Víðistaðakirkja

 

Lifum í andanum

Við komum hér saman til sunnudagsguðsþjónustu, kirkjan í kirkjunni og ef til vill finnum við til nándar við kirkjuna og kannski um leið til fjarlægðar við kirkjuna.

En hvað í ósköpunum er ég að segja? Þessi setning er meira en lítið ruglingsleg og hljómar alveg óskiljanlega. En samt sem áður býr ákveðin hugsun að baki sem ég vil útskýra betur í prédikun minni í dag.

Það er mikið talað um kirkjuna þessa dagana, en þegar talað er um kirkjuna þá er ekki alltaf verið að tala um nákvæmlega sama hlutinn. Hugtakið kirkja hefur fleiri en eina merkingu.

Kirkjan er þetta hús vígt til þjónustu við Guð, kirkjan erum við sem erum hér innan veggja og líka öll þau sem játa trú á Krist og fylgja honum í lífi sínu, þ.e. söfnuður kristinna manna, kirkjan er líka himnesk, samfélag heilagra, sem við viljum nálgast þegar við komum saman til helgihalds og kirkjan er einnig samfélagsleg jarðnesk stofnun. Öll þessi merkingarsvið birta mismunandi veruleika en skarast eigi að síður.

Umræðan að undanförnu hefur að mestu snúist um kirkjuna sem veraldlega stofnun og það með réttu, því það er augljóst mál að þannig birtist hún mjög mörgum eftir þá atburði sem átt hafa sér stað innan vébanda hennar – og rekja má til skelfilegra kynferðisglæpa fyrrum æðsta leiðtoga kirkjunnar sem komu fyrst fram í dagsljósið fyrir 14 árum.

Hugtakið kirkja er líka oft notað um stétt okkar prestanna sem leiðtoga safnaðanna og innan kirkjunnar sem stofnunar. Það er rétt og mörgum finnst prestarnir þess vegna vera valdastétt sem hafi misbeitt valdi sínu til þess að hylma yfir alvarlegan glæp. Það má líka að nokkru til sanns vegar færa þegar horft er til viðbragða prestanna og kirkjunnar við ásökunum í garð þáverandi biskups undir lok síðustu aldar.

Það er ljóst að á þeim tíma vantaði farveg innan kirkjunnar til að taka á slíkum málum og ég tel að m.a. þess vegna hafi prestar, og þar er ég með talinn, ekki tekið rétt á málum – og hafi þannig brugðist sem þjónar fólksins, ekki endilega af ásetningi heldur miklu fremur af vanmætti og úrræðaleysi. Prestarnir eiga að mínu mati fyrst og fremst að vera þjónar kirkjusafnaðanna, fólksins, miklu fremur en þjónar kirkjunnar sem veraldlegrar stofnunar.

Það er hlutverk prestsins að gæta að hag lítilmagnans gagnvart öllu valdi – og þá ekki síst gagnvart neikvæðu valdi, spillingu og misbeitingu sem kann að birtast innan kirkjunnar sjálfrar sem stofnunar þar sem breyskleiki býr ekki síður en annars staðar.

Það er ljóst í þessu tiltekna máli að sú þjónusta presta við konur í neyð brást og fyrir það ber kirkjunni að biðjast fyrirgefningar – sem hún hefur nú um síðir gert.

Það er sárt til þess að hugsa að svo skelfileg brot hafi verið framin af æðsta trúarleiðtoga kirkjunnar og að í kjölfarið hafi kirkjan brugðist þolendum brotanna – en þeirri liðnu sögu verður ekki breytt héðan af.

Það er hins vegar ýmislegt sem má, þarf og hefur breyst í kjölfar þess lærdóms sem af liðnum átburðum má draga – og hið fyrsta er vitanlega að komið verði í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig. Og þar held ég að skipti einna mestu máli hvernig við prestarnir bregðumst við ef öðlumst vitneskju um einhver slík brot innan kirkjunnar í framtíðinni. Í dag eru til fastmótaðar reglur um rétt viðbrögð í slíkum málum.

Presturinn á að vera auðmjúkur þjónn kirkjunnar, þ.e. síns safnaðar. Hann þarf að leggja sig fram um að vernda þá sem minna mega sín, hlusta á þá sem til hans leita og umfram allt að bera hag og heill barnanna fyrir brjósti.

Og fyrirmyndin er alltaf til staðar og hefur alltaf verið og þarf alltaf að vera. Jesús Kristur er hin sanna og eina fyrirmynd, ekki venjulegir menn þó þeir gegni mikilvægum andlegum leiðtogahlut-verkum. Það er aðeins ein fyrirmynd fyrir mig sem prest og mann – og auðvitað allt kristið fólk, þ.e. Jesús Kristur.

Hann rekur réttar kúgaðra,
gefur hungruðum brauð.
Drottinn leysir bandingja,
Drottinn opnar augu blindra,
Drottinn reisir upp niðurbeygða,
Drottinn elskar réttláta,
Drottinn verndar útlendinga,
hann annast ekkjur og munaðarlausa
en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

Okkar evangelíska Lútherska kirkja á að byggja á fyrirmynd hans – hún á ekki að vera valdastofnun heldur samfélag trúaðra þar sem allir eiga að gegna hinum almenna prestsdómi með því að útbreiða fagnaðarboðskapinn í kærleiksríkri breytni,- þar sem allir eiga að njóta sannmælis og tiltrúar þeirra sem leiða og þjóna samfélaginu,- þar sem allir eru eitt í Kristi Jesú.

„En Íslenska þjóðkirkjan er ekkert annað en ríkiskirkja“, segja þá margir, „og getur því aldrei orðið venjulegt trúfélag þar sem slíkt samfélag fær að lifa og dafna“. Aðskilnaður ríkis og kirkju er sjónarmið útaf fyrir sig sem ég ætla ekki að ræða með beinum hætti hér, heldur benda á að með því að nefna þjóðkirkjuna ríkiskirkju, eins og svo algengt er að heyra í fjölmiðlum, kemur fram rangur skilningur á stöðu kirkjunnar í nútímanum.

Þar er fólginn misskilningur á stöðu, stjórn og starfsháttum þjóðkirkjunnar eins og málum er háttað nú. Stjórnsýsluleg tengsl ríkis og kirkju eru nánast engin lengur, kirkjan hefur fullt sjálfstæði í öllum sínum innri málum. Tengslin í dag eru fyrst og fremst fólgin í samstarfi sem byggir á gagnkvæmum samningum. Kirkjan er að lögum sjálfstætt trúfélag en með samkomulagi þá innheimtir ríkið félagsgjald aðildarfólks kirkjunnar – þeirra er tilheyra söfnuðinum.

Við hér í Víðistaðasókn upplifum okkur ekki sem deild í einhverri ríkisstofnun, í daglegum störfum upplifum við okkur ekki endilega sem deild í kirkjunni sem stofnun heldur. Hver sókn er þannig nokkuð sjálfstæð eining í sínum rekstri og innri málum þó hún lúti öllum starfsreglum þjóðkirkjunnar

En það sem þó skiptir alltaf mestu máli er kirkjan, söfnuður trúaðra, sem játar trú á Frelsara sinn, leggur sig fram um að fylgja honum og hafa hann sem leiðtoga og fyrirmynd í lífi sínu og starfi. Það er hin raunverulega kirkja og ég vona sannarlega að fólk segi sig aldrei úr henni þó það kunni að segja sig úr þjóðkirkjunni.

Það er að mörgu leyti auðvelt að skilja reiði fólks sem hefur tekið þá ákvörðun að segja sig úr þjóðkirkjunni í mótmælaskini vegna veikra viðbragða yfirstjórnar kirkjunnar þegar mál fyrrum biskups komu aftur fram í dagsljósið með enn fleiri alvarlegum ásökunum.

En um leið þá bitna úrsagnirnar í raun ekki á kirkjunni sem stofnun heldur miklu fremur kirkjunni sem söfnuði fólksins. Úrsagnir þýða færri greiðendur og um leið minni tekjur til sóknanna, en allt starf safnaðanna, ytra sem innra starf er rekið fyrir sóknargjöldin eingöngu. Úrsagnir hafa því bein áhrif á þjónustu kirkjunnar í heimasöfnuði – til viðbótar við þá skerðingu sem hefur orðið á sóknargjöldum á síðustu misserum.

Þetta eru því erfiðir tímar fyrir kirkjuna, en við sem innviðir kirkjunnar – hér sem annars staðar – gefumst að sjálfsögðu aldrei upp, heldur snúum vörn í sókn. Við gerum hreint fyrir okkar dyrum, hleypum birtunni inn og tökum til í öllum skúmaskotum, þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um að kirkjan mun aldrei framar líða kynferðisglæpi innan vébanda sinna eða þöggun á slíkum voðaverkum.

Og jafnframt þarf kirkjan að undirstrika með afgerandi hætti að þar innan dyra sé börnunum óhætt.

Kirkjan er andlegt samfélag og dafnar ef við ástundum það sem andlegt er – með líf og starf Krists að leiðarljósi. Hann blessaði börnin, umgekkst þá sem voru útskúfaðir, hjálpaði hinum þurfandi og læknaði sjúka. Hann hvatti fólk til að trúa af einlægni barnsins og ástunda ávexti andans.

Kirkjan verður heil og ein í Kristi ef við forðumst holdsins verk sem lýst er í pistli dagsins en leitumst við að tileinka okkur ávexti andans sem þar eru einnig nefndir og eru: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Með þeim hætti verðum við sem trúarsamfélag kirkja í kirkjunni og fáum upplifað nánd við hina himnesku kirkju – sem varir að eilífu.

Dýrð sé Guð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

14. sd. e. þrenningarhátið: Slm. 146  /  Gal. 5.16-24  / Guðspjall: Lúk. 17.11-19

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS