Víðistaðakirkja

 

Ein hjörð, einn hirðir.

„Sér eignar smali féð, þó enga eigi hann kindina.“ (málsháttur)

Það þarf að vera hægt að treysta þeim sem gæta fjárins. Það er ekki nóg að féð vaxi og dafni ef þeir sem fengnir hafa verið til að gæta þess flýja og yfirgefa svæðið þegar þeir sjá úlfana koma. Afleiðingarnar hljóta þá að verða skelfilegar, úlfarnir hremma féð, éta það og tvístra því sem eftir er, svo varnarlausir eigendur fjárins eiga ekkert lengur á meðan úlfarnir strjúka kviðinn og þeir sem áttu að vera á vaktinni fyrir borgun bera af sér sakir.

Þetta er því miður alltaf að gerast í okkar ófullkomna heimi – og hefur átt sér stað í margs konar birtingarmyndum alveg frá upphafi vega. Við Íslendingar erum á slíkum vettvangi nú, öll þátttakendur með einhverjum hætti, beinum eða óbeinum. Þjóðin fól fulltrúum sínum að gæta fjár síns og lagði traust sitt á þá. Úlfarnir komust í féð og eyddu því svo ekkert varð eftir nema sviðin jörð eftir atganginn.

Sviðin jörð sem nú er ef til vill fyrst að koma almenninlega í ljós, þar sem myrkraverkin voru framin í skugga þeirra fjárbyrgja sem risið höfðu og áttu að bera því vitni að allt væri í stakasta lagi – og ekki síst hjá þeim sem gáfu sig út fyrir að hafa mesta hæfileika á sviði fjársýslunnar.

Dyr þeirra halla hafa verið opnaðar, málin skoðuð til að komast að raunverulegum orsökum harmleiksins og eigendur þess fjár sem hvarf af yfirborði jarðar hafa verið upplýstir um niðurstöðurnar. Það var áfall að missa svo góðan fjárstofn en ekki síður að vita hvað og hverjir urðu þess valdandi. Já, sér eignar smalinn féð, þó enga eigi hann kindina.

Þess vegna þörfnumst við góðs hirðis sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir féð – fyrir sína sauði. „Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá“ Á erfiðum tíma megum við ekki lenda í þeim sporum að úlfurinn tvístri okkur sem hjörð – sem þjóð. Við þurfum að standa saman nú sem aldrei fyrr og til þess þurfum við góðan hirði.

Hamfarir dynja á þjóðinni, við höfum gengið í gegnum skelfilegar hamfarir af mannavöldum og nú lifum við þær sem ekki verður við ráðir og eru af völdum náttúruaflanna. Afleiðingar þeirra eru ef til vill ekki að fullu komnar í ljós, en víst er að það er erfiðara að sætta sig við afleiðingar hinna manngerðu hamfara, einmitt vegna þess að slíkar eiga ekki að geta átt sér stað í samfélagi sem gefur sig úr fyrir að vera siðað og réttlátt, – og vernda þau gildi með öflugu og þéttriðnu regluverki.

En ef til vill er meinið fólgið einmitt þar, ef til vill er orsaka hamfaranna einmitt að leita í því að regluverkið er orðið of flókið og svo þéttriðið að það sé farið að snúast í andhverfu sína – í stað þess að vernda gildi samfélagsins er það orðið skjól spillingarinnar. Og detta mér þá í hug orð ritsnillingsins okkar og hugsuðar Halldórs Laxness: Ef maður vill stela í þjófafélagi, þá verður að stela samkvæmt lögum; og helst að hafa tekið þátt í að setja lögin sjálfur.“

Þessi orð virðast eiga svo vel við þessa dagana. Við þurfum samt sem áður að forðast í lengstu lög að fella dóma yfir öðrum. En við erum hins vegar komin að tíma uppgjörsins og öllum er ljóst að uppgjör þarf að eiga sér stað.

Rétt eins náttúruhamfarirnar eru ákveðið uppgjör hinna gríðarlegu afla jarðarinnar sem brjótast upp á yfirborðið og hafa sín sýnilegu áhrif og oft skelfilegar afleiðingar, þá þarf að eiga sér stað uppgjör eftir að hin neikvæðu öfl græðgi og eigingirni hafa allt of lengi ólgað undir niðri, stýrt orðum og athöfnum sem síðan hafa komið upp á yfirborðið og umturnað samfélaginu.

Og þá er ekki nóg að orsakirnar séu skýrðar í viðamikilli skýrslu og þar við látið sitja, heldur þurfa margir að axla ábyrgð og taka út sína refsingu þar sem lög hafa verið brotin. En jafnframt er mikilvægt að hafa það í huga að dómstóllinn er ekki á höndum almennings. Það er ekki okkar að dæma aðra þar sem við erum sjálf seld undir sömu sök syndarinnar og því ófær um að setja okkur sjálf í dómarasætið. Dæmum við aðra þá dæmum við okkur í leiðinni. Það er hins vegar hið kristna viðhorf að taka aðra í sátt og fyrirgefa þegar þeir iðrast gjörða sinna.

Það er í raun köllun kristinna manna að sættast og fyrirgefa á nótum kærleikans. Pétur segir í pistli dagsins: „Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. … Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu“

Já, einmitt: „og lifa réttlætinu“ – því réttlæti sem Kristur kom á og verður alltaf ofar hinu veraldlega réttlæti sem er bæði teygjanlegt og brothætt. Jesús Kristur sameinar í réttlæti sínu, hann er góði hirðirinn sem sameinar hjörð sína þó misjafn sé sauður í mörgu fé. Hann segir í orðum guðspjallsins: „Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“

Við erum ein hjörð í Kristi og þó stundum villist einhverjir út úr hjörðinni þá leitar hirðirinn þeirra þangað til hann finnur þá aftur. Hann flýr ekki eða yfirgefur sauði sína þegar úlfurinn kemur heldur fórnar lífi sínu fyrir alla. Við þurfum að vera ein hjörð – við þurfum að vera ein þjóð – alltaf en ekki síst á erfiðleikatímum.

Mig langar að vitna í annað af okkar ástsælustu skáldum, Jónas Hallgrímsson, sem sagði um einingu þjóðar sinnar orð sem eiga einkar vel við núna þegar við getum svo vel séð þá eiginhagsmuni sem einkenndu hegðun og gjörðir allt of margra.

Hann sagði: Óskandi væri að Íslendingar færu að sjá, að það er aumt líf og vesælt að sitja sinn í hvurju horni og hugsa um ekkert nema sjálfan sig og slíta svo sundur félag sitt og skipta sundur afli sínu í svo marga parta, sem orðið getur – í stað þess að halda saman og draga allir einn taum og hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins, sem öllum góðum Íslendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi.

Svo mörg voru þau orð Jónasar – og þau fela í sér mjög skýra hvatningu sem átti við á hans tíð en ekki síður á okkar tímum. Þegar djúp jarðar eys yfir okkur eldi og eimyrju, svartri ösku og eitruðum gufumekki, þegar veraldlegir skýjakljúfar auðhyggjunnar hafa hrunið allt í kringum okkur og skilið eftir sig rústir einar þá býður ekkert annað en uppbyggingarstarf þar sem allir þurfa að taka höndum saman.

„Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drunga-lega degi. ….. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. … Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

2. sd. e. páska:  Esk.34.11-16, 31  /  1. Pét. 2.21-25  /  Guðspjall:  Jóh. 10.11-16

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS