Víðistaðakirkja

 

Hvað gerir þú við tímann?

Ég fékk fyrir skömmu í netpósti eftirfarandi sögu sem segir frá Reykvíkingi sem hitti fiskimann í litlu þorpi úti á landi. Og Reykvíkingurinn spurði fiskimanninn hvað hann gerði við tímann á þessum stað.

„Ég lifi góðu lífi”, sagði fiskimaðurinn. „Ég sef frameftir á morgnana, fiska dálítið, leik mér við börnin mín, tek “siesta” með konunni, rölti niður í þorpið á kvöldin og fæ mér vínglas og leik á gítar með vinum mínum.”

„Ég get gefið þér góð ráð”, sagði Reykvíkingurinn. „Ég er ráðgjafi með MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Þú átt að veiða meira. Þá færð þú meiri afla og getur keypt þér stærri bát og þá veiðir þú enn meira. Síðan getur þú keypt
heilan flota af bátum og þá ertu ekki lengur háður því að selja í gegnum milliliði en getur verslað beint við verksmiðjurnar, sett upp verksmiðjur og jafnvel ráðið markaðnum. Þá þarftu ekki lengur að búa hér heldur getur flutt suður.

„Hvað tekur þetta langan tíma?” spurði fiskimaðurinn. „Svona 20-25 ár.” „En hvað svo?” spurði fiskimaðurinn. „Þá kemur stóra stundin, sjáðu til. Þú breytir fyrirtækinu í hlutafélag og ferð á verðbréfamarkað og selur og stendur uppi með marga milljarða.”

„Já”, sagði fiskimaðurinn „en hvað svo?” Reykvíkingurinn varð dálítið hugsi en sagði síðan: „Þá flytur þú í lítið fiskiþorp, sefur frameftir á morgnana, fiskar dálítið, leikur við börnin, tekur „siesta” með konunni, röltir á kvöldin niður í þorpið og færð þér vínglas og leikur á gítar með vinum þínum.!!!”

Já, hvað gerir þú við tímann? Hvernig fyllir þú lífsfötuna þína og hvað setur þú í hana? Eitthvað sem gefur líðandi stund fyllingu og gleði eða ef til vill einskisverða hluti sem einungis íþyngja á stuttri ævigöngunni?

Sagan um ráðgjafann og fiskimanninn flytur vissulega ákveðinn boðskap á gamansaman hátt,- vekur til umhugsunar um það hvernig við viljum haga lífi okkar. Á einfaldan máta er lífi fiskimannsins stillt upp á tvo vegu, eins og honum sé gefinn kostur á að víkja af sínum venjubundna vegi og taka beygju við vegamót yfir á óþekkta leið sem gefur fyrirheit um veraldleg auðæfi, – og hann spyr: „en hvað svo?”

Við stöndum í raun daglega í sporum fiskimannsins, þó valmöguleikarnir varði misjafna hluti í stóru jafnt sem smáu, en grundvallarspurningarnar að baki valinu eru oftar en ekki hinar sömu: „Hvað geri ég við tímann? Og hvað svo?”

Í guðspjalli sunnudagsins í dag, síðasta sunnudags kirkjuársins, gefur Jesús einnig tvo möguleika í dæmisögu sinni sem hann segir lærisveinum sínum. Í líkingarmáli sínu skiptir hann fólki í tvo flokka, sauði og hafra, þ.e. kindur og geitur. Samtímafólk skyldi líkinguna vel, því kindur voru í sérstöku uppáhaldi hjá gyðingum en geiturnar ekki mjög hátt skrifaðar. Jesús er að segja lærisveinum sínum frá þeim Dómi sem allra bíður á efsta degi og hvernig sumir muni frelsast en aðrir glatast.

Flest bendir til þess að hér sé Jesús fyrst og fremst að tala um þá sem hafi heyrt boðskap hans, en ekki heiðingja, þá sem ekki hafi heyrt hans getið,- um afdrif þeirra fáum við ekki að heyra hér í þessum texta. En í dæmisögunni segir Jesús hvernig hinum verði upp skipt í þessa tvo hópa. Sauðirnir eru þeir sem auðsýndu öðrum kærleika, en hafrarnir þeir sem þekktu kærleiksboðskapinn en stóðu þó fjarri í andstöðu við kristindóminn.

En hafa ber í huga að með þessu er Jesús ekki að leggja lærisveinunum línurnar um það hvernig þeir geti dæmt aðra, heldur þvert á móti að áminna þá um að líta í eigin barm, íhuga eigin breytni, trú og lífsstefnu.

Í þessum orðum er fólgin áminning til okkar sem á hann hlýðum. Hvað gerum við við tímann? Hvernig viljum við lifa óháð því hvernig aðrir haga sínu lífi? Viljum við leggja okkur fram um það að komast í hóp sauðanna og hvernig gerum við það? Með því að huga að þeim sem minna mega sín í samfélaginu og leitast við að hjálpa þeim af kærleika?

Jú, vissulega, en við getum þó aldrei keypt okkur frelsun með góðverkum. Við getum ekki hlustað á ráðgjafa sem segir okkur að veiða meira með því að gera fleiri góðverk og afla þannig stærri inneignar á himnum, nema ráðgjafinn bendi ennig á forsendu góðverkanna sem er trúin. Trúin á Krist er hvati kærleikans sem aftur er aflgjafi góðra verka. Sé trúin til staðar í hjarta þá eru verkin unnin af einlægri þörf til að gera öðrum gott, en ekki með því hugarfari að fá eitthvað í staðinn eða til að friða slæma samvisku.

Þeir eru margir ráðgjafarnir sem birtast okkur í heiminum og ráðleggingarnar svo margar að erfitt getur reynst að greina úr það sem bitastætt kann að vera og varðar gæfu og lífsgæði. Orð ráðgjafans í sögunni vöktu fiskimanninn til umhugsunar og hafa ef til orðið honum ákveðin áminning um það hvernig hann sjálfur vildi haga sínu lífi. Hann þurfti a.m.k. að bregðast við með því að íhuga spurningar um líf sitt, um möguleikana, kosti þeirra og galla.

Þegar við hins vegar hlýðum á Jesú erum við ekki að hlusta á innantóm ráð,- við erum að hlusta á orð sem fela í sér hinn æðsta sannleika sem varðar líf okkar allt, hér og nú, alla ævi og út yfir gröf og dauða. Í dæmisögu Jesú í guðspjalli dagsins verða spurningarnar stærri en við getum nokkurn tíma heyrt frá ráðgjöfum þessa heims og áminningin ennþá þyngri og alvöruþrungnari, – og því meiri ástæða til þess að við veitum orðum hans verðuga athygli, íhugum þau vel og þá möguleika sem við höfum fyrir eigið líf.

En hvað getum við svo sem gert? Dómurinn er ekki í okkar höndum. En við eigum samt fjársjóð sem er öllum veraldlegum auð dýrmætari og eftirsóknarverðari. Við eigum fjársjóð trúarinnar sem Guð hefur gefið okkur, einmitt til þess að okkur megi betur auðnast að ganga réttan veg til frelsunar.

Trún gefur ekki einvörðungu kærleikann sem knýr okkur til góðra verka, til að hjálpa þjáðum, hungruðum og þyrstum, sjúkum og sorgmæddum, einmana og útskúfuðum, heldur gefur trúin einnig vonina, sem gerir frelsunina raunverulega í huga dauðlegs manns. „Í voninni erum við hólpin orðin” segir í Rómverjabréfinu.

„Ég lifi góðu lífi”, sagði fiskimaðurinn. Hvernig viljum við lifa? Hvað viljum við gera við tímann? Í daglegu lífi erum við sífellt að mæta Jesú Kristi, í mynd þeirra sem þarfnast kærleikans í lífi sínu. Og þá þurfum við að bregðast við, ekki endilega af yfirvegaðri skynsemi þó hún geti vissulega fylgt með, heldur fyrst og fremst af þeirri knýjandi þörf trúarinnar sem hvetur til góðra verka. Þannig auðgum við lífið, þannig fyllist lífsfatan af hreinu vatni hjálpræðisins.

Framundan er aðventan, sem er kjörinn tími til að endurskoða líf sitt í ljósi komu frelsarans í heiminn. Vitjum hans í verkum okkar, því allt sem við gerum einum hans minnstu bræðra og systra, það höfum við gert honum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Síðasti sunnudagur kirkjuársins: Jes. 65.17-19  /  Róm. 8.18-25  /  Matt. 25.31-46

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS