Víðistaðakirkja

 

Skuggahliðar netheimanna

„Trú þú á Drottinn Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.” (P. 16.31) Þéttriðið netið þekur hinn tæknivædda heim, ósýnilegt í gerð sinni en fangar sýnilegan afla, fjölmörgum veiðimönnum til ánægju og yndisauka að því er virðist. Möskvastærðin er orðin það lítil að þó kastað sé fyrir ákveðinni tegund getur allt fylgt með þegar aflinn er skoðaður, – en þykir ekki sérstakt tiltökumál þar sem um nauðsynlegan fylgifisk veiðitækninnnar er að ræða.

Veiðimenn nútímans eru netverjar, sitja í hægindum við stjórnborðið og stefna í víking, sigla bátum sínum á rafbylgjum um heiminn og leita fanga sem víðast og oft á fjarlægum stöðum, hvort sem er landfræðilega eða efnislega. Á vefnum birtist veröldin sannarlega á nýjan hátt, veitir innsýn í allt milli himins og jarðar, birtir heiminn, mennina og viðfangsefni þeirra á breiðskjánum, sem spannar allt: Gott og slæmt, uppbyggilegt og niðurrífandi, ljós og myrkur.

Framfarir tækninnar hafa sannarlega opnað fólki nýja möguleika, internetið eða veraldarvefurinn hefur opnað nýja sýn, gert heiminn minni í vissum skilningi og tengt þjóðir og fólk saman. Það er sannarlega jákvætt á flestan hátt, en netvæðingin á sér líka sínar skuggahliðar sem hafa verið að koma æ betur í ljós á undanförnum misserum – og ætla ég sérstaklega að velta þeim fyrir mér hér í dag.

Ef til vill er helsti galli nútímamannsins fólginn í því að í skjóli tækninnar telur hann sér allt fært, að hann hafi orðið svo mikil tök á endalausum framförum að hann fái nánast öðlast yfirnáttúrulega hæfileika til að framkvæma hluti sem fólk hafði, fyrir ekki svo löngu síðan, varla ímyndunarafl til að láta sér detta í hug. Nútímamaðurinn telur sig geta gengið á vatni án þess að sökkva.

Já, það er hægt að nota slíka líkingu og segja að netverjar nútímans æði um á yfirborði þess hafs sem ber þá á örskotstíma að ókunnum ströndum, en átta sig jafnframt oft ekki á því fyrr en í óefni er komið að þeir eru byrjaðir að sökkva í dimmt hyldýpið sem þar liggur undir.

Og ég held að við þekkjum öll þær tilfinningar sem gera vart við sig í slíkum aðstæðum, og einnig ósjálfráð viðbrögð þegar örvænting og ótti grípa heljartökum. Þegar við sökkvum í hyldýpið, hvort sem er í bókstaflegri eða yfirfærðri merkingu, þá fálmum við eftir síðasta mögulega hálmstrái – og leitum hjálpar. Við hrópum á hjálp og réttum út höndina í von um að einhver geti gripið í hana og híft okkur upp aftur.

Báturinn var kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti. Þegar langt var liðið nætur kom Jesús til lærisveina sinna, gangandi á vatninu – og er þeir sáu hann varð þeim bilt við. Jesús sagði við þá: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.” Pétur vildi þá fá að ganga á vatninu til hans og Jesús varð við þeirri beiðni og svaraði „Kom þú!” Og Pétur steig úr bátnum og tók skref á vatninu í áttina til Jesú, en sá þá rokið, varð hræddur og tók að sökkva. Hann hrópaði þá: „Herra, bjarga þú mér!” Jesús rétti honum þegar höndina, tók í Pétur og sagði: „Þú trúlitli, hví efaðist þú?”

Þannig réttir Jesús okkur hönd sína í hvaða aðstæðum sem er í lífinu – okkur til hjálpar. Þegar við í hvers kyns neyð erum að sökkva í hyldýpið þá hjálpar hann, en minnir okkur jafnframt á hvernig við getum ferðast á lífsins vegum styrkari fótum, tekist öruggari og óttalausari á við margvísleg verkefni og verið meðvitaðri um þær hættur sem ber að varast. Það er með því eiga trú í hjarta.

Og það gildir enn í dag. Það gildir hið sama um netverja nútímans og fiskimennina á dögum Jesú. Í vantrú er meiri hætta á að við sökkvum í hyldýpi myrkurs og magnleysis, ótta og angistar, sjálfselsku og siðleysis, eiturs og illsku – (og svo mætti áfram telja) einfaldlega vegna þess að vantrúna vantar hömlur og haldreipi sem hverjum manni eru nauðsynleg tæki á vandrötuðu neti veraldar.

Í því samhengi langar mig að víkja aftur að skuggahliðum rafrænna samskipta nútímans á veraldarvefnum og þá sérstaklega í lífi þeirra sem enn hafa ekki byggt upp nægilegar varnir gegn hættunum sem leynst geta á hverjum þræði, þ.e. barna og unglinga.

Hætturnar eru ótrúlega margar og virðist mér í meginatriðum mega setja þær í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er það hve auðvelt er að nálgast allt hið ljóta, lágkúrulega, siðlausa og svarta efni sem til er á vefnum og svo oft er gert forvitnilegt fyrir ungdóminn. Í öðru lagi er það hættan á ánetjun, en margir hafa orðið háðir netnotkun og þá sérstaklega leikjum sem margir hverjir eru á mjög lágu plani, yfirfullir af grófu ofbeldi og grimmilegum drápum. Hefur komið fram í fjölmiðlum að margir ástundi slíka leiki tímunum saman, dag og nótt, og hætti að geta sinnt skóla eða vinnu – og einnig að slíkt háttalag fíknarinnar hafi hrundið af stað átökum innan fjölskyldna. Í þriðja lagi má svo nefna einmitt það sem verið er að vekja athygli á og berjast gegn í auglýsingaherferð nú um stundir, en það er hvernig margir nota spjall- og bloggsíður til að sverta og níða niður aðra og oft þá sem standa höllum fæti fyrir. Slíkt einelti getur sært og brotið niður ekki síður en annað ofbeldi, líkamlegt og andlegt.

Já, þær eru margar hætturnar í þessu lífi, og þetta eru m.a. hættur nútímans og ef til vill með þeim skæðustu sem steðja að ungdómnum. Það hvílir því mikil ábyrgð á foreldrum að fylgjast vel með frá upphafi, því það er oft erfiðara að grípa inn í þegar börnin eru sokkin niður í einhverja af dökkum afkimum þessara ótrúlegu netheima.

Og það er ekki vafi í mínum huga að besta forvörnin í þessum málum sem og öllum öðrum sem við þurfum að fást við í þessu jarðlífi er trúin. Trúin á Guð, almáttugan og kærleiksríkan, sem leiðir og leiðbeinir, bjargar og blessar í syni sínum Jesú Kristi.

Jesús bjargaði Pétri er hann fór að sökkva í vantrú sinni – og er þeir komu í bátinn, þá lægði vindinn. Þeir sem í bátnum voru tilbáðu hann og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.”

Þetta er í fyrsta skiptið í Nýja testamentinu sem fram kemur slík játning lærisveinanna og ef til vill var þetta í fyrsta skipti sem þeir játuðu trú sína á það að Jesús væri sonur Guðs,- en það var örugglega ekki í síðasta skipti.

Tökum okkur þá til fyrirmyndar og gerum játningu, ekki bara í orði heldur einnig á borði – þá fáum við að upplifa öryggi handan óttans, hjálparhönd í aðstæðum örvæntingarinnar, bjart ljós sem sker í sundur myrkratjöldin og líf handan dauðans.

Það skilar sannarlega árangri ef foreldrar móta uppeldi barna sinna og öll samskipti í formi trúarinnar, því þar er grundvallaratriðið að kunna betur að greina rétt frá röngu, gott frá vondu. Trúin er áttavitinn sem beinir farmönnum rétta leið fram hjá hættum hafsins – og hún getur sannarlega líka verið sá áttaviti sem beinir netverjum framhjá hættum nútímans á veraldarvefnum, svo þeir sökkvi ekki í djúpið. Trúum á Drottinn Jesú og við munum verða hólpin og heimili okkar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

4. sd. e. þrettánda:  Job. 42.1-5  /  Post.16.25-31  /  Guðspjall: Matt. 14. 22-33

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS