Víðistaðakirkja

 

Biðjum og styðjum!

Ég ólst upp í sveit og kynntist því vel fjölbreytilegum sveitaverkunum og ekki síst mikilvægi ræktunar túna og góðrar uppskeru fóðurs fyrir skepnurnar að hausti. Og hringrásin var augljós – þegar skepnurnar voru á húsi yfir veturinn voru þær á góðum fóðrum og mykjan safnaðist smátt og smátt fyrir, sem svo var fjarlægð og dreift á túnin sem áburður fyrir gróðurinn. Og það skipti máli að dreifa vel úr og fara svo yfir með slóða til að mylja kögglana í smátt ofan í svörðinn svo nýttist sem best fyrir hverja rót og hvert strá.

„Peningar og mykja eru eins, það verður að dreifa úr þeim ef að gagni á að verða.“ (Francis Bacon). Það er ár liðið frá hruni bankanna og íslenska fjármálakerfisins og ætti hverjum manni að vera augljóst að í löngum aðdraganda þess var peningum ekki dreift til að þeir mættu koma að gagni fyrir fólkið í landinu þó góðæri væri kallað. Nei, fjármagnið safnaðist að mestu á fárra manna hendur – og því fylgir einatt að þeir sem hafa peningana verða gjarnan sólgnari í meira og meira eins og dæmin sanna.

Farið var yfir akra samfélagsins með mykjudreifarana undir því yfirskini að verið væri að vinna að vexti og viðgangi hagkerfis okkar ríku þjóðar, en síðan hefur komið í ljós að sami áburðurinn var notaður aftur og aftur og því orðinn gagnslaus og án nokkurrar næringarlegrar innistæðu. Það er því ljóst að alvarlegustu afleiðingar kreppunnar eru ekki að auðmenn hafi tapað stöðu sinni og misst það sem þeir áttu í raun aldrei, heldur mjög slæm staða heimila í landinu sem til er orðin vegna þess að raunverulegum áburði hagvaxtarskeiðsins var aldrei dreift jafnt yfir – til þjóðarinnar.

Það hefur margt breyst á þessu ári sem liðið er frá hruninu og verður ef til vill ekki hægt að skilgreina þær breytingar sem orðið hafa á lífsviðhorfum fólks og samfélaginu í heild til fulls fyrr en síðar. En hitt er alveg ljóst nú að fjárhagsleg staða mikils fjölda fólks er afar erfið svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Kirkjan hefur ekki farið varhluta af erfiðleikum fólks enda ávallt boðið og búin til að rétta fram hjálparhönd þegar á þarf að halda.

Fjöldi fólks hefur á undanförnum mánuðum leitað til kirkjunnar eftir stuðningi, fjárhagslegum og andlegum stuðningi. Margir eiga varla til hnífs og skeiðar, geta ekki keypt nauðsynleg lyf eða læknisþjónustu og sumir hafa átt erfitt með að kosta skólagöngu barna sinni svo eitthvað sé nefnt.

Hjálparstarf kirkjunnar er stofnun allra safnaða þjóðkirkjunnar og því með öflugustu hjálparsamtökum hér innanlands – því þau ná til allra byggða landsins. Þörfin á aðstoð hjálparstarfsins hefur þó fyrst og fremst verið hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem kreppan hefur komið hvað harðast niður.

Umsóknum til Hjálparstarfs kirkjunnar hefur fjölgað gríðarlega og hefur sá hópur fólks sem aldrei hefur sótt um aðstoð áður stækkað mjög mikið. Í september á síðasta ári var 900.000,- kr. varið í aðstoð innanlands – mat, lyf, skólagjöld, skólavörur, tómstundagjöld og fleira. Í september á þessu ári var þessi upphæð um 8 milljónir króna.

Og til að útskýra betur hvað í þessari aðstoð felst, þá kostar helgarmatur sem gefinn er fjögurra manna fjölskyldu 8 – 10.000,- kr. Aðstoð vegna barns í eitt skipti kostar 5.000,- kr. og styrkur til tónstundaiðkunar barna kostar 10 – 15.000,- kr.

Biðjum og styðjum! Dagana 4. – 11. október stendur þjóðkirkjan fyrir söfnun í kirkjum landsins fyrir fjölskyldur og heimili sem orðið hafa illa úti í hruninu. Söfnunarféð rennur óskipt til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar. Hér frammi við kirkjudyr er söfnunarbaukur sem hægt er að gefa í á leið út úr kirkju að lokinni guðsþjónustu. Einnig liggja frammi upplýsingablöð fyri r þá sem vilja styðja með öðrum hætti, fara á styrktarsíður á netinu eða greiða beint inn á reikning.

Við þurfum að hjálpast að við að dreifa peningunum svo þeir megi koma að gagni þar sem þörfin er brýn. Það er nokkuð ljóst að þörfin á aðstoð muni aukast þegar líður á veturinn og því mikilvægt að allir sem eru aflögufærir leggist á eitt til hjálpar.

Þau eru sterk orð Jesaja spámanns í lexíu dagsins og eiga býsna vel við er við hugleiðum stöðu mála eftir hrun, nauðsyn þess að þvo og hreinsa samfélagið af illsku græðginnar og um leið mikilvægi þess að gera öðrum gott og rétta bágstöddum hjálparhönd. En orð Jesaja eru þessi:

Þvoið yður! Hreinsið yður!
Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum.
Hættið að gera illt,
lærið að gera gott,
leitið réttarins,
hjálpið hinum kúgaða.
Rekið réttar munaðarleysingjans.
Verjið mál ekkjunnar.

Þetta eru góð hvatningarorð – orð sem þurfa að birtast í veruleika daglegrar breytni. Trúin er aflgjafinn og Jesús Kristur er fyrirmyndin. Hann gekk um á meðal bagstaddra og hjálpaði hinum útskúfuðu jafnvel þó það væri á skjön við viðhorf samfélagsins. Hann segir í guðspjalli dagsins: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“

Í framhaldi þessara orða vaknar spurningin hverjir eru heilbrigðir og hverjir eru sjúkir, hverjir réttlátir og hverjir syndarar. En það er ekki okkar að svara eða skilgreina heldur ganga út frá því að við séum sjálf syndug og þurfum því á hjálp Guðs að halda í þessu lífi. Og því getum við ýmist verið í hlutverki læknisins eða hins sjúka – því „enginn er svo snauður að hann geti ekki hjálpað og enginn er svo ríkur að hann þurfi ekki hjálp.“ (Jean Paul).

Í upphafi máls míns notaði ég líkingamál úr sveitinni sem allir skilja – um mikilvægi þess að gæðum heimsins sé jafnt dreift til þess að þau megi verða samfélagi fólks að raunverulegu gagni – því fyrir utan það hve misskiptingin er óréttlát þá er hún ekki heldur í samræmi við raunverulegar þarfir manneskjunnar til lífs og hamingju.

Það er forvitnilegt að skoða japanskt orðtæki í þessu samhengi – þar segir: „Þótt maður eigi tíu milljón sekki af hrísgrjónum getur maður ekki etið sig meira en mettan.“ Og sömu merkingu er einnig að finna í kínverskum orðskviði: Þótt þú eigir þúsund akra geturðu ekki etið nema eina máltíð af hrísgrjónum á dag. Þótt þú eigir þúsund herbergi í húsi þínu notarðu ekki nema átta fet til að sofa á.“

Í framhaldi af því getum við hugleitt hvað ríkidæmi í rauninni er – felst það í veraldlegum auð eða hamingju sem sprottin er af nægjusemi í neyslu lífsins gæða. Jón Vídalín sagði: „Sá er ekki ríkur sem mikið á, heldur hinn sem lætur sér nægja.“

Það er mikið til í þeim orðum því sá sem lætur sér nægja er tilbúinn að gefa og sá sem gefur verður ríkur af þeim andlegu gæðum sem aldrei verða frá honum tekin þrátt fyrir hrun efnislegra gæða. Og ef til vill er það dýrmætasti lærdómur efnahagshrunsins og kreppunnar, að átta sig á því í hverju hamingjan er raunverulega fólgin.

Jesús segir í upphafi guðspjallsins við Leví Alfeusson: „Fylg þú mér!“ og Leví stóð upp og fylgdi honum upp frá því. Guð hefur sáð fræi trúarinnar í hvert hjarta og Jesús kallar okkur til fylgdar svo við megum ganga veg hjálpræðisins og breiða út kærleikann á meðal samborgara okkar. Þannig fáum við útilokað eigingirni og græðgi sem safnar auði þessa heims í eigin hirslur, en þess í stað staðið að jafnri og réttlátri dreifingu svo allir fái að njóta sín við mannsæmandi lífsskilyrði í þessum heimi. Biðjum og styðjum!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

17. sd. e. trin.:  Jes.1.16-17  /  Gal. 5.1-6  /  Guðspjall: Mk. 2.14-28

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS