Víðistaðakirkja

 

Náð Guð er ný á hverjum morgni

Gangur tímans er taktviss, en þegar maðurinn hefur loksins lært að fylgja þeim takti í lífi sínu, má segja að tíminn hafi náð slíku forskoti að ekki sé auðvelt að vinna það upp. Tíminn heldur stöðugt áfram, en við teljum okkur alltof oft hafa allan þann tíma sem við þurfum – og skyndilega uppgötvum við að það er ónýttur tími að baki. Þegar tækifæri glatast,- renna úr greipum okkar eins og fínn sandur á milli fingranna, þá er það oft vegna þess að við erum ekki tilbúin til þess að meta gildi þess sem verðmætast er og nota líðandi stund því til framdráttar.

Í þessum heimi reynum við oft að fara í skollaleik við tímann,- erum sem blind, fálmandi eftir gulli og silfri veraldar í sjóðum tímans, en gleymum því á vegferðinni, að tíminn heldur stöðugt áfram og setur mark sitt á allt sem í kringum hann er; okkur sjálf og þá veraldlegu hluti sem við reynum að auðga líf okkar með.

Tíminn öðlast forskot, því um leið og tími veraldarinnar lengist og lengist, þá styttist í réttu hlutfalli sá tími sem okkur er gefinn til ráðstöfunar í jarðnesku lífi,- hann styttist sá tími sem okkur er gefinn til þess að hlú að því sem er raunverulega verðmætast og tíminn getur aldrei rýrt með nokkrum hætti. Það er trúin og líf okkar með Jesú Kristi.

Við erum leitandi í lífinu, en þegar við finnum og uppgötvum líf okkar í frelsaranum Jesú Kristi og tileinkum það honum í trú og kærleika, þá lærum við fyrst að fylgja takti tímans í þessu jarðneska lífi. Þegar við fáum með þeim hætti auðgað okkar andlega líf og hlúð að lífsins tré svo það beri ríkulega ávexti, þá getum við fyrst notið alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða, einnig þess tímanlega.

„Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona: Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín! Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vil ég vona á hann. Góður er Drottinn þeim er á hann vona, og þeirri sál er til hans leitar. Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. Rannsökum breytni vora og prófum og snúum oss til Drottins. Fórnum hjarta voru og höndum til Guðs á himninum.” (Hl 3.21-26,40-41)

Náð Guðs er ný á hverjum morgni, segir í Harmljóðunum, og hennar getum við notið hvern dag lífs okkar; svo hver mínúta verði full innihalds. Þá skynjum við hverja örstutta stund að líf okkar á sér tilgang, sem er óháður takti tímans og þeim afleiðingum sem fylgja í slóð hans, forgengileika og dauða.

Náð Guðs gefur okkur þann tilgang sem er æðri öllu veraldlegu og tímanlegu,- tilgang sem við sjáum trúarsjónum; bjart ljós handan tímans og ofar honum, og sem sendir okkur geisla sína til að hrekja burt myrkrið sem umlykur okkur í ráðleysi, angist og firringu.

Það er tilgangurinn í Jesú Kristi, fyrirmynd hans í lífi og dauða. Það er tilgangurinn sem hann veitir okkur vegna þeirrar hlutdeildar sem við öðlumst af trú í upprisu hans til eilífs lífs.

En í ljósi þessa þurfum við að rannsaka breytni okkar, er við snúum okkur til Drottins. Ekki svo að skilja að verkin sem birtast í breytni okkar geti ein og sér gefið okkur réttlætingu Guðs,- síður en svo, heldur að við skoðum verk okkar í ljósi trúarinnar, sem er hinn eiginlegi mælikvarði á góð og kærleiksrík verk.

Við getum lært af því að göfga líf okkar og annarra, en það er þó Guð sem metur og dæmir af náð sinni og kærleika. Verk okkar skulu unnin í kjölfar þess að við fórnum hjarta okkar og höndum til Guðs á himninum. Af trú og auðmýkt.

Áður en síðustu skref ársins 2006 eru stigin, síðustu verkin unnin og síðustu orðin eru sögð; áður en fyrsta skrefið með óræðum verkum og orðum er stigið inn í hið nýja ár 2007, þá skulum við horfa yfir umhverfi tímans, og athuga hvort við höfum glatað mörgum gullnum tækifærum til þess að fegra og bæta líf okkar. Við skulum líta inn í garð andans, og sjá hvort lífsins tré blómgist og beri ávöxt.

En við skulum ekki staldra of lengi við, svo tíminn fái ekki of mikið forskot. Við skulum ekki staldra við í sjálfsásökun vegna vannýttra tækifæra, því ef við gerum það þá missum við ef til vill að þeim nýju tækifærum sem bíða okkar og birtast í geislum þess ljóss sem allt stefnir til. Því rétt eins og náð Guðs er ný á hverjum morgni, svo gefur hann okkur ávallt ný og ný tækifæri.

„Æ, hversu blakkt er gullið orðið, umbreyttur málmurinn dýri,…” (Hl 4.1a) Svo segir í Harmljóðunum. En gullið er ekki alltaf skínandi, þó okkur finnist oft eins og við séum að missa af tækifæri lífs okkar þegar það glóir sem skærast. Og einmitt þess vegna erum við ekki alltaf í takt við tímann, því við leggjum okkur svo fram um það að nýta hin veraldlegu tækifæri sem bjóðast, og gefa ef til vill verðleika, virðingu og ríkidæmi svo allt verður falt sem hugurinn girnist.

En gullið verður fljótt blakkt, þegar mönnum verður ljóst að metorðastigar veraldlegra verðleika leiða ekki upp á við í hinum andlega heimi, að virðingin sem ávinnst hér er völt og takmörkuð og að veraldlegur auður kaupir ekki allt, ekki frið hjartans og sálarró, ekki hamingju og heilsu, ekki nýjan dag þegar tíminn er stunginn af.

Því er svo mikils um vert að sjá í gegnum tímann, allt það sem varanlegt er og verðmætt í andlegum skilningi. Það er að leggja rækt við þann gróður í garði andans sem til er orðinn fyrir tilstilli Krists, og aðeins ber ávöxt í trú á hann og frelsunarverk hans.

Í trúnni leggjum við okkur frekar fram í öllum verkum okkar, jafnt stórum sem smáum, og ekki síst í þeim smáu. Því allar athafnir okkar krefjast trúmennsku og ábyrgðar; og ef við lifum, vinnum og mælum með þeim hætti þá nýtum við þau tækifæri sem okkur eru gefin, en við látum allt of oft okkur úr greipum ganga, vegna hins mannlega breyskleika að vilja öðlast allt strax.

Í indverskri sögn greinir frá kóngsdóttur, sem mátti fara yfir akur og tína öx. Henni var heitið að öll öxin, sem hún tíndi, yrðu að demöntum. En hún mátti aðeins fara einu sinni yfir akurinn. Kóngsdótturinni þótti fyrstu öxin ósköp lítil. Ætlaði hún því að bíða þangað til hún kæmi í miðjan akurinn. En þegar þangað kom fannst henni öxin þar ekki heldur nógu stór. Þannig hélt hún áfram og vildi ekki líta við öxunum uns hún var komin yfir allan akurinn. Þá hugðist hún hrifsa nokkur öx í skyndi en þá var það orðið of seint.

Okkur er gefið að ganga aðeins einu sinni yfir lífsins akur, og hvernig nýtum við tækifærin okkar? Skiljum við viljandi eftir þau sem við teljum ekki svo mikils virði, því við væntum annarra og betri framundan,- annarra tækifæra sem bíða í skjóli tímans og birtast fyrr en varir. Við skulum ekki láta þau hverfa einnig í tómið að baki okkur. Nýtum heldur hvert tækifæri og hverja stund til hins ítrasta að vilja Guðs, honum til dýrðar og okkur til blessunar.

Kristur kom til okkar í heiminn á jólum og á ævi sinni var hann okkur fyrirmynd; og í þeirri fyrirmynd er hann verkstjóri okkar í lífinu, sem kennir okkur að tíminn er dýrmætur. „Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið.” Svo mælir Jesús til okkar í Jóhannesarguðspjalli. Og á áramótum, þegar tíminn virðist nema staðar eitt augnablik, skulum við tileinka þá stund Guði almáttugum og kærleiksríkum, með lofgjörð, þökkum og bæn um handleiðslu og blessun á komandi ári. Góður Guð gefi okkur öllum gæfuríkt og gleðilegt nýtt ár.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 

Prédikun flutt við aftansöng á gamlársdag 2006,         Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS