Víðistaðakirkja

 

Svo skal maður vinna….

Fyrir allmörgum árum kynntist ég manni sem þá var kominn hátt á tíræðisaldur. Hann var ern og vel á sig kominn bæði andlega og líkamlega miðað við háan aldur. Við hittumst oft næstu árin eða þar til hann dó 100 ára gamall. Við ræddum um ýmsa hluti en hann hafði þó sérstaklega gaman af því að segja mér frá fyrri tíð og lýsti oft fyrir mér margvíslegum aðstæðum fólks og lífsbaráttu á heilli öld.

Hann hafði sjálfur mátt vinna erfiðisvinnu um langa starfsævi oft við lélegar vinnuaðstæður, vosbúð og kulda. Þrátt fyrir það missti hann nánast aldrei úr vinnudag vegna veikinda eða annarra ástæðna. Hann þurfti að vinna til að geta séð sér og sínum farborða og var auk þess samviskusamur í starfi og trúr vinnuveitendum sínum.

Fyrir þessum manni var lífið vinna, hvernig sem á það var litið. Hann gekk því með sama hugarfari að öllum sínum verkum í lífinu, einnig hinum andlegu, því hann var trúaður og lagði líka vinnu í það að rækta trúna. Lífsviðhorf hans var í raun það að takast á við öll verkefni lífsins sem barn Guðs,- það má segja að líf hans, vinna og trú hafi fléttast saman í daglegri lofgjörð til skaparans.

Þegar ég fékk að líta inn í hugarheim þessa manns fannst mér ég ekki einvörðungu kynnast persónuleika hans betur, heldur fannst mér líka eins og ég fengi svolitla innsýn inn í annan tíma sem hafði að geyma svo ólíkan tíðaranda en við þekkjum í nútímanum. Og það var sannarlega hollt og gefandi,- og vakti jafnframt til umhugsunar um gjörólíkan hugsunarhátt nútímamannsins, sem hægt væri að lýsa best með hugtökum sem byrja á forliðnum sér, svo sem sérdrægni, sérgæsku, sérhlífni og sérhyggju svo eitthvað sé nefnt.

Við getum vissulega unnið mikið í dag og margir vinna myrkranna á milli en sú vinna er leyst af hendi á svolítið öðrum forsendum en áður fyrr. Hugarfarið er annað og snýst meira um það hvað við fáum í okkar hlut en hvað við látum af hendi. Jafnframt eru kröfur um veraldleg lífsgæði meiri en nokkru sinni án þess að hugsað sé um hvort þar sé raunverulega lífsfyllingu að fá eða ekki.

Við ættum kannski að gera svolítið minna svo við komum meiru í verk. Já hljómar sem öfugmæli, en ef við hægjum á í veraldlegum verkefnum ættum við að hafa meira svigrúm til þess sem skiptir máli og ber ávöxt.

Það er einkennandi fyrir okkur nútímafólk að við viljum fá peninga fyrir allt sem við gerum, öll verk stór og smá, helst hvert einasta viðvik sem við innum af hendi. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að fá greitt fyrir vinnu sína, en á síðustu árum hefur til dæmis dregið verulega úr þátttöku sjálfboðaliða í hinum margvíslegu störfum ýmissa félaga og samtaka er vinna að góðgerðarmálum og það á einnig við um kirkjuna.

Rauði krossinn er byggður upp á störfum sjálfboðaliða og er e.t.v. þau samtök sem eru hvað þekktust fyrir sjálboðin störf, en þar er einnig æ erfiðara að fá fólk til starfa á þeim forsendum. Nú stendur Rauði kross Íslands fyrir kynningarátaki til þess að vekja athygli á mikilvægum störfum sjálfboðaliða víða í samfélaginu – og til þess að hvetja fleiri til að taka þátt.

Þetta þyrfti kirkjan að gera líka. Fyrr á árum voru miklu fleiri sjálfboðaliðar starfandi innan kirkjunnar en þekkist í dag – og oftast er erfitt að fá fólk til að taka að sér slík störf. En ekki má þó gefast upp – nú hyggjumst við hér í Víðistaðasókn reyna að fá áhugasamt fólk til að taka þátt í leikmannaþjónustu við helgihald kirkjunnar í meira mæli en verið hefur. Verður það verkefni kynnt betur hér í safnaðarheimilinu að guðsþjónustu lokinni.

Guð kallar okkur til starfa. Í guðspjalli þessa sunnudags segir Jesús okkur dæmisögu af manni sem á tvo syni. Hann biður þá að fara í víngaðinn að vinna, hinn fyrri neitar en sér sig um hönd og fer að vinna, en hinn seinni játar beiðninni en fer hvergi. Jesús segir dæmisöguna prestum og öldungum gyðinga og spyr þá í lokin hvor þeirra tveggja hafi gjört vilja föðurins. Þeir velktust ekki í vafa og svöruðu: „Sá fyrri.”

Þá gerir Jesús þeim grein fyrir því að þeir séu í sporum seinni bróðurins sem hvergi fór, þrátt fyrir góðar undirtektir. Og hann álásar þeim fyrir að hafa ekki hlýtt því kalli að fara af stað til að vinna á akri Drottins, þegar Jóhannes skírari kom til að vísa veg réttlætisins. „Þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum.”

Þessa dæmisögu er líka mjög auðvelt að yfirfæra yfir á líf okkar í dag. Hvernig bregðumst við við þegar okkur er vísað veg réttlætisins og við beðin að fara af stað til að vinna í víngarði Guðs. Það er ekki nóg að svara með tungunni ef hugur fylgir ekki máli og hönd ekki lyft til verka.

Lífið er vinna og það á ekki hvað síst við um trúarlífið. Í pistli dagsins sem lesinn var frá altarinu áðan segir: „…vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta….. Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.”

Það er okkar að vinna en Guð lætur okkur hins vegar í té góð verkfæri svo við megum betur leysa verkefnin af hendi, og má þar nefna trú, skilning, hæfileika og skynjun sem koma fyrst að notum þegar þau verkfæri eru virkjuð í lífi og starfi. „Guð gefur manni hneturnar, en hann brýtur þær ekki fyrir mann.” (H.C. Andersen)

Því ætti slík vinna ekki að vera kvöð, heldur ljúf skylda hverrar trúaðrar manneskju,- vinna sem mun skila árangri og því meiri sem ástundunin er meiri, einlægari og sjálfsagðari. Það ætti einmitt að vera sjálfsagður hlutur að flétta vinnu trúarinnar inn í daglegt líf og störf eins og gamli maðurinn gerði sem ég nefndi hér í upphafi – og um leið verður það okkur eiginlegt að vinna á akri Guðs, störfin verða léttari, gefa lífinu gildi og fyllingu um leið og við fáum notið ávaxta erfiðisins.

„Rubinstein var þekktur, rússneskur píanósnillingur. Einhver spurði hann hver væri leyndardómur þess að hann hafði svo ótrúlegt vald á hljóðfærinu sem raun bar vitni. Hann svaraði: „Hann er einfaldlega fólginn í daglegri æfingu. Ef ég sleppti æfingu aðeins einn dag fyndi ég fyrir því sjálfur. Ef ég vanrækti að æfa mig í tvo dagatækju vinir mínir eftir því. Og léti ég undir höfuð leggjast að æfa mig í þrjá daga mundu áheyrendurnir veita því athygli.”” (Máttarorð, bls. 254).

Sá sem stendur kyrr og gerir ekkert öðlast ekkert, nær ekki árangri né neinum áfangastað í lífinu. Lífið og allt sem það hefur upp á að bjóða kallar á iðni og athöfn viljum við njóta þess. Orka og hæfileikar nýtast ekki þeim sem situr með hendur í skauti. Þegar okkur eru færðar gjafir þá verða þær ekki til gleði og gagns ef við veitum þeim ekki viðtöku – og ekki heldur þó við veitum þeim viðtöku en leggjum þær svo frá okkur ónýttar.

Hjálpræðið er gjöf Guðs, dýrmætasta gjöf sem hverri mannesku getur hlotnast í lífinu, en hún verður ekki að gagni nema henni sé veitt viðtaka og gert eitthvað með hana í lífinu. Það er ekki nóg að segja já og fara hvergi. Þá er sá í betri stöðu sem hafnar gjöfinni en sér sig svo um hönd og heldur af stað til vinnu í víngarði Drottins.

Við ættum því ætíð að leitast við að vera í sporum hans sem hélt af stað og tók til hendinni sér til blessunar – og ættum að tileinka okkur það hugarfar sem Marteinn Lúther lýsir svo vel í þessum orðum: „Svo skal maður vinna sem ætti hann að lifa eilíflega og þó í þeim hug sem ætti hann að deyja á stundinni.”

Í þeim orðum endurspeglast ævisaga gamla mannsins sem ég sagði hér frá í upphafi, því hann lifði hvern dag eins og hann væri sá síðasti, en vann jafnframt af þeirri auðmjúku trú sem treystir á hjálpræði og eilíft líf.

Kristur er hjálpræðisvegurinn sem okkur öllum er boðið að ganga, við skulum ekki hika þegar við vitum hver vegurinn er og hvert leiðin liggur, heldur halda af stað og vera iðin og starfsöm á þeirri leið.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 20. sd. e. trinitatis:  Rut 2.8-12  /  Fil. 2.12-18  /  Guðspjall: Matt. 21.28-32

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS