Víðistaðakirkja

 

Skemmtilegt?

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Mikið afskaplega var þetta skemmtilegt“. Við gengum úr kirkjugarðinum eftir jarðarför áleiðis að kirkjunni, ég í hlutverki prestsins og fáeinir aðstandendur þegar einn segir við mig „Mikið afskaplega var þetta skemmtileg jarðarför!“

Svo eftir andartaksþögn var eins og hann fengi bakþanka og hefði áttað sig á að þetta væri ef til vill ekki rétta orðið sem hann hafði valið, því hann bætti við: „Eða góð jarðarför miklu frekar.“

Ætli séu ekki komin a.m.k. 20 ár síðan þetta skemmtilega atvik átti sér stað í litlum kirkjugarði úti á landi. Það var þá, þegar skemmtilegt var skemmtilegt en átti að öðru leyti ekki alltaf við, snilld var snilld og átti ekki við alla skapaða hluti.

Nú í dag hefur merkingarsvið þessara hugtaka og svo margra fleiri víkkað og breyst svo um munar. Það þarf kannski að fara að brenna orðið skemmtilegt eins og gert var m.a. við orðið snilld í málfarsþáttunum þeirra Brynju og Braga Valdimars „Orðbragði“.

Ég er þó ekki á þeirri skoðun. En samt þegar málin eru skoðuð betur, þá er flest orðið skemmtilegt í samtímanum – a.m.k. ef tekið er mið af hugtakanotkun fólks.

Það er t.d. orðið mjög algengt í dag að heyra einmitt það að jarðarfarir hafi verið skemmtilegar og þykir ekki tiltökumál að orða það með þeim hætti. En það er ekki bara að merking hugtaksins hafi breyst og það sé notað á frjálslegri hátt en áður, heldur hafa viðhorf fólks til þess sem á að vera skemmtilegt einnig breyst.

Í stuttu máli má segja að það sé afar ríkjandi viðhorf að bókstaflega allt eigi að vera skemmtilegt. Það eru gerðar sífellt meiri kröfur til þess að allt sem fólk fæst við í daglegu lífi, upplifir og sækist í eigi að vera skemmtilegt.

Vinnan á að vera skemmtileg, skólinn á að vera skemmtilegur, heimilislífið á að vera skemmtilegt, dægradvölin á að vera skemmtileg, bækurnar, bíómyndirnar og leikritin eiga að vera skemmtileg. Já og síðast en ekki síst; kirkjan á að vera skemmtileg.

Það eru ekki mjög mörg ár síðan að kirkjulegar hjónavígslur fóru smátt og smátt að breytast, úr fallegum og hátíðlegum athöfnum í glens og grín í bland þar sem gerðar eru nánast kröfur til prestanna um að segja brandara og jafnvel á kostnað brúðhjónanna – svo brúðkaupið verði skemmtilegt – ekki bara í veislunni heldur líka í kirkjunni.

Skírnarathafnir hafa verið að þróast í sömu átt – sem dæmi frétti ég nú fyrir skömmu af ungum hjónum búsettum erlendis sem komu heim um jólin með nýfætt barn sitt og vildu að það yrði skírt hér heima. Þau þekktu engan prest svo þau ákváðu að „gúggla“ einum upp og slógu inn á leitarvefinn: „Skemmtilegur prestur“.

Ég vona svo sannarlega að þau hafi fundið einhvern skemmtilegan – sem hefur að sjálfsögðu verið auðvelt því prestar eru jú hver öðrum skemmtilegri ef út í það er farið.

Og nú er það nýjasta að biðja um skemmtilegar jarðarfarir – jú þið heyrðuð rétt; í mjög auknum mæli er farið að biðja presta um að hafa útfararathafnir skemmtilegar og þá sérstaklega minningarræðurnar, segja gamansögur og brandara – svo kirkjugestir geti frekar hlegið en grátið.

Nú má ekki taka orð mín svo að ég hafi á móti því að það sé skemmtilegt í kirkjunni – eða annars staðar. Öðru nær. Sjálfur finnst mér mjög gaman að hafa það skemmtilegt – og er mikið á léttu nótunum þegar mér finnst það eiga við.

En að allt þurfi að vera skemmtilegt finnst mér stundum of langt gengið – og það stundum á kostnað þess sem líka skiptir máli; t.d. á kostnað alvörunnar, kyrrðarinnar, hátíðleikans, jafnvel á kostnað fegurðarinnar og hins sanna innri fagnaðar en líka á kostnað sorgarinnar, söknuðarins, depurðarinnar og dýpri íhugunar. Það eru líka mikilvægir mannlegir þættir sem í raun mega ekki gleymast eða verða út undan.

Allt hefur jú sinni tíma „að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma, að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma, að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma, ….ekkert hugnast [mönnunum] betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.”

Þetta eru Guðs gjafir allt saman – og við þurfum að njóta þeirra allra í góðu jafnvægi því ef við gerum það þá verður sérstaklega skemmtilegt þegar það á að vera skemmtilegt.

Þannig verður lífsmyndin í betri kontrast – við þurfum að þekkja andstæður tilverunnar til þess að kunna að meta og njóta. Við njótum sumarhlýju- og birtu enn betur eftir að hafa upplifað kulda og myrkur vetrarins.

Í guðspjalli dagins segir frá brúðkaupsveislu – þar sem gleðin átti að ráða ríkjum. Þar fer engum sögum af hjónavígsluathöfninni sjálfri – hvort þar hafi verið skemmtilegt eða ekki – en það er komið inn á stef gleðinnar í veislunni sjálfri. Þetta er jú einn af stærri gleðiviðburðum í lífi hverrar manneskju og því sjálfsagt mál og eðlilegt að þá sé skemmtilegt.

En það getur ekki allt verið skemmtilegt – alltaf – ekki einu sinni í brúðkaups-veislum, ekki frekar en í lífinu sjálfu. Það getur ýmislegt gerst, eitthvað óvænt komið upp á sem breytir atburðarásinni, skapar áhyggjur og slær á skemmtilegheitin.

Það gerðist einmitt í brúðkaupsveislunni í Kana. Vínið þraut – vínið sem í samhengi frásögunnar getur verið tákn gleðinnar. Það kláraðist og þá voru góð ráð dýr – svo ekki yrði upplausn í veislunni – já, hreint og klárt hneyksli.

En það vildi svo vel til að einn veislugestanna gat leyst úr hvers manns vanda – og gerir enn. Jesús Kristur var á staðnum ásamt móður sinni og lærisveinum – og eins og alþekkt er þá breytti hann vatni í vín og bjargaði þennig stemningunni í veislunni.

Þetta var hans fyrsta kraftaverk – fyrsta tákn þess að hann var kominn til þess að vera bjargvættur fólks í svo mörgum aðstæðum lífsins. Hann færði veislugestunum gleðina að nýju.

Boðskapur hans er gjarnan nefndur fagnaðarerindi eða gleðiboðskapur – ekki skemmtiboðskapur. Og þó hann hafi fæðst í heiminn sem bjargvættur til þess að færa Guðs börnum gleðina – hina sönnu gleði sem felst í eilífu hjálpræði þeim til handa, þá kom hann ekki í heiminn til að vera skemmtilegur – jafnvel þó hann hafi vafalaust verið skemmtilegur oft og tíðum.

Gleðin er ein af dýrmætustu gjöfum Guðs – og víða í Biblíunni er lögð áhersla á mikilvægi gleðinnar í lífinu – og m.a. talað um að það skipti máli að fylla öll sín ár af gleði og einnig að gleðin lengi ævina.

Hin djúpa gleði – hinn hreini innri fögnuður – sem ekki þarf endilega að birtast á ytra borði í hlátri, glensi, gamni eða skemmtilegheitum – þó hún geti gert það. Hinn himneski fögnuður sem við getum fundið í trúnni og er líka til staðar í sorginni, erfiðleikunum og þjáningunni.

Andstæður tilverunnar eru mikilvægar til skilnings og skynjunar á öllu því sem snertir okkur, á öllu áreiti daglegs lífs og kalla fram innri hrif sem virka hverju sinni ef við þekkjum báðar hliðarnar af eigin raun og forðumst þær ekki – bæði sorg og gleði, grát og hlátur, myrkur og birtu, kulda og yl – nótt og dag.

Og þær andstæður virka í báðar áttir, til þess að njóta gleðinnar þurfum við að þekkja sorgina – og við upplifum sorgina vegna þess að við nutum gleðinnar. Platón sagði: „Alvarlegt efni er ekki unnt að skilja án hlægilegra né andstæður yfirleitt án andstæðna.“

Ég hef það svolítið á tilfinningunni að það að vilja hafa allt skemmtilegt lýsi því viðhorfi nútímans, sem sífellt verður meira og meira áberandi, að best sé að forðast þessar andstæður í lengstu lög. Og einnig að vegna þess að allt eigi að vera leyfilegt sé auðvelt að breyta því sem hefur verið leiðinlegt í það sem þykir skemmtilegt.

En eins og Páll postuli segir: „Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp.“ (1.Kor.10.23).

Þetta veltur líka allt á skilgreiningu: Hvernig skilgreinum við merkingu hugtaksins „skemmtilegt“ eða „skemmtun“. Það getur t.d. verið skemmtilegra í vinnunni eða skólanum en þegar skemmtanir eru sóttar og eins og góður maður sagði: „Sumir sem sækja leikhús skemmta sér aldrei betur en þegar þeir gráta.“

En hvað sem líður skemmtilegheitunum þá er gleðin óendanlega mikilvæg – „Guð býr í glöðu hjarta.“ segir gamall málsháttur. Gleðin er sannarlega megininntak og eðli kristins boðskapar. Gleðin er boðskapur dagsins í dag – jafnvel þó ekki þurfi allt að vera alltaf skemmtilegt.

„Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni …. fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.“ Segir Páll í pistli dagsins – og ég vil bæta við að ef við ræktum trúna í hjarta þannig að hún fá öðlast farveg í verkum kærleikans – þá eigum við þessa góðu von gleðinnar í Guðs ríki. Og það gerir lífið skemmtilegt – hér og um eilífð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

2. sd. e. þrettánda: 2Mós. 33.17-23  /  Róm. 12.6-15  /  Guðspjall: Jóh. 2.1-11

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS