Víðistaðakirkja

 

Á Víðistaðatúni

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Til er gömul helgisögn sem fjallar um það hvernig svæðið framan við Víðistaðakirkju varð til. Sagan segir að í fyrndinni hafi ungur smali frá Görðum gætt kinda á flötunum. Þar sem hann sat á steini sökkti hann sér niður í hugsanir sínar og gleymdi sér, en allt í einu áttaði sig á því að hraun hafði runnið hringinn í kringum túnið og hamlaði för hans. Hann lagðist þá á bæn og bað þess að féð sem honum hafði verið trúað fyrir sakaði ekki. Hraunið hlóðst upp allt í kring þar sem nú er Víðistaðatún, en hvorki hann néð féð sakaði.

Þetta er skemmtileg saga – og meira en það þó einungis um þjóðsögu sé að ræða, hún flytur líka boðskap og gefur gott fordæmi um mátt bænarinnar. Ungi smalinn sem gleymdi sér í eigin heimi – ef til vill hugsunum um það sem hann ætlaði að gera skemmtilegt þegar hann hefði lokið fjárgæslunni – hann trúði og treysti þegar á reyndi og upplifði jafnframt máttarverk Guðs. Kraftaverk. Hann bað fyrir kindunum og þeim var borgið – og honum líka.

Enn koma ungmenni hingað á Víðistaðatún, og raunar fólk á öllum aldri, í margvíslegum tilgangi. Til að njóta útiveru og fallegs umhverfis,  leika sér, fara í tennis, frisbígolf, viðra hundinn, hlaupa, hjóla, veiða síli í tjörninni, renna sér á sleða á veturna eða ganga þar í gegn á leið í skólann eða kirkjuna. Þau sjá fallegt umhverfið, túnið og hraunið allt um kring – hraunið sem einu sinni rann, skapaði hættu og hafði ef til vill eitthvað tjón í för með sér þá, þó það sé fyrst og fremst augnayndi í dag – náttúrulegir skúlptúrar sem gæða umhverfið dulrænni fegurð.

Það má segja að sú mynd sem ég hef dregið upp með orðum geti verið táknmynd fyrir umgjörð lífsins, þar sem ógnirnar leynast oft að baki því sem virðist á yfirborðinu saklaust, fallegt og hættulaust. Á leiksvæði lífsins. Á Víðistaðatúni lífsins – á æviveginum, þar sem staldrað er við í leik, þar sem gengið er í gegn, í skólann, í vinnuna eða í kirkjuna. Þar sem hægt er að gleyma sér gagnvart hættunum sem því miður leynast víða, sökkva sér í dagdrauma og hrökkva síðan upp við það að hraunið skríður að manni á allar hliðar.

Fermingarbörnin leggja leið sína yfir túnið hingað í kirkjuna því þau hafa tekið ákvörðun sem varðar áframhaldandi för – að sumu leyti svipaða ákvörðun og smalinn ungi þegar hann lagðist á bæn, jafnvel þó þau standi ekki varnarlaus frammi fyrir slíkri vá sem hann. Hættur heimsins leynast þarna engu að síður – og jafnvel þó þau þurfi vonandi aldrei að horfast í augu við þær – þá er svo gott að eiga förunautinn sem aldrei bregst og getur hjálpað, stutt og styrkt í öllum aðstæðum lífsins.

Förunautinn – hann sem gerir kraftaverk. Það er góður Guð, sem í mynd Jesú gengur ávallt við hlið okkar, ef við viljum ganga við hlið hans. Hann sem grípur í hönd okkar þegar við hrösum og tekur okkur í fang sér þegar hindranir verða á vegi – ber okkur yfir boðaföll lífsins. Hann sem segir okkur að standa upp og ganga, þegar við höfum gefist upp og lagst niður lömuð af ótta við aðsteðjandi vanda – funheitt glóandi hraunið sem flæðir að úr öllum áttum.

Já, hann sem gerir kraftaverk. Guðspjall þessa sunnudags segir frá kraftaverki – Jesús læknar mann sem hafði verið veikur í þrjátíu og átta ár. Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ og “jafnskjótt varð maðurin heill, tók rekkju sína og gekk“.

Sannkallað kraftaverk – og trúum við því? Það verður hver að svara fyrir sig. En ég segi: Við ættum að sjálfsögðu að trúa! Því þessi saga fjallar um annað og meira en bara líkamlega lækningu, þó það sé ærið nóg og vert að trúað sé á, heldur fjallar hún um lækningu manneskjunnar í heild sinni. Jesús reisir manninn við, læknar hans innri mann sem var sokkinn í dýki syndanna og upplifði aðþrengjandi hraunstraum heimsins, og Jesús segir honum að halda ótrauður áfram för. „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Lausnarinn opnaði leiðina að nýju.

Fermingarbörnin leggja leið sína yfir túnið og hraunið á leið í kirkjuna sína. Og til hvers? Jú til þess að fræðast og fermast. Og aftur er spurt, til hvers? Það væri hægt að svara þeirri spurn-ingu á ýmsa vegu, en í ljósi umfjöllunarefnis Biblíulestranna í dag og prédikunar minnar þá mætti svara á þessa leið: Til þess að staðfesta trú sína á Guð sem gerir kraftaverk á lífi þeirra í Frelsaranum Jesú Kristi; með því að veita fyrirgefningu syndanna og eilíft líf.

Þetta er í raun innihald pakkans sem þau og við öll fengum frá Guði þegar við vorum skírð. Innihaldinu lýsir Páll postuli afar vel í orðum Galatabréfsins sem lesin voru hér áðan: „Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ (Gal. 2.20).

Við erum sífellt að leita að réttu leiðinni yfir tún lífsins – og sú fullyrðing á ekki hvað síst við um ungt fólk sem fetar sig yfir árin – stiklar hikandi frá steinum æskuáranna, yfir flaum tímans og reynir að fóta sig fullorðið á nýjum undirstöðum. Það getur tekið á, m.a. að öðlast þekkingu á sjálfum sér, efla sjálfstraustið og öðlast sjálfsmynd sem auðveldar samskiptin við aðra.

Við höfum öll okkar veikleika og styrkleika en kunnum oft ekki að greina þá í sundur, því það sem við oft á tíðum teljum veikleika reynast okkar helstu styrkleikar þegar á reynir – og öfugt. Við getum sest niður og gleymt okkur í slíkum vangaveltum, jafnvel dregið okkur í hlé, einangrað okkur eða sökkt ofan í ópersónuleg rafræn samskipti nútímans – án þess að gefa umhverfinu gaum. En á sama tíma getur hraunið hlaðist upp allt um kring og þrengt að.

Þar sem við erum veik fyrir þar er styrkurinn ávallt nærri. Ekki í okkur sjálfum heldur honum sem lifir í okkur – Jesú Kristi. Við getum lagst á bæn eins og smalinn forðum og hraunið mun stöðvast, því Jesús leggur lífið í sölurnar fyrir okkur hvert og eitt.

Við getum líka lagst á bæn og beðið fyrir hjörðinni – börnum Guðs – og ekki síst þeim sem hafa týnst, eru hrakin, villt og útskúfuð úr venjulegu mannlegu samfélagi. Þeim sem eru aðþrengd af vellandi hrauni ofbeldis og stríðs-átaka. Þeim sem hafa flúið heimkynni sín og land, leita liðsinnis meðbræðra- og systra út um allan heim og sérstaklega í Evrópu – og leggja í raun líf sitt og framtíð í hendur annarra, m.a. í okkar hendur.

Ég er að sjálfsögðu að tala um flóttafólkið sem streymir m.a. frá stríðhörmungunum í Sýrlandi og er tilbúið til að leggja allt á sig fyrir betra líf, fyrir sig og fjölskyldur sínar þar sem friður ríkir, kærleikur og skjól. Þar sem saklaus börnin geta leikið sér á túni lífsins, áhyggjulaus og örugg.

Góði hirðirinn, sá sem við veljum sem förunaut og leiðtoga lífsins, Jesús Kristur, hann hjálpaði einmitt þeim útskúfuðu og hrjáðu og braut niður öll mæri þjóða, kynþátta og trúarbragða í þeim efnum – og minnir á að öll erum við, börn Guðs, eitt í honum.

Frá því ég heyrði helgisöguna fyrst um tilurð Víðistaðatúns hefur hún verið mér hugleikin, ekki síst þegar ég geng um túnið. Þetta er góð saga. Auðvitað varð túnið ekki til með þessum hætti, en boðskapur sögunnar er jafn sannur eftir sem áður.  Fyrir langalöngu var eyja þar sem túnið er núna – eyja í hafinu rétt utan við landið. Og svo fór að gjósa, hraunið rann út í sjó og allt í kringum eyjuna sem varð að sléttlendinu þar sem nú er Víðistaðatún. Þannig varð það til.

Og á hrauninu fyrir ofan túnið er kirkjan, hús þar sem við komum saman í nafni Guðs, og er frátekið fyrir hann. En hin raunverulega kirkja er ekki í húsi, hún getur verið á túninu, hrauninu eða bara hvar sem er; alls staðar þar sem fylgjendur Jesú eru og koma saman í nafni hans; alls staðar þar sem kristinn kærleiksboðskapur fær að birtast í verki, þar sem við réttum hjálpar þurfi höndina og leiðum í öruggt skjól.

Kirkjan var þar sem smalinn bað Guð um hjálp, hún er nákvæmlega þar sem kristið fólk býður hrakið flóttafólk velkomið inn á túnið sitt til leiks og starfa og kirkjan er þar sem börnin ganga yfir túnið til fermingar – til staðfestingar á trú sinni og þeim vilja að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

14. sd. e. þrenningarhátíð: Slm 103.1-6  /  Gal 2.20  /  Guðspjall: Jóh 5.1-15

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS