Víðistaðakirkja

 

Börnin eins og sandkorn

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Mig dreymdi draum: Dagur var bjartur, sólin brosti við hópi fólks sem fagnaði við tímamót. Í fallegum garði var fjölþjóðlegur hópur saman kominn, flóttafólk áberandi sem fengið hafði hæli og skjól hér á landi. Flóttamaður flutti þakkarávarp á sínu nýja tungumáli, íslenskunni, tónlistarfólk stillti saman strengi og lék ljúfa tónlist, en minnisstæðasta myndin var þegar börnin, af ýmsum þjóðum og kynþáttum, gengu fram. Þau fengu marglitar plastfötur í hendur til að fylla af sandi, hurfu svo af vettvangi í smá stund en komu svo aftur með föturnar sínar fullar; stolt og ánægð, brosandi út að eyrum gengu þau svo inn á mitt svæðið og sturtuðu sandinum hvert á fætur öðru í einn bing sem stækkaði jafnt og þétt.

Það má vera að draumráðningafólk sem hlýðir á þessi orð geti skýrt merkingu draumsins, en fyrir mér er hann fyrst og fremst táknrænn – táknrænt myndbrot innri vitundar sem líður fram óumbeðið og birtir sterka og skýra atburðarás – eins konar dæmisögu sem svo auðvelt er að tengja orðum guðspjallsins í dag um eina hjörð ólíkra einstaklinga og hópa.

Sandkornin í sameiginlegum bing barnanna eru óteljandi en mynda eina formræna og merkingarríka heild, af því að þeim er safnað saman af áhuga og einlægni, gleði og gáska, en einnig af samheldni og í samvinnu, sem tengir og útilokar tortryggni.

Slík framganga opnar augun ekki að-eins fyrir því sem birtist á ytra borði heldur líka því sem að baki býr, þannig að þau sjá heildina byggjast upp af hverri einustu einingu, hversu smá sem hún er, og ef við yfirfærum það á mannfólkið: á hverjum einstaklingi sem er jafnmikilvægur öðrum þrátt fyrir ótölulegan fjölda, þrátt fyrir ólíkan uppruna, þjóðerni og litarhátt.

„Þjóðirnar eru sem dropi úr fötu, og eru metnar sem ryk á vogarskálum, [Drottinn] vegur eyjarnar sem sandkorn væru“ (Jes. 40.15) Svo mælir Jesaja spámaður. Við öll sem myndum þjóðirnar og byggjum eyjarnar á okkar sameiginlegu jörð erum í grunninn öll eins – að kristnum skilningi – sköpuð í Guðs mynd, sem felur í sér þann sam-mannlega eiginleika að geta átt í félagslegum, vitsmunalegum og tilfinningalegum samskiptum hvert við annað.

Meðal annars þess vegna viljum við telja allar manneskjur jarðar – þó við leggjum aldrei í sandkornin – en þó ekki með þeim hætti að hver einstaklingur sé bara númer í talnaröðinni heldur sé merktur sínu persónulega nafni, njóti mannréttinda og eigi heimili og ríkisfang.

Er það ekki vilji fólks, vilji þjóðanna flestra að minnsta kosti, skráð í stjórnarskrár, stofnsáttmála SÞ og ýmsa alþjóðlega mannréttindasamninga sem fela í sér ríkar skuldbindingar?

Jú, og það er líka grundvallaratriði í kristnum mannskilningi, sem menning okkar hefur mótast af á löngum tíma – og megininntak þess kærleika sem góði hirðir-inn Jesús Kristur boðaði, og ekki bara í orði heldur fyrst og fremst í verki.

„Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.“

Svo mælir Jesús í guðspjalli dagsins og dregur fram andstæður í ögrandi myndum: Hann ber sjálfa sig sem hirði saman við aðra sem leigðir eru til verksins en eru hvorki raunverulegir hirðar eða eigendur sauðanna – og dregur skíra línu á milli, línu sem skiptir sköpum fyrir líf og velferð sauðanna.

Í samanburði við leiguliðana sem flýja þegar úlfarnir nálgast þá leggur góði hirðirinn líf sitt í sölurnar fyrir hvern og einn einstakling hjarðar sinnar, safnar þeim saman og vill bæta fleirum við í sauðabyrgið sitt – búa til eina hjörð með einum hirði.

En hvers vegna er þá heimurinn svona eins og hann er? Skorinn sundur þvers og kruss, í litla fleti með óhrjálegum sandhraukum sem úr er mokað hvenær sem færi gefst og sandkornunum þeytt hingað og þangað – heimurinn; stríðshrjáður víða, þjóðir tvístraðar og kramdar, fólk á flótta og vergangi svo tugum milljóna skiptir, heimilislaust, jafnvel nafnlaust og án ríkisfangs. Varla eitt númer í fjöldanum – sandkorn á víðavangi, ryk við veginn.

Af hverju er heimurinn svona? Af hverju erum við mannfólkið sem byggjum þessa jörð ekki ein hjörð?

Er það ekki vegna þess að það eru víðast hvar leiguliðar sem láta sér ekki annt um sauðina og flýja af hólmi þegar úlfarnir koma – og úlfarnir hremma þá og tvístra þeim?

Jú það má vissulega til sanns vegar færa, en ég held samt að heimurinn sé eins og hann er af því að fólk er svo líkt mér og þér. (Sbr. orð William Temple).

Við erum öll breisk og tökumst á við tilveru sem er full mótsagna og togstreitu andstæðra póla. Við þurfum ekki annað en að þrengja hringinn og horfa til ástandsins eins og það hefur verið hér á okkar ástkæra landi undanfarna daga – þar sem tengiband þjóðar, það sem við nefnum traust, hefur verið tætt og aflagað.

Þrátt fyrir grundavallarþörfina á að tengjast öðrum manneskjum leyfum við okkur allt of oft að sundra og tvístra, með vanhugsuðum og vafasömum gjörðum sem á stundum ganga á svig við lög og/eða almennt siðferði – og með orðum sem kvikna hraðar en ómótaðar hugsanir sem ættu að byggja styrka stoð þess sem við segjum og skrifum um annað fólk – já hugsanir sem ættu að mótast bæði af kærleika og skynsemi – kærleika til alls sem lifir í kringum okkur og á í raun sama uppruna og við sjálf og skynsemi þekkingar á mismunandi aðstæðum fólks og afkomu, uppruna og ólíkum siðum, háttum þess og hneigðum.

Raunar erum við stundum sjálf úlfarnir sem tvístrum sauðunum – en tölum kannski oftar hærra um aðra sem úlfana, dæmum annað fólk í það hlutverk að sundra hjörðinni þegar við vinnum e.t.v. í því sjálf með orðum og athöfnum sjáfsréttlætingar, hroka og fordóma sem jafnan verða til af vanþekkingu og skorti á samkennd og samlíðan – það að geta sett sig í spor annarra.

Þess vegna megum við manneskjurnar stundum roðna – já, maðurinn af öllum skepnum veraldar getur einn roðnað – og hefur svo oft tilefni til að roðna af skömm. Og ekki bara annað fólk, heldur líka ég og þú!

Við þurfum hirði – góðan hirði sem leiðir rétta leið, góðan hirði sem er fyrirmynd í kærleikanum, góðan hirði sem aldrei flýr af hólmi heldur verndar fyrir úlfum heimsins, góðan hirði sem fórnar sér fyrir okkur hvert og eitt.

Sá góði hirðir er Jesús Kristur, og hann lagði svo sannarlega allt í sölurnar fyrir okkur – það eru ekki orðin tóm – hann lét líf sitt á krossi fyrir þig og fyrir mig, létti af okkur sektinni og skömminni svo við fáum rétt úr okkur að nýju sem manneskjur,- sem sköpuð í Guðs mynd.

Og eftir upprisu Krists frá dauðum hefur hirðishlutverk hans aldrei verið eins skýrt, að safna öllum saman í eina hjörð og líka þeim sem úr öðrum sauðabyrgjum kunna að koma.

Það er kristins fólks að taka þátt og vinna í því starfi – og með fólki annarra trúarbragða og lífsskoðana – að leiða saman fremur en að sundra, að brjóta niður veggi milli þjóða, hópa og einstaklinga og leggja nýjar greiðfærar brautir skilnings og um-burðarlyndis.

Það hlýtur að vera vilji alls friðelskandi fólks hvaðan sem það kemur og hverrar trúar sem það er eða lífsskoðunar. Og ennfremur að vinna saman að því verki að verjast gráðugum og grimmum úlfum þessa heims, t.d. einræðisherrum sem hremma og tvístra eigin þjóðum og/eða hryðjuverkamönnum sem svífast einskis í grimmdarverkum sínum og skáka oftar en ekki í skjóli trúarbragða þó markmiðin, ef einhver eru, séu miklu fremur pólitísk.

En slíkir úlfar eru þó ef til vill ekki versti óvinurinn, því sá er gjarnan maðurinn sjálfum sér (sbr. orð eignuð Cicero). Til að breyta heiminum til hins betra þarf hver og einn að byrja á því að líta í eigin barm og vinna á eigin fórdómum, tortryggni og jafnvel hatri í garð annars fólks – hvaðan sem það kemur.

Þannig náum við raunverulegum vopnum gegn illsku heimsins sem m.a. birtist í hryðjuverkum út um allan heim – vopnum kærleikans sem tengir fólk saman, býður meðbræðrum- og systrum á vergangi vegna slíkra voðaverka, vernd og skjól. Það er sterkasti leikurinn til að útrýma eyðingarmætti óttans.

Kærleikurinn hefur ávallt sigur. Það sýndi og sannaði best sigur Krists yfir illsku, myrkri og dauða – í upprisu sinni til eilífs lífs sem hann gefur okkur hlutdeild í hér og nú.

Höfum í huga að við eigum öll sem manneskjur sama uppruna. Og í því samhengi umorða ég texta Jesaja spámanns, þar sem bent er á að Drottinn kenni okkur það sem gagnlegt er, leiði okkur þann veg sem við skulum ganga. Við þurfum aðeins að gefa gaum að boðum hans og þá verður hamingja okkar sem fljót og réttlæti eins og öldur hafsins, niðjar okkar sem sandur og börnin eins og sandkorn. Nafn þeirra verður hvorki afmáð né því eytt fyrir augliti Guðs. (Sbr. Jes. 48.17-19)

Lifum drauminn í veruleika lífsins, til dýrðar Guði, hinum góða hirði, og einni hjörð hans til blessunar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

2. sd. e. páska: Esk 34.11-16, 31  /  1Pét 2.21-25  /  Guðspjall: Jóh 10.11-16

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS