugina á réttum tíma. Hann beið vegna þess að hann átti þá von í hjarta að öðlast heilsu, verða heill á ný.

Það fór því ekki fram hjá honum þegar Jesús kom og ávarpaði hann með þessum orðum, hann hafði beðið svo lengi eftir hjálp,- beðið og beðið eftir því að röðin kæmi ef til vill einn daginn að honum að fá æðstu ósk sína uppfyllta – að verða heill.

Þessi dagur, þegar Jesús kom til hans, ávarpaði hann og læknaði í kjölfarið, hlýtur að hafa verið stærsti dagurinn í hans lífi. Langþráður draumur hafði ræst – hann hafði öðlast heilsu á ný. Að boði Jesú tók hann rekkju sína og gekk á brott.

Jesús kemur einnig til okkar í sömu erindagjörðum, bankar á dyr hjartans og spyr: „Viltu verða heill? – Viltu verða heil?” en við tökum ekki alltaf eftir því, heyrum ekki í honum og höldum áfram okkar för eftir hraðbraut lífsins örugg um eigin getu og fullkomnun. Erum við ekki heil? Þörfnumst við nokkurs? Eigum við ekki nóg og getum ef til vill eignast annað það sem hugurinn girnist? Getum við ekki bara keypt það sem gerir okkur ánægð og heil – heilsuna líka ef því er að skipta. Við sitjum a.m.k. ekki við laugina dag eftir dag og bíðum eftir réttu stundinni til að fara út í – því við lifum gjarnan lífinu á okkar forsendum, eftir okkar vilja og ákvörðun.

Þegar heilsan virðist góð, þá er svo einfalt að álíta sem svo að maður sé heill. Það er því ástæða til að staldra við og hugleiða hvað Jesús á við þegar hann spyr okkur hvort við viljum verða heil. Merking hugtaksins í munni hans er svo miklu meiri og dýpri en við ef til vill áttum okkur á, því okkur hættir til að skilgreina út frá sjálfum okkur, en erum oft blind á raunverulega stöðu okkar og veru í lífinu – við verðum samdauna eigin takmörkunum og sjáum ekki hve langt við erum komin af réttri leið.

Þegar við teljum okkur ganga á réttri braut þá höfum við kannski á löngum tíma þokast langt af leið um brot úr gráðu í senn og höfum ekki hugmynd um það. Þegar við höfum komið okkur fyrir í eigin rými og búið okkur umgjörð um daglegt líf þá leyfum við stundum ýmsum aðskotahlutum að liggja í kringum okkur þar til við hættum að sjá þá og þeir verða hluti af venjubundnu umhverfi. Þetta er svipað og að koma inn í herbergi fullt af ódaun, ef við dveljum þar inni nógu lengi hættum við að taka eftir honum – og eftir enn lengri tíma finnst okkur andrúmsloftið jafnvel vera hreint og tært.

Jesús Kristur, ofsóttur og hæddur, þjáður undan byrðum heimsins kemur til okkar, til mín og tíl þín og spyr: „Viltu verða heill? – Viltu verða heil?” Að niðurlotum kominn með krossinn á bakinu gengur hann upp á Golgata með þann ásetning í huga að gera okkur heil – hann er negldur á krossinn fyrir okkur og tekur út þjáninguna fyrir okkur. Hann býðst jafnframt til að taka á sig okkar byrðar – alla okkar bresti og brot frá upphafi til enda.

Og honum tókst ætlunarverk sitt, hann hafði sigur yfir niðurbrotsöflum þessa heims og reis upp frá dauðum til eilífrar dýrðar. Um leið gefur hann okkur sem erum breysk og brotin nýtt tækifæri er hann segir við okkur hvert og eitt: „statt upp, tak rekkju þína og gakk!”

Hann hefur gefið okkur möguleikann á því að verða heil á ný – raunverulega heil, því við getum aldrei orið heil nema vegna hans, fyrir hann og í honum.

Jesús vill lækna okkur eins og manninn við laugina Betesda, gera okkur heil – og að baki býr miskunnsemi kærleikans. Betesda merkir hús miskunnseminnar og það er einmitt inn í slíkt hús sem Jesús Kristur býður okkur að ganga,- inn í hús föðurins á himnum þar sem allir verða heilir.

Það er okkar að hlusta eftir kalli hans og svara, gefa gaum að því sem skiptir máli og gæta vel að þeim andlega jarðvegi þar sem fræ trúarinnar er gróðursett, svo það fái vaxið og dafnað er fram líða stundir.

Í pistlinum úr Galatabréfinu sem lesinn var frá altarinu áðan er því einna best líst hvað er fólgið í því að verða heill í frelsaranum Jesú Kristi. Þar segir: „Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.” (Gal.2.20)

Kristur kemur til okkar í dag með sínum hætti og spyr hvort við viljum verða heil. Það hlýtur innst inni að vera sterk löngun, a.m.k. flestra, að öðlast líf sem er heilt. Þess vegna ættum við að þiggja það með þökkum þegar við fáum slíkt boð.

Það geta vissulega verið viðbrigði að kynnast því að verða heill í Kristi því þegar við erum búin að vera veik lengi þá verður okkur eðlilegt að lifa þannig og því meiri líkur á því að hið heilbrigða verði framandi þegar það verður hlutskipti okkar að nýju. En það að eiga trú í hjarta og svara kalli Krists er stöðug vinna. Við erum breysk og verðum aðeins heil í honum – og eftirfylgdin getur sannarlega kostað átök.

Kristur gerir sér grein fyrir því enda áminnir hann veika manninn í guðspjallinu er hann segir við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra.” Kristur veit að maðurinn er ekki hættur að syndga og hann veit að við hættum ekki að syndga, því við erum ófullkomin. Þess vegna bendir hann okkur á leiðina og býður okkur fylgdina því í honum verðum við heil.

„Lofa þú Drottinn, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.” (S. 103.1-4)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

14. sd. e. trinitatis: S. 103.1-6  /  Gal. 2.20  /  Guðspjall: Jóh. 5.1-15

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS