Víðistaðakirkja

 

Í eitt skipti fyrir öll

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við höfum hlýtt að guðspjall dagsins, þar sem segir frá því þegar Jóhannes skírari skírði Jesú. Sú skírn var þó að miklu leyti frábrugðin þeirri skírn sem Kristur stofnsetti og sendi lærisveina sína til að framkvæma meðal þjóðanna. Við skulum því aðeins hugleiða eðli og inntak hinnar kristnu skírnar hér í dag.

Skírn Jóhannesar var fyrst og fremst iðrunarskírn, þ.e. skírn til fyrirgefningar syndanna. Fólk kom til Jóhannesar og játaði syndir sínar og fékk þá niðurdýfingarskírn, sem var þá í rauninni táknræn hreinsun syndanna. Hinum gömlu syndum var drekkt, og þá var hægt að hefja nýtt líf helgað Guði.

Í framhaldi af þessu er einmitt athyglisvert að skoða af hverju Jesús kom til Jóhannesar að biðja um skírn,- hann sem var syndlaus, sem kemur glöggt fram í ýmsum ritningarstöðum Nýja testament-isins, t.d. í Hebreabréfinu (4.15) þar sem segir:  „Ekki höfum við þann æðstaprest, er eigi geti séð aumur á veikleika okkar, heldur þann sem freistað var á allan hátt eins og okkar, en án syndar.”

Það er greinilegt að Jóhannes skírari hefur gert sér grein fyrir þessu, því hann vildi varna Jesú að hann tæki skírn hjá honum og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!” Og þá segir Jesús setningu sem erfitt getur reynst að skilja í fyrstu:  „Lát það nú eftir.  Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.”

Og við getum spurt hvaða réttlæti sé í því að hinn syndugi skíri hinn syndlausa iðrunarskírn. Jú, með því var fullnægt réttlæti Guðs, sem sendi soninn í heiminn til þess að taka á sig syndir heimsins, þ.e. allra manna. Jesús var „Guðs lamb sem bar synd heimsins.”

Í iðrunarskírninni er hann að búa sig undir að taka það mikla hlutverk að sér, að bera syndir heimsins, og fullnægja þannig réttlæti Guðs yfir syndugum heimi.  Páll postuli orðar þetta svo í 2. Korintubréfi (5.21): „Guð dæmdi Krist, sem þekkti ekki synd, sekan í okkar stað til þess að hann gerði okkur réttlát í Guðs augum.”

Í iðrunarskírn Jóhannesar sjáum við þannig hvernig Guð á frumkvæðið í því að gefa heiminum réttlæti sitt í Jesú Kristi.  En það atriði í skírnarskilningnum veldur því miður oft miklum ágreiningi kristinna kirkjudeilda þegar um er að ræða skírn í vatni og heilögum anda.

Ég hitti eitt sinn mann og tókum við tal saman. Hann sagði mér frá því að hann hefði eignast trú og hefði gengið í kristinn söfnuð annan en þjóðkirkjuna. Hann sagði mér að fljótlega hefði hann þegið skírn í söfnuðinum. Ég spurði hann þá hvort hann væri ekki skírður; hvort hann hefði ekki verið skírður sem barn.  Hann svaraði því játandi og bætti við að honum fyndist barnaskírnin vita gagnslaus, því barnið væri óviti og gæti ekki svarað fyrir sig.  En þegar hann hefði verið skírður sem fullorðinn maður, hefði hann verið búinn að eignast trú og getað játað hana.

Sumir kristnir söfnuðir framkvæma eingöngu trúaðraskírn, þ.e. skíra þá sem eru orðnir fullorðnir og geta svarað með játningu sinni.

En í rauninni er það ekki aldur skírn-þegans sem skiptir máli, heldur hvort það sé Guð sem eigi frumkvæðið í verkun skírnarinnar eða ekki. Skilningur lútherskrar kirkju er einmitt sá að það sé Guð sem gefi í skírninni náðargjöf sína, sem er þannig alveg óháð aldri skírnþegans.

Skírnin er því ekki staðfesting á trú einstaklings eða fólgin í játningu hans í þeim efnum.

Út frá því sjónarhorni hlýtur að vera jafnrétt að skíra börn sem fullorðna, og í rauninni mjög eðlilegt og rökrétt að það sé reglan að börn séu skírð, svo þau fái strax frá upphafi að njóta gjafa guðs og vaxa þannig til trúar er þau öðlast vit og þroska.

Skírnin er heilagt sakramenti, þ.e. helgidómur, sem Kristur hefur sjálfur stofnsett. Athöfnin felur í sér endurfæðingu skírnþegans, því að andlegum hætti deyr hann í skírninni með Kristi, en öðlast nýtt líf í upprisunni. Þannig er skírnin nýtt upphaf, sem felur óhjákvæmilega í sér framhald til trúar á Krist.

Skírnin er því einstæður atburður, þar sem Guð sendir okkur náð sína og gerir okkur kleift að fæðast að nýju fyrir vatn og heilagan anda. Skírnin er eins einstæður atburður og dauði Krists og upprisa.  Kristur dó einu sinni og reis upp einu sinni, þó verkun atburðarins vari eilíflega.

Í pistli dagsins segir einmitt: „Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs.”

Með upprisu sinni gaf Kristur okkur nýtt ljós og líf, sem við eignumst í eitt skipti fyrir öll í skírninni, en það er ekki þar með sagt að við tileinkum okkur alltaf þær gjafir.  Til þess að skilja betur hversu einstæð skírnin er í lífi okkar getum við tekið einfalda og ófullkomna líkingu úr daglegum veruleika.

Þegar húsin sem við búum í voru byggð var leiddur inn í þau strengur, sem leiðir rafmagnið inn í híbýlin – óháð viðbrögðum okkar.  Það sem við þurfum hins vegar að gera viljum við fá ljós er að stiðja fingri á þartilgerðan rofa – og ljósið kviknar. Við getum þannig kveikt og slökkt að vild.

Og jafnvel þó við veljum að hafa slökkt, þá breytir það ekki því að raf-magnið er til staðar, svo að þegar sú stund kemur að við viljum kveikja og ýtum á rofann, þá flæðir ljósið um umhverfi okkar. Við þurfum ekki að leggja nýjan rafmagnskapal inn í húsið.

Það er nefnilega líka staðreynd að þó að skírnin sé framkvæmd bara einu sinni og vari þannig eilíflega, þá kjósa sumir að slökkva á ljósinu í lífi sínu og lifa í myrkrinu. Það eru margir sem falla frá trúnni, en flestir taka einhvern tíman afturhvarfi; frelsast eins og það er stundum kallað.

Þegar slíkt gerist er það ekkert annað en afturhvarf til skírnarinnar, rétt eins og Jesús lýsir í sögunni af týnda syninum, sem sneri aftur heim, en leitaði ekki að nýjum föður eða nýju heimili.

Skírnarskilningurinn er misjafn.  Það eru t.d. talsvert margir sem líta á skírnina sem nafngjöf fyrst og fremst, en sú ytri merking hefur tengst skírninni á síðari tímum.

Það er er mikilvægt að fræða fólk um inntak skírnarinnar, sem er einn mikil-vægasti þáttur í lífi hvers einstaklings jafnvel þó fæstir muni eftir athöfninni sem slíkri.

Þannig vakna e.t.v. einhverjir til vitundar um þá dýrmætu náðargjöf Guðs sem þeim eitt sinn hlotnaðist og varir alla ævi og gefur fyrirheit um eilíft líf að henni lokinni hér á jörðu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Sd. í föstuinngang: Jes. 52.13-15  /  1. Pét. 3.18-22  /  Guðspjall: Mt. 3.13-17

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS