Víðistaðakirkja

 

„Ég hef rist þig í lófa mér.“

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 „Ég hef rist þig í lófa mér.“

 „Snertingin og hlýjan skiptir svo miklu máli, við setjum gjarnan fingur í litla lófann hennar og hún tekur utan um með smáum fingrum.“

Ég gekk inn á vökudeildina í fylgd stolts en nokkuð áhyggjufulls föður, sem lét þessi orð falla er hann lýsti samskiptum sínum við nýfædda dóttur sína.

Hann leiddi mig að hitakassa þar sem dóttir hans lá – og til hliðar sátu móðirin og bróðir litlu stúlkunnar. Já hún var agnarlítil því hún hafði komið í heiminn talsvert fyrir tímann – og nú snerist daglegt líf fjölskyldunnar um að hlúa vel að þessari litlu manneskju sem var alveg háð umhyggju þeirra, þekkingu lækna og hjúkrunarfólks og tækni læknavísindanna.

Þau voru fremur glöð þó auðvelt væri að skynja áhyggjur þeirra undir niðri – og þær áhyggjur voru vissulega eðlilegar því þær voru til orðnar vegna foreldrakærleikans sem vill ávallt allt hið besta fyrir barnið sitt. Tengslin milli foreldris og barns eru jú svo sterk og órjúfanleg strax frá upphafi að engin eru skýrari dæmi um það til í þessum heimi.

„Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?“

Þannig er spurt í lexíu dagsins sem lesin var áðan úr spádómsbók Jesaja. Það eru umhugsunarverð orð – sérstaklega þegar þau eru skoðuð í samhengi textans – þó svarið við spurningunni liggi nokkuð ljóst fyrir í huga okkar.

Áhyggjuefnin geta verið mörg í þessari undarlegu tilveru tímans – og ef við hugleiðum þau þá getum við séð að sum þeirra geta verið eðlileg og sjálfsögð þegar horft er til orsakanna t.d. eins og í dæmi foreldranna sem ég sagði frá hér í upphafi.

En ég held þó að mörg þau áhyggjuefni sem við burðumst með dags daglega séu ekki eins eðlileg og sjálfsögð, – áhyggjuefni sem kalla fram alla kvillana sem hrjá okkur nútímafólk eins og vöðvabólgu, liðverki, magabólgur, svefnleysi og fleiri streitukvilla.

Í guðspjalli dagsins ræðir Jesús við fólkið í fjallræðu sinni og tekur einmitt þetta viðfangsefni fyrir – sem segir okkur að þetta sé ekki bara nútímafyrirbrigði heldur hafi alltaf fylgt manninum og háttalagi hans – ef til vill frá upphafi vega.

Hann talar um sístæðar áhyggjur manneskjunnar – sem oftar en ekki verða til vegna skorts á einhverju sem hún þarfnast eða telur sig þurfa til að lifa ánægð, fullnægð og hamingjusöm – sem í nútímanum er venjulega langt umfram sjálfsagðar grunnþarfir.

Á það vill Jesús benda áheyrendum sínum – að lífið sé annað og meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin. Í þeim orðum má líka skynja skírskotun til þeirrar andlegu næringar sem hann var kominn til að gefa mannkyni – og um leið stillir hann upp þeim valkostum sem við stöndum ævinlega frammi fyrir í lífinu – þjónustunni við Guð eða mammón.

Jesús segir m.a. í guðspjallinu:  „Enginn getur þjónað tveimur herrum.  …….. Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. ….. Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? …. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“

Jesús er ekki að segja að við getum farið í gegnum þetta líf áhyggjulaus og án þjáninga – alls ekki. Hann veit það fullkomlega sjálfur að þessum heimi fylgja þrautir og þjáningar – og líka áhyggjur. Því fékk hann sjálfur að kynnast í sínu lífi sem maður á meðal manna.

En það var einmitt þess vegna sem hann kom til okkar. Hann kom vegna þjáninga fólksins, vegna áhyggjubyrða þess sem til voru orðnar m.a. vegna minnkandi þjónustu við Guð og aukinnar þjónustu við mammón. Fólkið hafði fjarlægst Guð sinn og tilbað mammón með veraldlegri breytni og ásókn í einskisverða og hverfula hluti – og Jesús var kominn til að leiða það aftur á rétta braut.

Það er ekki laust við að mér finnist ríkari þörf nú en oft áður að hlusta á þessa áminningu Frelsarans. Djöfullinn, sem persónugervingur hins illa og bakhjarl mammóns, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Sundurlausar raddir á þeim nótum eru áberandi í dag – gegn kirkju og gegn trú – og mörgum þykir jafnvel flott að vera trúlaus og hallmæla kirkju Krists.

Aðrir ganga ekki svo langt en finnst þeir týndir og segja ef til vill í leit sinni að lífsfyllingu: „Drottinn hefur yfirgefið mig, Guð hefur gleymt mér.“

Slík orð eða sambærileg hugsun verður oft til í tóminu, eftir langvarandi þjónustu við veraldarguðinn mammón, – en er sannarlega byggð á vanþekkingu, því Guð gleymir engum ekki frekar en móðirin eða faðirinn gleymir barni sínu – hvort sem það er lítið og vanburða eða stendur fullorðið á eigin fótum – en jafnvel þó foreldri geti gleymt þá gerir Guð það aldrei. Hann hefur rist þig í lófa sér.

Og einmitt þess vegna sendi hann son sinn í heiminn – til að koma aftur á góðu og kærleiksríku sambandi við öll börnin sín – veik og smá – bjóða þeim umhyggju-samar, vermandi  og verndandi hendur til að halda utan um, leiða á lífsins för og síðan alla leið í eilífa sumarlandið heima hjá honum.

Kristur stendur uppi í fjallinu, talar til fólksins og minnir á þetta – hann stendur einnig hér mitt á meðal okkar í dag og minnir á hið sama: Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum, hverjum degi nægir sín þjáning, þjónið Guði en ekki mammón.

Og hann segir okkur jafnframt og sýnir í verki að Guð gleymi okkur ekki og þess vegna taki hann á sig byrðarnar sem stundum ætla að sliga.

Í þessari undarlegu tilveru erum við hluti heimsins með öllu sem því fylgir, þörfnumst matar, drykkjar, fata og húsaskjóls. Jesús er ekki að segja að við þurfum að slíta okkur burt úr samhengi veraldarinnar enda ógjörningur á meðan við lifum og hrærumst hér. Það þarf heldur ekki að skilja orð hans svo að við megum ekkert leyfa okkur í veraldlegum efnum, hann er ekki að hvetja til meinlætalífs.

Við getum og megum taka fullan þátt í lífi þessa heims – en þurfum að gera það á réttum forsendum. Þetta er spurning um rétta þjónustu og forgangsröðun. Þetta snýst um að þjóna Guði í öllu því sem við gerum og þegar áhyggjurnar þjaka að leita fyrst til hans: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“

Lífið er viðkvæmt – og í rauninni mjög stutt. Hlýjar hendur kærleiksríkra foreldra hafa umfaðmað litlu nýfæddu stúlkuna  frá því hún kom alltof snemma í þennan heim þjáninganna – eins og blaktandi strá.

Hún lifir og fær alla þá hjálp sem hún þarfnast, aðstoð við öndun, næringu, snertingu og hlýju. Hún þarf ekki að hafa áhyggjur af morgundeginum, það eru aðrir sem gera það fyrir hana, taka á sig byrðarnar og leggja sig fram um að bjarga og blessa.

Á sama hátt getum við beygt okkur undir Guðs voldugu og kærleiksríku föður- og móðurhönd, til þess að hann upphefji okkur á sínum tíma. Vörpum allri áhyggju okkar á hann því hann ber umhyggju fyrir okkur.(sbr. 1Pt. 5.6-7). Hann gleymir okkur aldrei, hann hefur rist okkur í lófa sér.(sbr. Jes. 49.16a).

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

15. sd. e. trinitatis: Jes. 49.13-16a  /  1. Pét. 5.5c-11  /  Guðspjall: Mt. 6.24-34

Bragi J. Ingibergsson

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS