Víðistaðakirkja

 

…þar sem réttlæti býr

„En eftir fyrirheiti Guðs væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.“

Nýr himinn og ný jörð þar sem réttlætið býr! Er það ef til vill fyrirheiti um nýtt Ísland – nýtt og réttlátt Ísland sem fólkið þráir eftir að ranglæti sérhagsmuna græðgistímans kom svo glöggt upp á yfirborðið þegar loftkastalarnir hrundu til grunna?

Það endurspeglast a.m.k. mjög vel í niðurstöðum þjóðfundarins sem nú er nýafstaðinn. Réttlætið var á meðal þeirra 5 gilda sem oftast voru nefnd af þátttakendum, en þar voru einnig nefnd grundvallargildi eins og heiðarleiki, jafnrétti, virðing og kærleikur.

En lítum aðeins aftur á réttlætið og hugleiðum veruleika þess hugtaks betur og þá kannski helst hvernig réttlætið getur birst, dafnað og mótað mannlegt samfélag – nú og ávallt. Oft virðist réttlætið ekki fá að njóta sín sem skyldi vegna þess að það er svo oft skilgreint út frá ólíkum sjónarhólum allra þeirra er mynda samfélagið. Ég held að það sé mjög algengt viðhorf að fólk vilji réttlæti fyrst og fremst vegna þess að það óttast óréttlætið á eigin skinni, en gleymir að huga að því hvort hallar á náungann í þeim efnum.

Við getum víkkað út þessa hugsun og þrá eftir nýju réttlátu Íslandi, sem vissulega er eftirsóknarvert markmið, og horft á heiminn í heild sinni eins og kristinn kærleikur gagnvart náunganum hvetur til. Er það t.d. réttlæti að milljarður barna í heiminum lifi við alvarlegan skort á mat, drykkjarvatni, húsaskjóli og heilbrigðisþjónustu og að 24000 börn yngri en 5 ára deyi dag hvern af þeim ástæðum?

Það er að sjálfsögðu hróplegt ranglæti þegar aðstæður í heiminum leyfa að komið sé í veg fyrir slíkar hörmungar. Það er heldur ekki heiðarlegt að horfa fram hjá því þrátt fyrir erfiðleika hér heima, sem ég geri ekki lítið úr. Það verður ávallt erfitt að setja stigskiptan kvarða á gildi eins og réttlæti, virðingu, jafnrétti, og kærleika, en víst er að þau eiga sér engin landamæri. Kristinn kærleikur hvetur til víðsýni og um leið samlíðunar með öllum bræðrum og systrum hvar sem er í mannlegu samfélagi.

Það má þó alls ekki skilja orð mín svo að ég sé að draga úr mikilvægi þess að við horfum til uppbyggingar okkar eigin þjóðar á þessum grundvallarstoðum réttlætis, heiðarleika, jafnréttis, virðingar og kærleika, heldur er ég miklu fremur benda á að það að huga einnig að öðrum og hjálpa þeim sem eru í enn verri aðstæðum en við sökum ranglætis heimsins, gerir okkur þakklát, gefur okkur nýja sýn á eigin stöðu og veitir okkur dýrmæta lífsfyllingu og þrótt til að takast á við eigin málefni. Þannig verðum við þátttakendur í að ýta undir raunverulegt réttlæti í heiminum.

Því réttlæti er annað og meira en að komið sé á heimagerðu jafnvægisástandi þar sem aldrei geta koma fyrir erfðleikar og þjáningar. Í landi andstæðnanna, logns og storma, ljóss og myrkurs, er kyrrstaða ekki til, svo réttlætið hlýtur að vera fólgið í því að öllum séu sköpuð sem jöfnust tækifæri til að takast á við það sem að höndum ber hvern dag og hverja stund í sæld og þraut – og til að sjá sér og sínum farborða á mannsæmandi hátt.

Það verður ekki gert með því að við, hvert og eitt, tölum um réttlæti fyrir okkur sjálf vegna þess að við hræðumst að verða fórnarlömb óréttlætisins – nei, það tekst með því að við tölum um réttlæti fyrir aðra og leggjum okkur um leið fram um að hrinda því í framkvæmd – ekki fyrir okkur sjálf heldur fyrir aðra og þá munum við auðvitað njóta góðs af líka.

Nýtt og réttlátt Ísland verður því ekki til nema hugsunarhátturinn breytist – færist frá hinni sjálfhverfu og þröngu eiginhagsmunagæslu sem er rót græðgi, spillingar og misnotkunar valds og til þess er snertir hag og velferð þeirra sem byggja samfélagið með okkur og ekki síst þeirra sem minnst mega sín.

Og um leið og slíkt gerist þarf að eiga sér stað uppgjör svo hægt sé að marka skil frá hinu gamla til hins nýja – það er í raun megin krafa réttlætisins og birtingarform, fái það svigrúm til að virka eðlilega í samfélaginu.

Ég ræði hér um réttlæti manna – það sem við krefjumst að liggi til grundvallar þeirri skipan sem við viljum hafa í samfélaginu, móti lög og reglur og stýri þannig öllum ákvörðunum og framkvæmdum valdhafa er varða heill og velferð þegnanna.

Krafan um réttláta þjóðfélagsskipan er ekki ný af nálinni, heldur hefur verið til um aldir og hefur sem slík mótað mjög samfélög manna allt til þessa. En það er eins og við náum aldrei hinu endanlega takmarki, að lifa við fullkomlega réttlátt samfélag – og hvers vegna skyldi það vera?

Til þess að átta okkur betur á því þurfum við að skoða réttlætishugtakið í enn víðara samhengi. Við mannanna börn erum ófullkomin og allt sem við gerum getur því aldrei orðið fullkomlega rétt og einmitt þess vegna er svo mikilvægt að hugleiða hvernig réttlætið birtist í skikkan skaparans. Hvernig birtist okkur réttlæti Guðs og hvernig getum við byggt réttlátt samfélag í ljósi þess? Er þar ef til vill komin hin raunverulega sýn til hins nýja Íslands.

Já, ef til vill, en þar öðlumst við að minnsta kosti sýn til hins nýja himins og hinnar nýju jarðar þar sem réttlætið býr. Lítum á guðspjall þessa sunnudags, því í orðum þess birtist okkur réttlæti Guðs í hnotskurn – réttlæti sem felur í sér kröfu og birtingarform uppgjörs frá hinu gamla til hins nýja lífs.

Skoðum til að byrja með þessi orð Krists: „Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonurinn.“

Þetta eru innihaldsrík orð sem undirstrika einingu guðdómsins, faðirinn og sonurinn eru eitt og hafa líf í sjálfum sér. Sonurinn Jesús Kristur nefnir þar sjálfan sig Mannsson sem hann gerði stundum og skírskotar þar til Messíasarspádóms Gamla testamentisins án þess að notast við Messíasarhugtakið sem var oft hlaðið pólitískri merkingu í hugum gyðinga.

Hann lýsir þannig sjálfum sér sem Mannssyninum sem hafði himneskt vald en var jafnframt sannur maður. Sem slíkur þekkti Jesús lífsbaráttu fólks, þjáningu, útskúfun og óréttlæti heimsins. Og þess vegna og einmitt þess vegna hlotnast honum vald til að halda dóm – vegna persónulegrar reynslu sinnar af ranglætinu meðal Guðs barna var hann hæfur til að fella réttláta dóma.

Í upphafi guðspjallsins og í raun í ljósi þessa skilnings á hlutverki Krists í heiminum sem dómari, þá sjáum við í hverju raunverulegt réttlæti Guðs er fólgið. Hlýðum á orð Jesú og tökum sérstaklega eftir því hve mikla áherslu hann leggur á mál sitt: „Sannlega, sannlega segi ég yður. Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.“

Kristur boðar þarna réttlæti Guðs öllum þeim sem vilja heyra og hlusta – og í því er sannarleg fólgið nýtt líf. Jesús dæmir ekki gegn vilja föðurins því hann er eitt með honum – og sá er vilji föðurins að allir komi heim í hans eilífa ríki. Og lausn réttlætisins er fólgin í trúnni. Jesús er að segja að sá sem heyri orð sitt, þ.e. trúi af hjarta komi ekki til dóms, heldur sé hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.

Og það er eftirtektarvert líka að hann segir „er stiginn“ en ekki „mun stíga“ sem segir okkur að hið nýja líf sem Guð gefur okkur í gnægð náðar og kærleika sé okkar hér og nú. Það er nýr himinn og ný jörð þar sem réttlætið býr.

Ef við búum þar á svo góðum stað í andlegu lífi hér og nú, þá held ég að við séum miklu betur í stakk búin til þess að koma á og iðka réttlætið í hinu veraldlega lífi – í þessum heimi sem við lifum og hrærumst í um skamma hríð þó við högum okkur oft eins og við munum lifa eilíflega hér á jörðinni.

„Réttlætið er sannleikurinn að verki“ (Benjamin Disraeli) þar sem kærleikurinn er hvati og hreyfiafl hlutanna, því hann bæði tekur af ofgnótt og gefur í skorti, agar í óstjórn og hvetur til uppbyggilegra verka, refsar fyrir brotin og umbunar trúmennsku og síðast en ekki síst þá kann hann að fyrirgefa og leiða til sátta.

Ef við því hvert og eitt tileinkum okkur sannleika Krists í orðum og gjörðum þá mun réttlæti Guðs breiðast út á meðal manna og þjóða. Á þeim grundvelli ættum við Íslendingar að byggja upp nýtt og réttlátt Ísland – þjóðinni til eilífrar farsældar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Síð. sd. e. trin.:  Job.14.1-6  /  2.Pét. 3.8-13  / Guðspjall: Jóh. 5.24-27  

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS