Víðistaðakirkja

 

Orð og steinar

Orð geta verið eins og steinar, slípuð af öldum tímans, gljáfægð á yfirborðinu, litbrigðarík og ljúf í eyrum, en jafnframt hörð og hvöss, svört eins og tinna, meiðandi og særandi svo úr blæðir. Börnum er ungum kennt að kasta ekki steinum í annað fólk, en hvað með orðin? Má kasta þeim í aðra?

Orð eru vandmeðfarin, en eru því miður of oft notuð af aðgæsluleysi og ónærgætni – og stundum af algjöru ábyrgðarleysi. Það er nokkuð viðtekinn nútímaskilningur að það megi segja allt í nafni frelsis, jafnvel þó það bitni á einhverjum öðrum, meiði og jafnvel drepi ef kastað er af afli og hitt á réttan stað.

Á hinn bóginn hefur það löngum verið álitinn kostur að vera orðvar og sýna aðgát í nærveru sálar. Viðhorf eða kannski miklu fremur ómeðvitað háttalag nútímans elur hins vegar á hvatvísi og þeim sjálfgefna rétti hvers og eins að segja allt sem kemur í hugann. En slík hegðun bendir til þess að fólk hugsi ekki alltaf út í hvað það er að segja, þegar það segir allt sem það hugsar, – svo skrýtið sem það kann að virðast.

Rétt eins og börnum er kennt að henda ekki steinum í annað fólk, ætti að leggja ríka áherslu á það í uppeldinu að kenna þeim að henda ekki orðum í annað fólk – að kenna þeim að segja ekki allt sem þau hugsa, en á hinn bóginn hugsa allt sem þau segja. Og raunar held ég að allir ættu að hafa það að leiðarljósi í hvert sinn sem orð eru mótuð á vörum og þeim varpað út í loftið, þar sem þau öðlast þegar í stað sjálfstætt líf.

Orðin geta sameinað fólk en líka dregið í dilka, þau geta fyllt upp í gat þekkingaleysis á högum annarra en líka alið á fordómum, orðin geta stuðlað að jafnræði eða rekið fleyga og búið til aðgreiningu, þau geta vakið von um réttlæti eða kynnt undir reiði og hatur misréttis og útskúfunar.

Orðin, sem sjálfstætt afl og drifkraftur verkanna, ættu því að vera notuð af ábyrgð af þeim sem leiða og stjórna samfélagi fólks til að byggja upp og sameina – já, notuð af virðingu við mismunandi skoðanir og lífsviðhorf, stöðu og aðstæður hvers og eins, með það að markmiði að allir fái að njóta sannmælis, jafnræðis og réttlætis.

Samfélag okkar hér á Íslandi í dag ber með sér ótrúlegan stéttamun – sem birtist helst í misskiptingu veraldlegra gæða, mismunandi fjölskyldu- eða vinatengslum, ólíkum uppruna fólks eða annarri sér-stöðu.

Með öðrum orðum er stéttaskiptingin áberandi vegna þess sem greinir að og markar skil á milli hópa – og þar getum við nefnt augljósan viðhorfs- og aðstöðumun á milli ríkra og fátækra, vinnandi og atvinnulausra, heilbrigðra og öryrkja, Íslendinga og fólks af erlendum uppruna svo dæmi séu tekin.

Þessi skipting, sem hvergi er bundin í lög og reglur, heldur þvert á móti hafnað í sjálfri stjórnarskránni, hefur verið til staðar lengi í íslensku samfélagi, en mér finnst eins og hún hafi aukist í kreppunni – einmitt þegar aðstæður eru hvað bestar til að taka á, breyta og umbylta til betri vegar.

En tilfellið er að stéttamunur nútímans er raunveruleiki og er farinn að bera keim af fyrri tíða stéttaskiptingu. Þau sem til dæmis eru nú í þeim aðstæðum að geta ekki framfleytt sér og sínum verða háð þeim sem hafa aðstæður og líf þeirra í hendi sér og upplifa um leið það vald sem varpar skugga á líf þeirra.

Birtingarmyndin þessa mánuðina og misserin eru t.d. langar biðraðir fólks sem er nauðbeygt til að þiggja daglegt brauð sem ölmusu – og upplifir þannig niðurlægingu frammi fyrir samborgurum sínum. Slíkur veruleiki er samfélagi okkar til skammar.

Orð eru til alls fyrst – og ekki síst til breytinga. Við lifum í hverfulum heimi og megum engan tíma missa, því við vitum ekki daginn eða stundina. Þegar hugað er að breytingum og innihaldi orða í leit að þeim sannleika sem getur leiðbeint hér í heimi, þá er það Orðið eina og sanna sem leggur grundvöllinn. Orð Guðs sem öllum öðrum orðum er æðra – og mun lifa þó himinn og jörð munu undir lok líða.

Í guðspjalli þessa sunnudags, annars sunnudags í aðventu, erum við hvött til að gæta okkar, vaka og vera viðbúin því við vitum ekki hvenær tíminn er kominn.

Það er aðventa og við undirbúum okkur fyrir helga jólahátíð – vonandi flest til að fagna komu Frelsarans í heiminn. „Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika…“ segir í jólaguðspjalli Jóhannesar.

Jesús Kristur er Orð Guðs holdi klætt, lifandi og virkt í heiminum nú sem fyrr. Jesús kom til að breyta og bæta, sameina og sigra, hann kom til að gefa heiminum von og gerði það með því að ganga til hvers og eins óháð samfélagsstöðu og umfaðma af kærleika Guðs sem aldrei fer í manngreinarálit.

Hann kom til að opinbera sannleikann um líf í fullri gnægð sem öllum stendur til boða sem það vilja þiggja – og hann kom til að frelsa frá helsi ranginda og opna leið inn í ríki réttlætisins. Hann staðfesti síðan verk sín, sem sprottin voru af Orði Guðs, í krossdauða og upprisu til eilífs lífs.

Hann þekkir dýpsta eðli manneskjunnar, hann veit hvað orð hennar eru margslungin og oft áhrifarík til góðs eða ills á þeirri stundu sem þau fá líf í tímanum, jafnvel þó þau séu máttlaus andspænis eilífu Orði Guðs. Þess vegna segir hann við okkur, sem lifum frá einni stundu til þeirrar næstu og vitum ekki hvenær tími okkar er kominn: „Gætið yðar, vakið!“

Jesús hefur falið okkur verkefni að vinna og vill ekki finna okkur sofandi og verklaus þegar hann kemur. Hann kom í upphafi til að breyta og fól okkur hverju og einu að vinna að þeim breytingum með sér – með því mæla og breyta af kærleika.

Ef hann birtist hér allt í einu og gengi um á meðal okkar og sæi alla misskiptinguna og biðraðirnar eftir mat – mætti ætla að hann fyndi okkur öll í fastasvefni. Hitt er svo jafnvíst að hann er í raun á meðal okkar, við mætum honum á hverjum degi og með sínum hætti minnir hann okkur á að vaka – t.d. með því að standa sjálfur í biðröðinni.

Og nú þegar við undirbúum okkur fyrir jólin þá ættum við svo sannarlega að vakna og halda okkur vakandi. Vera vakandi í trúnni, vakandi í voninni og vakandi í kærleikanum. Vera vakandi í orðum og verkum.

Það er útlit fyrir að stór hluti þjóðarinnar eigi erfitt með að kosta hina veraldlegu umgjöð jólanna, veita sér og sínum eitthvað betra í mat og gleðja með gjöfum kærleikans.

Góð orð kosta ekki neitt, „af gnægð hjartans mælir munnurinn.“ Orð geta gert meira en dauðir hlutir séu þau notuð á réttan hátt – og sérstaklega ef þau eiga sér rætur í Orði Guðs sem kom í heiminn. Og slík orð eigum við að nota óspart til að hrinda þeim verkum í framkvæmd sem útiloka dilkadrátt og stéttaskiptingu en sameina alla í samfélagi jöfnuðar og réttlætis.

Og nú eru aðstæður einmitt þannig í samfélaginu að það ætti að vera lag til að breyta með þeim hætti, hverfa frá misskiptingunni og efla þau gildi sem í hávegum skulu höfð og eiga öll rætur í boðskap þess Orðs sem kom í heiminn á jólum, sem er Jesús Kristur á meðal okkar: Það eru gildi eins og kærleikur, jafnrétti, heiðarleiki, jöfnuður og réttlæti.

Þessi orð eiga sér hljómgrunn nú á meðal þjóðarinnar, eins og fram hefur komið í niðurstöðum þjóðfunda, og veruleiki þeirra þarf því að öðlast birtingarform í öllum þáttum samfélagsins – í raunverulegum breytingum sem skila árangri nú þegar og til framtíðar.

Í þeim verkum sem öðrum er tíminn jafnt bandamaður sem óvinur. Við eigum þá stund sem er hverju sinni en ekkert meira og þurfum að nota hana vel því annars er hún farin og um leið glatað tækifæri.

Hvort sem við höfum stein í hendi eða orð á vörum þá er það undir okkur komið hvort rifið er niður eða byggt upp, því orð eru stundum eins og steinar – og Orð Guðs er bjargið sem allt byggir á.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

2. sd. í aðventu: Jes. 35.1-10  /  Heb. 10.35-37  /  Guðspjall: Mk. 13.31-37

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS