Víðistaðakirkja

 

Nommensen

Nommensen

Menningarfrömuður á Sumötru

Ludwig Ingwer Nommensen fæddist 1834 á eyjunni ,,Nordstrandischmoor “sem tilheyrði Danmörku á þeim tíma, en Þjóðverjar bjuggu þar samt alla tíð.

Hann fór ungur að vinna fyrir sér með því að vera smali og kaupamaður hjá efnuðu fólki. Svo gerðist það einn daginn, að hann lenti undir vagni, þegar unglingarnir voru í galsafengnum leik. Þetta slys olli því, að hann varð að liggja fyrir í heilt ár vegna máttleysis í fótunum. Þá las hann  í biblíunni:,, Þegar þér biðjið í mínu nafni mun ég bænheyra yður..”segir Jesús. Læknirinn  hafði ekki  getað hjálpað honum fram að þessu. Drengurinn fylltist kjarki og bað um mátt í fæturna. Í barnslegri einlægni lofaði hann því, að  ef hann fengi mátt í fæturna myndi hann  um síðir fara til heiðingjanna. Nýtt lyf var prófað á honum,  og það bar árangur. Ludwig náði sér svo vel, að hann gat hlaupið um og gert hvað sem var eins og áður. Samt gat hann ekki efnt heit sitt strax, aðeins 14 ára gamall, og þar að auki hjálparhella móður sinnar og systur, en faðir hans var ekki lengur á lífi þegar hér var komið sögu.

Draumur hans var að færa öðrum þjóðum fagnaðarerindið um Jesú Krist. Árið 1862 rættist sá draumur. Nú var hann orðinn 28 ára gamall  og búinn að læra iðn og annað  sem snerti starf hans í Asíu. Hann hafði lagt stund á Batakmál og þýddi Biblíuna á mál Batakmanna. Hann stofnaði skóla, lét reisa sjúkraskýli og iðnskóla. Enn er hans minnst sem  leiðtoga í heilsuvernd og menntun. Hann starfaði fyrir Batakmenn í rúmlega hálfa öld.

Mér leikur forvitni á að vita, hvort Albert Schweitzer hafi heyrt um þennan merka forvígismann á Súmötru, þar sem  Albert Schweitzer átti kost á því að fullnema sig á mörgum sviðum og gaf ,,systkinum” sínum í Afríku krafta sína,  en jafnframt því að reisa sjúkrahús í Lambarene fór hann í tónleikaferðir til Evrópu og hélt erindi um heimspeki og friðarmál. Þessir tveir menn standa upp úr í sögunni, ólíkir en báðir knúnir af kærleika. (Albert Schweitzer 1875-1965)

Sumatra var hollensk nýlenda og má ætla að kaupahéðnar hafi ráðið þar ríkjum. Kristniboðar áttu af þeim sökum ekki alltaf greiðan aðgang að frumbyggjum landsins.

Nommensen var kjarkmikill maður. Ekki var hlaupið að því að boða  trú á þessum stað. Mun nú sagt nánar frá því hvernig fyrstu kynnin voru eftir eins árs dvöl. Hann ákvað að leggja af stað einn síns liðs lengra inn í landið. Stór fjallgarður umlukti dalinn. Fólkið var óvinveitt honum. En hann bað til Drottins: ,,Hvort sem ég lifi eða dey skal ég búa hjá þessari þjóð og flytja þeim fagnaðarerindið. Þú elskar alla jafnt.”

Hann hélt ótrauður áfram um þéttbyggt svæði og kom til margra byggðakjarna, þar sem hann varð fyrir skömmum eða hótunum. Hann talaði fallega við börn og sjúklinga til að öðlast trúnað þeirra. Hann bað um lóð til byggingar en eftir mikið þjark fékk hann að reisa sér býli í nokkurs konar mýrlendi. Meðan hann var að reisa stoðir var reynt að koma í veg fyrir að hann gæti haldið verkinu áfram. Hann lét ekki raska ró sinni. Menn skáru á kaðla sem héldu bjálkunum saman. Allt hrundi, en hann var ekki heima, þegar þetta skeði.

Einn daginn höfðu þorpsbúar blandað eitri  í hrísgrjónin hans. Honum varð ekki meint af  því. Hundurinn hans hafði fengið af sama matnum og kvaldist mjög áður en hann dó.

Nú átti  að halda mikla hátíð til minningar um látna ættingja. Nommensen var varaður við en fór samt á þessa samkomu. Höfðingjarnir voru búnir að tala um það sín á milli að færa hann goðunum að fórn. En þar sem kristniboðinn gekk föstum skrefum yfir hátíðarsvæðið þorði enginn að leggja hönd á hann.

Síðan komu sjúkir til hans og sögðu honum frá raunum sínum. Hann kunni að hlusta og gaf sér ævinlega tíma til að hjálpa þeim eftir bestu getu.

Nommensen varð glaður við þegar fyrsti skírnarþeginn kom til sín. Það leið ekki á löngu að hann gat stofnað lítið þorp fyrir söfnuð sinn. Heiðnir Batakmenn áreittu þá.

Dag einn fékk hann fregnir af því að elsti prestakóngur ætlaði að ráðast á þorpið og útrýma þeim. Guð greip inn í atburðarásina. Það hófust innbyrðis erjur milli höfðingjanna svo að þeir  fóru að berjast og gleymdu alveg, hver áætlun elsta höfðingjans hafði verið.

Fleiri trúboðar komu og sjúkraskýli var reist. Hann stofnaði skóla fyrir kennaranema meðal Batakmanna í Silindung.

Þannig lagði hann grunninn að siðmenningu meðal kristinna Batakmanna.

Hann upprætti heiðna siði sem brutu í bága við kristna kenningu en leyfði heilbrigðum siðum að haldast.Nommensen var forsjár og hafði augastað á nú þekktum ferðamannastað,Tobavatninu.

Að 20 árum liðnum var þar einnig  blómlegt kristið samféleg, þar sem kirkjuklukkur hljómuðu til helgihalds. Kirkja  Batakmanna finnst á netinu!  Þeir þakka Nommensen, velgengi og mannúð í kristnum söfnuðum.

Heimildir:

August Bagel Verlag Duesseldorf Biblische Geschichte 1952

Albert Böhme

Hermann Lutze

Wilhelm Schlepper

Ludwig Rese

 

(Heimildir fyrir næsta texta:

Das Schönste kommt noch  eftir

Fritz Rienecker bók 1,  Zeugnisse der Vergangenheit und Gegenwart Verlag Sonne und Schild 1967 Wuppertal)

 

Meira frá Sumötru:

Þessi arburður gerðist á kristnu heimili  á Súmötru. Heimilisfaðirinn lá fyrir dauðanum. Fjölskyldan  var þarna öll og tók einnig á móti gestum sem voru múhameðstrúar.  Þeir höfðu heyrt um von hinna kristnu og vildu nú vera vitni að trausti hinna kristnu í erfiðu sálarstríði. Skyldi það vera satt að þeir fyndu ekki til ótta á þessari stundu? Móðirin beygir sig niður að hinum dauðvona manni og spyr hátt og skýrt svo  að allir heyri: Faðir, þegar þú deyrð, hvert ferðu þá? Hvert er hinsta orð þitt handa okkur? Þögn sló á alla sem höfðu safnast saman í húsinu. Fólk vildi heyra svarið. Öldungurinn hóstar en síðan hvíslar hann: Jesús dó fyrir alla, einnig fyrir mig. Hann fyrirgaf mér syndir mínar, nú fer ég til hans. Hverfið til hans svo að þið eigið einnig heimvon. Eftir andartak bætti hann svo við : Syngið fyrir mig!

Heimilisfólkið valdi lag um gleðina í Drottni, þrátt fyrir þjáninguna, Ó þá náð að eiga Jesú , einkavin í hverri þraut…

 

Önnur frásögn í sömu bók gerðist seint á 19. öld. Trúboði að nafni van Asselt dvaldi á Súmötru frá 1856-1876. Batakmenn sem áttu heima þarna voru mannætur. 1836  höfðu þeir drepið tvo Bandaríkjamenn og síðan étið þá.

Trúboðinn, van Asselt, kunni ekki mál þeirra og fylltist óhug. Fyrstu tvö  árin voru mjög erfið. Síðan kom kona hans og tók virkan þátt í starfinu, en þeim fannst að ekki var við mannlega óvinsemd og hatur að etja, heldur einnig  andaverur vonskunnar í himingeimnum. Þau krupu í bæn og báðu um styrk til að standast og losna undan þessum ótta sem gagntók þau.

Síðan fluttu þau sig um set, þegar tækifæri gafst og kynntust ættbálki sem tók þeim vel.

Einn daginn bar að garði mann frá hinu illræmda héraði sem áður var vikið að og spurði trúboðann að því, hvar varðmennirnir væru sem gættu bústaðarins á nóttinni. (Hebreabréf 1,14 Hér er talað um englana: Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið erfa?)

Kennari ber heitið,, tuan” á þeirra  máli. Trúboðarnir voru virtir og fengu þetta virðingarheiti í ávarpi. Gesturinn skýrði nú frá því, að þeir hefðu ákveðið að myrða hann og höfðu ráðið til þess launmorðingja. En hann kom aftur skelfingu lostinn og sagðist hafa séð alvopnaða hermenn sem lýstu frá sér og skipuðu sér í tvær raðir, allt í kringum bústaðinn. Hann hafði borið sig vel  áður en hann lagði af stað, sagðist ekki óttast guð né djöful, en stóð nú skelfingu lostinn og aflvana frammi fyrir þessum raunverulegu englum í herklæðum Drottins. ,,Tuan, hvar halda þeir sig?” Kristniboðinn fullyrti, að hvorki hann né kona sín hefðu séð þá. Hann fór inn í húsið og kom með Biblíuna í hendi til baka. Þessi bók er Guðs orð. Hann er voldugur og hefur heitið okkur því að vaka yfir okkur. Við trúum því staðfastlega og þess vegna þurfum við ekki að sjá þá, en þið trúið ekki, og þess vegna verður hinn mikli Guð að sýna ykkur varðmenn okkar, svo að þið farið einnig að trúa.

 

Uppl. Um Súmötru úr Fjölfræðibók eftir Sören Sörenson, Örn og Örlygur 1984

Stór eyja í Indónesíu, 4300 ferkílómetrar að stærð.

Borgir: Palembang  og Medan

Hitabeltisloftslag

Heimild: Texti frá bls.1-6

Albert Böhme og Hermann Lutze

 

María Eiríksdóttir tók saman.

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS