Víðistaðakirkja

 

Vakið!

„En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Verið varir um yður, vakið!” Þannig hljóðar guðspjallstexti Markúsar 2. sunnudag í aðventu.

Nú er einmitt mikilvægt að vaka því sá tími er framundan er við eigum von á komu Krists í heiminn. Við vitum ekki hvenær hann kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látum hann ekki finna okkur sofandi þegar hann kemur allt í einu. Hann mun koma og knýja á dyr hjartans og leita inngöngu, svo hann fái með ljósi sínu hrakið burt myrkur og drunga. Verum því vakandi þegar hann kemur.

Áður en Jesús fæddist höfðu gyðingar lengi beðið nýs konungs sem leitt gæti þjóðina undan rómversku valdi,- og Jesús var vissulega konungur í heiminn fæddur en ekki af veraldlegum toga eins og væntingar stóðu til.

Hvað okkur varðar sem trúum á hann, má segja að þessi tími, jólafastan, sé tilefni til hugleiðingar um hinn raunverulega tilgang, sem í raun umlykur alla veru Jesú Krists hér á jörðu, allt frá fæðingu til dauða á krossi; og sem að opinberast og uppfyllist í upprisu hans til eilífrar dýrðar föðurins, vegna þess að í því ljósi birtist okkur hinn raunverulegi konungdómur Krists.

Fólkið sem hafði svo lengi beðið komu Messíasar, hefur vafalaust ekki gert sér grein fyrir því hver Jesús raunverulega var. Það er ekki undarlegt, þó margir hafi verið efins um það að Jesús væri sá konungur sem vænst hafði verið svo lengi.

Meira að segja postular Jesú voru ekki alltaf vissir. En það var einn sem vissi sannleikann og það var auðvitað Jesús sjálfur. Hann vildi ekki leyna nokkurn mann sannleikanum, þó það væri í raun sá eini sannleikur sem varð þess valdandi að þjóðin snerist gegn frelsara sínum.

Fólkið vildi frelsun undan tímanlegu valdi og harðstjórn dauðlegra manna, sem í sjálfu sér er ekki skrítið, en það skildi ekki er á reyndi þá ævarandi frelsun Krists frá orsökum alls þess sem illt er,- mannlegum löstum, eymd og að auki frá dauða og útskúfun. Það skildi ekki fyrr en um seinan að Kristur var ekki þessa heims konungur, kominn að frelsa eina þjóð úr tímabundinni ánauð, heldur Guðs sonur, kominn til að frelsa alla menn allra tíma úr ánauð syndar og dauða.

Ísraelsþjóðin hafði beðið svo lengi eftir konungi, því var eftirvæntingin svo mikil, þegar von var á Jesú. En Jesús kom ekki bara til þessarar fjarlægu þjóðar í mistri löngu liðinna daga, hann kom til allra manna og hann kemur til okkar í dag sem og alla aðra daga. Hann kemur ef við viljum taka á móti honum – og því er svo mikilvægt að við séum tilbúin, sofum ekki andlegum svefni þessa heims, heldur séum vör um okkur, vökum.

Íslendingar hafa löngum verið gestrisnir og veitt velkomnum gesti góðan viðurgjörning og víst er að gjöfull er gestrisinn maður. Ef við viljum veita Kristi inngöngu í líf okkar, verðum við að bjóða hann velkominn og gefa af sjálfum okkur kærleiksþel og hlýju.

Eins og börnin tvö, sem voru skírð hér í dag, hefur hver kristinn einstaklingur tekið á móti Jesú Kristi í skírn sinni, sem bera á ávöxt í lífi hans alla tíð síðan í trú á almáttugan Guð og kærleiksríkri breytni gagnvart náunganum. Þannig höfum við öðlast náðargjöf Guðs, en líf okkar og breytni er prófsteinn á það hvort við höfum þegið þá gjöf af alhug.

Við öll sem hér erum saman komin í kirkjunni nú á aðventu,- já allir kristnir menn eiga nú von á komu frelsarans, því eins og flestir sjálfsagt vita, þá merkir orðið aðventa koma. Við bíðum komu konungsins Jesú Krists, sem kemur til að leita að því sem glatast hefur og færa það á ný í flóðljós hjálpræðis og friðar, „því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.” (Lk 19.10).

Í aðventunni undirbúum við jólin, fæðingarhátíð frelsarans. Við gerum híbýli okkar hrein, tökum til í hverju skoti og hverri kytru. Það er gott að hafa allt hreint tímanlega áður en gesturinn kemur.

En sérstaklega ættum við að gæta að því að þrífa vel hýbýli hjartans, og gera það svo vel sem okkur er mögulegt ófullkomnum mönnum. Þannig þarf það alltaf að vera því við vitum ekki hvenær tíminn er kominn. Hýbýli hjartans eiga að vera heimkynni trúarinnar og Jesú Krists sem gefur henni líf og tilgang.

Þar fáum við ekkert hulið,- engin óhreinindi geta dulist í skúmaskotum hugans né flekkað hreint hjarta til langframa, því dimman flýr ljósið er frelsarinn leitar okkar og finnur, frelsar okkur og lífgar.

Hann frelsar okkur frá hinu illa og og leiðir okkur úr villu. Ljós hans er líka líknarljós, sem gott er að hafa hjá sér þegar erfiðleikar heimsins steðja að. En við viljum ekki alltaf taka á móti því ljósi. Og ástæðurnar fyrir því geta verið margvíslegar, t.d. veraldlegt annríki, tímaskortur, áhugaleysi eða jafnvel forherðing hjartans.

Það var eitt sinn prestur sem frétti af konu í sókn sinni sem átti ekki peninga fyrir húsaleigu. Hann fór til hennar og ætlaði að hjálpa henni með því að færa henni peninga frá kirkjunni. hann barði að dyrum hjá henni, en enginn kom til dyra.

Nokkru síðar hitti hann konuna og kvaðst hafa farið erindisleysu, þegar hann ætlaði að koma með penginga fyrir leigunni. „Voruð það þér, prestur?”, sagði þá konan og bætti svo við: „Ég var heima allan daginn, en ég hélt að þetta væri húseigandinn að innheimta leiguna. Ég þorði ekki að opna af því að ég átti ekki eyri.”

Það eru einnig allt of margir sem eru ekki vakandi eða viðbúnir þegar Jesús kemur – og hafna honum jafnvel á röngum forsendum. Hann knýr dyra árangurslaust, af því að fólk heldur að hann sé kominn til þess að krefjast einhvers af því í lífinu sem það telur sig ekki ráða við. Þeir eru nefnilega til sem telja að þeir verði fyrst að greiða það sem þeir skulda áður en þeir geta veitt Jesú viðtöku; að þeir verði fyrst að standa skil gjörða sinna, áður en þeir verði náðargjafar Guðs aðnjótandi.

En þar er misskilningur fólginn, því náðargjöfin, sem Guð gefur okkur í Kristi, lífi hans, dauða og upprisu, er forsendan fyrir fyrirgefningu syndanna. Kristur kemur til okkar án nokkurra skilyrða, en vill einungis að við opnum dyr hjartans í einlægri trú.

Jesús kemur til okkar, látum hann ekki finna okkur sofandi, heldur opnum dyr hjartans upp á gátt – og það gerum við best með því að auðsýna kærleika og rétta þeim hjálparhönd sem þurfandi eru. Ég vil í því sambandi minna á árlega jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar, sem er kjörinn farvegur fyrir kærleikann í verki.

Þeir eru því miður allt of margir sem lifa í myrkri, bæði einstaklingar og heilu þjóðirnar. En í trú og kærleika getum við gefið þeim ljós af ljósi frelsarans. Við tökum á móti honum í hverju kærleiksríku verki, og í þeirri breytni verið öðrum sú fyrirmynd sem nauðsynleg er svo þeir stígi sama skref inn í ljósið.

Margir af þeim sem tóku á móti Jesú forðum hafa skilið í raun hver konungur hann var, eins og okkur er ljóst við komu hans til okkar,- að hann er Guðs sonur sem sendur var til að vera mönnunum ljós, svo þeir hafi mátt og megi ætíð rata veg Guðs.

„Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið, Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum.” (Heb. 10.35-37)

Dýrð sé Guði Föður og Syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

2. sunnudagur í aðventu: Jes. 35.1-10  /  Heb. 10.35-37  /  Mark. 13.31-37

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS