Víðistaðakirkja

 

Með Hvíta Krist í farteskinu

 

 


Texti og myndir: María Eiríksdóttir


Þakkir til:

Óskars Jónssonar

 Séra Braga J. Ingibergssonar

Finns Gunnþórssonar

Öglu Friðjónsdóttur

Sunnu Friðjónsdóttur

Sólrúnar Kolbeinsdóttur

Guðrúnar Óskarsdóttur

Petreu Óskarsdóttur

Bókasafns Hafnarfjarðar

 

 

Öll réttindi áskilin

María Eiríksdóttir

Umbrot: Óskar Jónsson

Hafnarfjörður 2010


Bækling þennan má ekki afrita með neinum hætti svo sem ljósmyndun, prentun eða á annan hátt.

 

 

 


Með

Hvíta Krist

í

farteskinuAuður djúpúðga

fyrsta kritna landnámskonan

 

Í huganum er ég stödd á Krosshólum í bænalöndum Auðar djúpúðgu. Ég fer aldir inn í fortíðina til að heyra hvað formóðirin hefur að segja, e.t.v. skilaboð til okkar?

Ímyndunaraflið lyftir mér á vængjum yfir stað og stund. En ég staðnæmist einhvers staðar á árunum 892 til 900.

 

 

Stiklað á stóru

Auður ber oft nafnið Unnur. Auður og fylgdarlið hennar sigldu skipi sínu í strand. Talið er að þetta hafið verið 892. Auður djúpúðga hefur alltaf verið talin meðal merkustu landnámsmanna. -Var hún þá um sextugt. Tveir bræður hennar, Björn austræni og Helgi bjóla voru þá komnir til Íslands. Frá Krosshólum, þar sem Auður fyrsta kristna landnámskonan nam land, sést inn í Búðardal. Hún bjó í Hvammi. Nágrannar hennar voru heiðnir. Auður djúpúðga hafði verið drottning á Írlandi. Þorsteinn sonur hennar var konungur í Skotlandi áður en hann féll í orrustu. Ólafur hvíti (Óleifur), maður Auðar djúpúðgu, gerðist konungur yfir Dýflinni á Írlandi. Auður Ketilsdóttir verður ekkja, þegar hann fellur í orrustu. Írska þjóðin var þjóð skálda og bókmennta. Reistur var 3 metra hár kross í Dalasýslu. Nefnist staðurinn Krosshólar.

 

Auður djúpúðga, fyrsta kristna landnámskonan

Skipbrotið

Formóðir þín var drottning

Eintal Auðar djúpúðgu á Krosshólum:

Ég lyfti höndum mínum í lotningu og gleði. Ég anda að mér fersku lofti og finn angan af fjallagróðri. Blærinn leikur um mig, það er yndislegt að vera til. Lífið er dásamlegt!

Víst man ég ölteitin og fórnarhátíðir Norðmanna. Það er nú langt um liðið. Ég er gjörbreytt. Nei, ég er ekki söm. Hér stend ég, rúin öllu, ekkja, syrgjandi móðir – hvaðan ber mig að? – frá fjarlægum ströndum berast mér þýðir ómar, óræðar raddir í blámanum. Ég er kristin – satt er það – en einsemdin fylgir mér. Munkarnir sögðu mér frá hinum Hvíta-Kristi, þeim manni sem kunni að fyrirgefa. Skyldi ég geta lært þá list? Munkarnir sögðu mér frá vini hans, Lasarusi sem var þegar látinn en vaknaði til lífsins á ný: Máttug sigurorð hrutu af vörum sigurhetjunnar. Hvíti-Kristur barðist ekki við öldurót vatnsins – hann svaf, treysti þeim Guði sem hann kallaði föður sinn. Páll frá Tarsus, vinur Hvíta-Krists velktist um á hafi og beið skipbrot. Fanginn Páll stappaði stáli í skipverjana. Einnig ég hef lifað slíkt skipbrot. Þá fór ég að treysta himnaföðurnum og sagði við fylgdarmenn mína. ,,Mér er einskis vant”. Ég fór að þakka þeim Guði sem Hvíti-Kristur vitnaði um.

Nú lít ég mér nær og sé fögur blóm, líkt og væru þau augu Guðs, brosa við mér með fyrirheit um sælustað á himnum. Ég sé grænar grundir og klettaborgir. Hér vil ég búa og una mér. Krossarnir mínir minna mig á þakkargjörð og lofgjörð til handa Hvíta-Kristi. Ég kastaði hugsýkinni um hefnd þegar ég var vatni ausin. Ég er frjáls, frjáls. Ég var drottning – síðan á flótta en nú landnámskona.

Ég lyfti höndum mínum í lotningu og gleði. Ég anda að mér fersku lofti og finn angan af fjallagróðri. Blærinn leikur um mig, það er yndislegt að vera til. Lífið er dásamlegt!

Í auðmýkt og lotningu sungu munkarnir forðum innan veggja klaustursins. Ég gekk hægt um legstað látinna með þeim eða ein míns liðs. Ég staðnæmdist hjá einu og einu leiði og virti fyrir mér ljósan legsteininn, kross með nokkurs konar geislabaug, heill hringur í miðjunni. Þeir töluðu um eilífa lífið við mig. ,,Hringurinn – já hringurinn er tákn sólarinnar. Hvíti-Kristur er sólin sem gengur aldrei til viðar. Hann er Drottinn alheimsins.”

Minningarnar streyma fram. Hér á Krosshólum er ég ekki lengur ég sjálf: ellihrum, beygð og döpur. Í krafti krossins lifði ég af.

Hvíti-Kristur, þú ert mikill landnámsmaður. Síðan ég kynntist þér hefur þú numið land í hugarborg minni og nú er svo komið að ég á ekkert eftir handa sjálfri mér. Ég tók ekki nema lítinn skika þess lands sem blasir við mér hér norður í Dumbshafi – þú tókst mig alla.

Hér stendur konan sem gat ekki beygt kné sín fyrir heiðnum goðum, stolt tigin kona, drottning, óvægin við andstæðingana, sjálfstæð, óhrædd við að segja sannleikann. Hnarreist og þó….

Hvíti-Kristur, ég mæni á þig. Frammi fyrir þér beygi ég kné mín. Ég bið þig, að hylja mig skikkju kærleikans. Já, einmitt þetta sögðu munkarnir….,,að íklæðast Hvíta-Kristi”.

„Bænalönd Breiðfirðinga“

Ég sagði eitt sinn ,,Ég á mig sjálf en svo komst þú, Hvíti-Kristur! Ég er ambátt þín. Mér er hugsað til baka í klaustrið. Mér fannst myndin af þér ljót, vissulega er hún ljót. Maður á krossi. Munkur kom til mín, þar sem ég virti fyrir mér krossinn skelfingu lostin. Það var sem hann læsi hugsanir mínar og sagði:

,,Hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin sem vér höfðum til unnið kom niður á honum og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir” (Jesaja 53:5).

Hvíti-Kristur, ég skil þetta ekki, þú sendir mér tákn af himni einmitt núna, regnboga, hvílíkir litir! Ég gleymi elli minni og þrautum er ég lít tákn þitt í skýjunum, Drottinn.

Hvers vegna þessi erfiða ganga?

Ég staulaðist hingað upp eftir, ekki í von um æsku, ekki í von um kraftaverk. Nei ég vil verða hlýðin ambátt þín, Drottinn. Þú veist, hversu erfið þrautaganga mér er að baki….

þar til ég staðnæmdist við krossinn. Krossar mínir eru til vitnis um kærleika þinn til handa vegmóðum og vegvilltum svo að þeir nái áttum.

 

Aftur á Krosshólum fyrir brúðkaupið.

Auður djúpúðga er í óða önn að undirbúa brúðkaup sonarsonar síns Ólafs feilan. Hann er að ganga í hjónaband. Ólafur er sonur Þorsteins. En nú var mál að biðja Guð almáttugan um vernd og blessun. Hún er stödd neðarlega í Krosshólum og ber fram bænir sínar:

 

Fyrirbæn

Hvíti – Kristur, ég ákalla þig. Hér er ég aftur komin, öldruð kona og amma. Sonarsonur minn er enn ungur en á að taka við búi mínu að Hvammi. Ég bið honum velfarnaðar í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Ég legg hann í þínar hendur sem fyrr. Já hann er vel af Guði gerður og verður ættinni til sóma. Ég bið einnig um blessun til handa brúði hans ungu. Viltu nú gæta þeirra á öllum vegum þeirra. Og það vildi ég helst að þú Hvíti – Kristur forðaðir Ólafi frá vígaferlum. Ég bið þig þess að þú steypir öllum heiðnum goðum af stalli, þeirra er ekki þörf lengur og hvað mig varðar væri mér akkur í því ef þeir hyrfu alveg af sjónarsviði. Þú ert þess megnugur Hvíti – Kristur. Þá fá börnin að lifa í stað þess að nú hafa þau oft verið borin út. Ekki verður framar farið með gamalmenni á ætternisstapa. Ekki þarf að orðlengja það. Hvíti- Kristur þú gjörþekkir mig. Og nú veit ég, að þú munir einnig verða óséður gestur okkar á meðal. Faðir Hvíta – Krists, veit þú oss liðsemd í þúsund liði eins og þú hefur gefið okkur fyrirheit um. Þú gengur um luktar dyr.

 

 

Auður djúpúðga að undirbúa brúðkaup sonarsonar síns

 

Brúðkaupið

Gegnum brimgný aldanna berast mér glaðværar raddir. Brúðkaupsgestir streyma hvaðanæva að en Eyfirðingarnir áttu of langan veg að sækja og urðu að afþakka boðið. Hinir boðsgestirnir nálgast nú óðum áfangastaðinn, Hvamm í Dölum.

Myrgjól Gljómalsdóttir fyrrverandi ambátt Auðar djúpúðgu er betri en engin! Hún stendur í stórræðum að bera fram rjúkandi kindakjöt en Auður djúpúðga spjallar við folaldið bak við tunnu. Fleiri dýr vilja taka þátt í gleðskapnum. Matföngin hafa verið þau sömu í þúsund ár árið um kring. Ekki er hrossakjöt í veislu sem Auður djúpúðga heldur sonarsyni sínum, Ólafi feilan. Það var notað við heiðnar fórnarathafnir og þótti ekki við hæfi á kristnu heimili. Sviðakjammar voru aftur á móti vinsælir, flatbrauð, soðkökur og fjallagrös. Mysa var borin fram sem góður drykkur ásamt öðru. Lundar höfðu verið veiddir á Vestfjörðum og nú kom sér vel að framreiða þá.

 

 Mynd.07

Dansað á grundunum

Auður djúpúðga tekur til máls:

 

Nú munum við ræða erfðamálin í votta viðurvist. Samningurinn mun verða staðfestur með handsali. Heimanmund brúðarinnar, einkar vel valinn, má sjá hér úti í túngarði. Ég er nú senn að fara úr heimi þessum. Enn á ég ótalað við ykkur örfá atriði varðandi greftrun mína. Vil ég liggja í flæðarmáli þar eð Hvíti-Kristur helgaði öll vötn með skírn sinni í ánni Jórdan. En í óvígðri mold vil ég eigi hvíla. Nú sný ég máli mínu til brúðhjónanna.

 

Kæri gumi og kæra mær! Hlustið á mig, þér eylönd, Hvíti–Kristur talar – Hann hefur ,,orðið” ,,Friður sé með yður”.

Hann gekk um læstar dyr upprisinn á páskum, sigurhetjan unga. Þetta er veganestið sem ég gef ykkur. Höfð eru eftir honum fögur fyrirheit. Boðskapurinn er þessi: Þar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra. Nú munið þið ganga í eina sæng, hjónasæng, allt verður sameiginlegt, borðhaldið og náttstaðurinn. Forðum gaf Hvíti – Kristur brúðhjónum guðaveigar. Þess bið ég, að Hvíti – Kristur veiti einnig ykkur guðaveigar á ævigöngu ykkar. Þú unga mær munt verða mikil búkona hér í Hvammi við hlið bónda þíns. Sonarsonur minn mun ganga fram öruggur í daganna amstri, hrjúfur á ytra borði en hjartahlýr við sína nánustu.

Hvíti – Kristur gengur um læstar dyr. Hann hefur lausnarorðið: Friður.

 

Aldin amma óskar þess af heilum hug að ykkur megi auðnast að standa vörð um friðinn. Aldin amma biður þess af heilum hug að ykkur auðnist að ná sáttum eftir daglangt strit, að ná sáttum fyrir vökulok dag hvern. Hlustið á ráð mín: Þegar eitthvað bjátar á, gangið þá upp á Krosshóla, sinn troðninginn hvort ykkar þar til þið hafið náð brúninni og njótið víðsýnis.

 

 

 

 

Heimildir

1) Tímarit Breiðfirðinga, 14. hefti 1985 – bls. 48.

2) Árni Óla, Landnámið fyrir Landnám, Setberg, bls. 135.

3) Breiðfirðingur, 24-25 árgangur, 1966.

Mynd.08

Heimanmundurinn

 

 

Mynd.09

Greftrun Auðar djúpúðgu

 

 

 

Patrekur (Patrick)

390 – 460

 

Aðframkominn þjónn Hvíta-Krists


Saga Patreks er ákaflega merkileg. Barn að aldri var honum rænt úr skrauthýsi föður síns heima í Bretlandi, sem þá laut stjórn Rómverja. Farið var með hann til Írlands. Hann var látinn vinna þrælavinnu. Honum tókst um síðir að flýja og komst aftur til Bretlands og varð prestur. Völdum Rómverja fór hnignandi.

Víða hafa sést ummerki um veru munka eins og til að mynda í Papey, þar sem litlir trékrossar fundust. Kristján Eldjárn stóð fyrir uppgreftri rústanna en ekkert annað fannst, þess vegna dró hann í efa að sagnirnar um veru manna hér fyrir landnám væru sannar. Munkarnir frá Írlandi fyrir landnám höfðu samt gífurleg áhrif með kyrrlátu helgihaldi sínu og urðu fyrstu kristnu landnámsmönnunum sönn fyrirmynd. Ekki spillti það, hvað þeir voru vel að sér í siglingum og öllu sem lýtur að sjómennsku. Þeir söfnuðu ekki auði en lifðu fábrotnu lífi. Þeir ástunduðu helgihald og frið við alla menn. Auður djúpúðga undraðist, að til skyldu vera menn sem sæktust ekki eftir metorðum og völdum.

Til er staður sem heitir Papey. Þar bjuggu Papar, en þeir bjuggu e.t.v. í hellum, sjá (Árni Óla) Landnámið fyrir landnám. Saga um spámanninn í hellisskúta í I. Konungabók 19,11-12:

„Far út og gakk fram fyrir auglit Drottins uppi á fjallinu.“ Þá gekk Drottinn þar hjá. Gífurlegur stormur fór fyrir Drottni, svo öflugur að hann molaði fjöll og klauf kletta. En Drottinn var ekki í storminum. Eftir storminn varð jarðskjálfti. En Drottinn var ekki í jarðskjálftanum. Eftir jarðskjálftann kom eldur. En Drottinn var ekki í eldinum. Eftir eldinn kom þytur af þýðum blæ.

Þessa sögu skildu Paparnir.

 Mynd.10

HL. Patrekur f. 389 – d. um 461

 

 

Patrekur ákvað að snúa aftur og gerðist prestur

Árin í útlegð dýpkuðu trúarlíf hans. Þá fannst honum hann vera kallaður til að snúa aftur til þess fólks þar sem hann hafði verið látinn vinna sem gísl. Hann lýsir þessari köllun á eftirfarandi hátt:

Mig dreymdi fólkið nálægt fallegum skógi við Vesturhafið. Allir kölluðu sem ein rödd væri.

Helgi sveinn, vertu svo vænn að koma aftur til okkar. ,,Þessi draumur snart mig af innstu hjartans rót og ég vaknaði!”. Hann gat ekki skotið sér undan heldur sneri aftur til Írlands og varð trúboðsbiskup. En starf hans var yfirgripsmikið og fór hann víða. Bretar voru lítt hrifnir af þessu.

Varðveist hafa bréf sem hann ritaði til bresks höfðingja sem hafði rænt Íra. Patrekur kannaðist við þennan unga mann vegna þess að hann hafði fermt hann. Enn fremur er til bréf þar sem hann skýrði frá trú sinni.

Hann þurfti að sannfæra fólk um trú sína: Líkt og Páll postuli, predikaði hann yfir fólki við útjaðar byggðar. Hann var þjáður og þjakaður líkt og Kristur, og þannig færðist hann nær frelsara sínum. Menn dáðu þennan lærisvein Krists og vildu feta í fótspor hans. Allar þessar sögur um Patrek voru kunnar meðal fyrstu kynslóðar Íslandsbyggðar og urðu seinna til þess að nafn heilags Patreks var valið fyrir fjörð og bústað.

 

Aftur á Írlandi í Voclutskógi:

Öll dýr skógarins fagna mér. Við lofum Guð í sameiningu, allt sköpunarverkið tignar þig. Kristur minn, geisladýrð þín umlýkur mig, þú ert mér til hægri handar. Nálægð þín er raunveruleg, þú einn – ekki böðlarnir, víkingar eða villimenn hræða mig.

Þú hefur valdið, máttinn og sigurinn, ég lifi eilíflega með þér, og nú þegar ég finn storkið blóð á andliti mínu en get ekki strokið það burt þar sem ég er bundinn á höndum og fótum, finn ég frið þinn, sem er æðri allri skynsemi, streyma um mig.

Kærleiksglóð þín yljar mér um hjartarætur. Þú hefur eignast lömb í þína hjörð hér á Írlandi þrátt fyrir allt mótlætið. Gættu þeirra vel fyrir mig. Við eigum þau báðir, Drottinn minn.

 

 

 

 

Helgi  magri

og

Þórunn hyrna

 

Fyrstu landnemar í Eyjafirði

 

Helgi magri og Þórunn hyrna sigla inn Eyjafjörð árið 890. Helgi magri, landnámsmaður Eyfirðinga er dóttursonur Kjarvals Írakonungs. Kona hans er systir Auðar djúpúðgu, Jórunnar Mannvitsbrekku, Björns austræna og Helga bjólu. Þeir síðarnefndu komu á undan Auði djúpúðgu.

Við vitum lítt um skap og lyndiseinkenni Þórunnar. Helgi magri hafði breyst frá því að vera sjóræningi að okkar tíma mati og þar til hann varð kristinn. Þórunn og Helgi nema land í Eyjafirði. Eflaust hefur Þórunn orðið þeirri ákvörðun fegin eftir allt volkið í sjónum. Hér var búsældarlegt og staðurinn sem Helgi valdi til búsetu ákjósanlegur. Ekki spillti það að sjá gufuna stíga upp til himins og hugsa til allra þeirra hlunninda sem fylgja jarðhita. Það var svo sem búið að gylla fyrir þeim landið en einnig höfðu sumir vinir þeirra talað um hafísinn. En nú bregður svo við að fagrir dalir opnast á báða vegu og búsældarleg héruð blasa við. Kristnes skyldi bær þeirra heita, ekki Þórsnes.

 

Sálarstríð Helga magra við Drottin allsherjar

Reiður og ragnandi

Reri um rosasjó

Eru ragnarök í nánd?

Raupsamir, ruplandi ræningjar rægðu Írakonung.

Hvíti – Kristur fyrir þig dó…

Hljóður stend ég í leiðslu:

Eru þetta lendurnar sem þú, Drottinn ætlaðir mér?

Bær minn skal nefndur Kristnes, lítill þakklætisvottur fyrir björgunina.

 

(Ísland landið þitt bls. 275)

 

Þórunn hyrna Ketilsdóttir:

Þetta var mér kennt: Þeim sem gengið hafa í hjónaband býð ég, þó ekki ég heldur Drottinn, að konur skuli ekki skilja við mann sinn. Ekki er þetta nú létt verk sem lagt er upp á okkur!              I Kórintubréf 7, 10

En svo segir Páll postuli enn fremur ,,Og nú bendi ég yður á ennþá miklu ágætari leið“.                  I Korintubréf 13 1-13.

Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. En nú varir trú, von og kærleikur þetta þrennt en þeirra er kærleikurinn mestur.

Ég man hvað ég heillaðist af honum Helga fyrst þegar við kynntumst og ég kvað þakkarkvæði til skaparans úr Ljóðaljóðum 5, 10-16. Unnusti minn er bjarturur og rjóður, hann ber af tíu þúsundum.

Getum við ekki líkt sálarstríði Helga magra við Job í Biblíunni?

Samtal Guðs við landnámsmanninn um borð í skútunni á leiðinni til Íslands. Helgi kunni margar sögur úr Biblíunni (Job 38-42) ,,Jobsbókin” var honum kunn og nú var það Guð, ekki Job: Drottinn svaraði honum úr stormviðrinu og sagði: Gyrtu nú lendar þínar eins og maður. (Job.40.7)

 

 Mynd.11

Helgi magri, landnámsmaður Eyfirðinga

Mun seinna – Kvein.

Þórunn kvartar: ,,Hvíti Kristur. Þú mátt svo sem skyggnast inn í hugarborg mína. Það er ekki fallegt um að lítast þar í dag. Eg ætlaði mér svo sannarlega að þiggja boð systur minnar og ferðbúast til að taka þátt í veislunni. Hún heldur sonarsyni sínum veglega brúðkaupsveislu og okkur var boðið. Og svo á eg að biðja – Faðir vorið – verði þinn vilji. Eg held einmitt að þetta sé ekki þinn vilji. Eg held að þú Hvíti-Kristur skiljir mig manna best, að mig skuli langa til að bregða mér vestur í Dali og faðma systur mína. Við höfum alltaf verið samrýmdar, það verður ekki farið. Eg er leið – eg ætla að ræða við þig öll þessi mál. Fyrst og fremst bið eg þig um að umvefja systur mína birtu frá þér og leiða hana hvert fótmál. Eg þakka þér fyrir hana, þú gafst mér stórkostlega fyrirmynd í henni. Hún er ellihrum og eg kvíði því að hún eigi stutt eftir. Ennfremur bið eg að styðja (gengis)braut Ólafs Þorsteinssonar í Hvammi. Eg veit, hann á að taka við jörðinni. Vertu honum ljós og styrkur í hvívetna og blessaðu hjónaband hans. -Mikið hefði verið gaman að sjá hin ungu brúðhjón. Eg hefði viljað hitta þau öll, einnig Björn bróður og allt þetta göfuga venslafólk sem fluttist til landsins um svipað leyti og við. En nú eru þessi mál geymd í hjarta þínu, Hvíti-Kristur. Þú breytir mér, eg vona það allavega. Stendur ekki skrifað í helgri bók að þú munir taka steinhjartað úr brjósti okkar og gefa okkur hjarta úr holdi og blóði? Eg er bitur, miskunnaðu mér! – - – Eg þarf að líta eftir sauðunum, þá hef eg gott tækifæri til að þakka þér fyrir dalinn okkar. Eg veit, Hvíti-Kristur þú ert Drottinn allsherjar og hefur allt sköpunarverkið í hendi þinni. Og þarna hillir undir fjárhúsin. Sauðirnir minna mig ævinlega á þig, Hvíti-Kristur! Reyndar hugsa eg um þig sem góða hirðinn er eg stend í dyrunum. Ekkert illt kemst að sauðunum þar sem þú ert, þú varnar öllu illu að komast inn. Eg er vön að gera krossmark og síðan treysti eg þér, Hvíti-Kristur.”

 

Mótlæti Þórunnar hyrnu:

Hvíti-Kristur, skyggnstu nú

inn í hugarborg mína!

María, móðir þín skilur mig:

í dag er veisla á Hvammi

í dag er gleði og glaumur

í Dölum: Auður djúpúðga

göfugasta konan á landi hér

efnir til veislu.

Systir mín, ljúf og skörunglynd

nú ertu fjarri mér.

Tíni eg Maríulykla og

Maríugrös í blómvönd handa þér.

Maríuerla, fuglanna kærust, berðu henni

kveðju frá mér

um sáran söknuð.

 Mynd.12

Þórunn hyrna

Hvíti-Kristur, þú skilur mig

móðir þín kenndi þér ungum

þá list sem ristir dýpst:

aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Finn eg maríugler[1] í urðinni

mér til hugarléttis

og ber nú næst mér innanklæða.

Söknuður og sársauki

fylla sál mína

tíni eg blóm í leiða mínum.

Krossfífil til lækningar

en ekki ætlaður börnum,

Maríuvöndur og Maríustakkur

Krossmaðra og Sigurskúfur

minna á þig, Hvíti Kristur.

 

 

[1] Þynna af ljósum glimmer (mica)

 

 Mynd.13

Þórunn hyrna og Þorbjörg hólmasól

Ég staldra við. Blærinn leikur um kinn mína. Eru þetta bænir systur minnar ? Hverju hvíslar blærinn í eyra mér ? ,,Ég lifi og þér munuð lifa.” Eyrarrós og Sigurskúfur prýða nes og engi. Hvíti-Kristur, sigur þinn yfir veldi vetrar og syndar.

Akureyri á 21. öld. Bifreiðar aka um Helgamagrastræti og Þórunnarstræti en Hólmasól fyrir börnin!

Þórunn hyrna: Ókomnar kynslóðir munu okkur sæla prísa fyrir að nema land í Eyjafirði – Faðir vor, faðir Hvíta-Krists eg trúi á handleiðslu þína. Helgi magri var gjöf þín til mín þegar við vorum bæði ung og þyrst í ævintýri. Hvíti-Kristur, eg veit þú skilur hann, blendinn í trúnni, Helga minn, hvernig má það öðruvísi vera skilinn eftir munaðarlaus á Suðurnesjum. Hvílík fásinna! Hann var hjá vandalausum en sveltur! Hvílíkt þrek hefur skapari gefið honum þrátt fyrir fátækt og sárasta hungur! Eg vildi óska að niðjar okkar leggðu ekki nafn Guðs við hégóma og gæfu sig heils hugar Hvíta-Kristi á vald. Verði fjörðurinn okkar laus við allan hégóma en einnig heiðna siði og ljótt orðbragð. Hvíti-Kristur, ég treysti þér. Þú hefur sagt! ,,Án mín getið þér alls ekkert gjört!”

Nöfn staða tengja okkur við fortíðina, götuheiti segja sögu. Hér er komið svar við spurulum augum og eyrum ferðamanna. Íslandssagan ljóslifandi í kringum okkur. Nöfnin Helgamagrastræti og Þórunnarstræti flytja okkur aftur á landnámsöld. Síðan reka Akureyringar ágætan leikskóla fyrir yngstu kynslóðina og nefna hann Hólmasól. Ástæðan er sú, að fyrsta barnið sem fæddist í Eyjafirði var borið í heiminn á hólma í Eyjafjarðará.

 

Heimildir

1) Landið þitt Ísland, Örn og Örlygur, 1. bindi bls. 415-135

2) Jón Hjaltason, Saga Akureyrar.

3) Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir, Örn og Örlygur, 1991, bls. 53

 

 

 

Ásólfur alskik

Algóður einsetumaður

Mynd.14

Ásólfur alskik á leið til Íslands

 

Hann kom frá Írlandi. Alskik merkir algóður, heilagur. Í litlu kveri um Klaustrin á Íslandi eftir Janus Jónsson, sem kom út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags 1887, er minnst á þennan mæta mann vegna Guðstrausts hans. Hann vildi ekki þiggja mat af heiðnum mönnum. En á öllum stöðum, þar sem hann dvaldi, fylltust lækjarsprænurnar af fiskum.

Bæn: Hvíti-Kristur ég treysti þér að þú sjáir mér fyrir öllum nauðþurftum Fyrst mér er ekki vært undir Eyjafjöllum, held ég áfram för minni í leit að nýjum stað til helgihalds. Hvíti-Kristur, þú veist hvers vegna ég hef ekki viljað þiggja gjafir frá heiðnum mönnum. Hef ég misskilið þig? Ég vildi ekki leggja mér fórnarkjöt til munns.

Ritað er í helga bók:

Treyst ekki mönnum, treyst ekki tignarmönnum, hverfulan lífsanda hafa þeir – þú hefur fætt mig. Ég er ekki einmana. Stöku sinnum kemur hagamús úr holu sinni og hverfur síðan fyrir mosabarð. Á sumrin fylgist ég með flugi fugla og hversu natnir þeir eru að veiða flugu handa ungunum sínum. Þeir syngja þér til dýrðar. Svona er nú vistin við lækinn. Hvíti-Kristur ég er sáttur og glaður. Skýjafar, já sólaruppkoma og sólarlag heilla mig. Og á veturna tilbið ég þig undir alstirndum himni við norðurljósa glóð.

,,Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu”. Tilbiðja hann, þóknast honum.

-Þetta veitist mér erfitt-. Varst það þú Drottinn allsherjar sem tókst félaga mína til þín? Við vorum tólf á bátskænunni til þessa kalda lands. Ég bað og ég bað og þú bænheyrðir mig ekki. Ég er einn eftir Hvíti-Kristur, þú komst við, þegar Lasarus lá dáinn í gröf sinni þú einn skildir mig. Ég glími við Guð almáttugan í sorg minni. Þú einn skilur mig, Guð minn Guð minn „hefur þú yfirgefið mig”. Og ég sem hélt að þú hefðir sent mig norður á þennan fjarlæga stað. Og við sem bjuggumst við að þú hefðir velþóknun á ferðum okkar bræðra, Drottinn allsherjar. Ég skil ekki vilja þinn og beygi mig í lotningu og tilbeiðslu fyrir skapara mínum og frelsara. Ég trúi, þó að ég geti það með engu móti. Við bræðurnir vorum mjög samrýmdir og allir fúsir til að þola ill örlög og jafnvel dauða af hendi víkinga.

Aumur þræll þinn leitar til þín Hvíti-Kristur:

Þökk sé þér Hvíti-Kristur fyrir fiskana. Aumur þræll hrekst stað úr stað Hvíti-Kristur, þú sendir fiskana í læknum til mín. Óvinir mínir standa agndofa vegna allra þeirra gæða sem þú lætur mér í té. Þú lýkur upp hendi þinni og ég mettast. Ég hef notið allra þeirra gæða sem áin gat boðið upp á og hef þegið langt fram yfir það sem ég hef beðið um og fæ skilið.

Hvíti-Kristur leggðu nú smyrsl við sár, augu þín sjá gegnum holt og hæðir, leggðu þeim lið sem hafa hvergi höfði sínu að halla. Margir mæna til þín í skammdegismyrkri og sárustu neyð. Börn og gamalmenni bíða eftir hjástoð og huggun. Ekki allir njóta þeirra hlunninda að fá silung úr lækjarsprænu.

Já, hver veit nema mér takist að lauma einum og einum silungi til ekkjunnar með stóra barnahópinn sinn. Hvíti-Kristur þú sagðir: Án mín getið þér alls ekkert gert……

 

 Mynd.15

Ásólfur alskik (algóður) einsetumaður

Satt er það reynt hef ég náð þína við mig. Náð þín nægir mér. Elía spámaður þáði vatn úr læknum. Hrafnarnir færðu honum fæðu. Verst af öllu tel ég þó vera skapofsa, rifrildi og skort á trausti til þín. Það er einlæg bæn mín, Hvíti-Kristur að illskunni linni og nú komi friður. Hvíti-Kristur, ég ætla að gjöra bæn mína fyrir öllum afkomendum landnámsmanna á þessari eyðieyju sem eiga eftir að fæðast á ókomnum öldum. Umfram allt bið ég þig um að taka þér bólfestu í hjörtum hvers og eins og koma í veg fyrir eigingirni og valdafíkn. Víkingarnir þekktu þig ekki. Ég er ekki kallaður til að tala um fyrir þeim, en ég bið um miskunn til handa þeim og heilagan anda. Hvíti-Kristur, þér er enginn hlutur um megn. Ég er einn eftir, við sigldum við 12 hingað norður. Ég tigna þig og opna sál mína frammi fyrir þér Hvíti-Kristur.


 

Séra Friðrik Friðriksson

1868 – 1961

 

Svo sannarlega ætti fólk að fara í pílagrímsferð og kynnast starfi eins af þekktustu mönnum kirkjunnar. Fjölmargir staðir á landinu minna á séra Friðrik. Áhrif hans á kristnihald á Íslandi eru ómæld. Í sálmabókinni eru 20 sálmar skráðir eftir hann. Hann var talinn helgur maður er hann lést og jafnvel löngu áður. Yndisleg bók eftir hann er nú ófáanleg, „Sölvi“. Að sjálfsögðu skrifaði hann hana fyrir æsku landsins. Biblíulestrarnir sem hann hélt fyrir menntaskólapilta og stúdenta urðu eftirminnilegir; falleg ljósmynd af hinum aldna presti og þeim er til vitnis um þetta starf. Þeir mörkuðu djúp spor í lífi þáttakenda. Hann hélt utan um hópinn, og honum tókst að leiða þá inn í heim trúar.

Guðrún, móðir séra Friðriks ekkjan unga, bað heitt og innilega fyrir syni sínum. Já, séra Friðrik missti föður sinn ungur, aðeins tíu ára. Þær bænir voru heyrðar. Áratugum síðar, er Guðrún þess umkomin að bjóða ungum fátækum manni að borða hjá sér eins oft og hann vildi. Þessi ungi maður var rithöfundurinn Kristmann Guðmundsson. Frá þessu er sagt í litlu kveri eftir Úlf Friðriksson frá Lettlandi, (hann lést 2009), „Fundið og gefið“.

Nú verð ég að segja frá ógleymanlegum áramótum á unglingsárum mínum – þá vinnukona vestur í bæ. Vinnukonan á Hólatorgi hraðaði sér út um hliðið. Klukkan var farin að ganga tólf. Kirkjugarðurinn beint á móti boðar aðeins eilíft líf og sælu á himninum. Ferðinni var heitið niður í bæ. Unglingsstelpan ætlaði að hlusta á miðnæturmessu séra Friðriks Friðrikssonar. Virðulegur með sítt hvítt skegg og dálitla húfu á höfðinu gekk öldungurinn upp að ræðupúltinu. – Allt er þetta mér svo minnistætt, þó að hálf öld sé nú liðin. – Það var óhugsandi fyrir þetta unga fólk í kringum séra Friðrik að dvelja heima á þessu hátíðlega kvöldi. Allir voru komnir til að fagna nýju ári með sálmasöng og bænum. Gamlárskvöld í Reykjavík á árunum meðan öldungsins séra Friðriks Friðrikssonar naut við er ógleymanlegt. Hann las úr ritningunni og talaði blaðalaust út frá textanum. Hann bað fyrir landi og þjóð. Kirkjuklukkunum var hringt, skipslúðrarnir gullu – samhringing klukknanna í nokkrar mínútur og sálmurinn „Nú árið er liðið“ hljómaði meðan þessu fór fram. Borgin tók á sig dulúðugan blæ eftirvæntingar og gleði. Hátíðlegra getur nýja árið ekki gengið í garð. Gamla árið var kvatt með lofgjörð og uppgjöri. Að endingu var sunginn sálmurinn „Son Guðs ertu með sanni“. Blessun Guðs fylgdi vinnukonunni með fyrirheit á þessu nýbyrjaða ári, heim í kjallaraherbergið.

Mynd.16

Ekkjan, Guðrún og séra Friðrik á barnsaldri

Mynd.17

Mynd.18

Sorg

 

 

 

 

 

Gústi guðsmaður

frá Siglufirði

 

Ég er komin inn í einstakan helgidóm sem Íslandssagan er. Ég skynja tilfinningar genginna kynslóða, raunir þeirra og sigra. Einn þessara manna sem á sérstaka aðdáun mína er Siglfirðingurinn Gústi guðsmaður! Hann er nær okkur í tímanum en allir hinir sem ég hef fjallað um og svo tær persónuleiki að ég mundi líklega fara úr skóm í kirkjugarðinum á Siglufirði við leiðið hans. Hann á aðdáun mína og virðingu.

Þegar ég heyrði fyrst talað um hann í ágætum útvarpsþætti og hlustaði á lagið um hann var ég djúpt snortin. Það var til þess að ég samdi langt sendibréf um hann til aldurhniginnar móður minnar, til þess að hún gæti glaðst ásamt mér yfir yfirburðum Gústa guðsmanns yfir öðrum mönnum: Með Hvíta-Kristi til sjós.

Mynd.19

Gústi guðsmaður á Sigurvin

 

 

Um Gústa guðsmann (Ágúst Gíslason)

Hann keypti lítinn bát,

frá Siglufirði reri hann út á hið bláa haf,

hann keypti lítinn bát

og aflann sem hann dró

til kritniboðs hann alltaf gaf.

Gylfi Ægisson

 

Mynd.19

Gústi guðsmaður

 

 

Staðarborg

á Strandarheiði í Gullbringusýslu

 

Kæri ferðamaður, hver sem þú ert, ætla ég að fara með þig á sérstakan stað í Strandarheiði ekki langt frá Kálfatjörn. Keyrt er á malarvegi síðan þarf að skilja bílinn eftir og ganga í átt að Trölladyngju. Áfangastaðurinn er svokölluð Staðarborg, fjárborg sem er nokkur hundruð ára gömul.

Guðmundur hét maður, vinnumaður á prestsetrinu. Hann var fenginn til að hlaða fjárborg sem áður er getið um. Hann fór gangandi af stað frá Kálfatjörn og valdi fallegustu steinana í hleðsluna. Ummál hringsins er 35 metrar en þvermál hringsins að innan er 8 metrar og vegghæðin 3 metrar.  Guðmundur lauk ekki við að hlaða borgina, vegna tilskipunar prestsins á Kálfatjörn, sem hélt því fram að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju. Staðarborgin var friðlýst árið 1951.

Guðmundur:

Maríu sonur, ég horfi reiður um öxl og hverf á braut frá óloknu verki. Húsbóndi minn skilur mig ekki. Er ég lít yfir farinn veg yfir úfið hraun og rétt sé fjárborgina mína í síðasta sinn, stendur þá ekki lausnarinn sjálfur í dyrunum. Þá hvarf mér öll reiðin.

Umhverfis Staðarborgina er endalaust hraun, mosavaxið á köflum, illt yfirferðar og hættulegt kindum. Þær eru býsna fimar, samt vildi eitt sinn svo slysalega til að kind hrapaði í gjá eina sem myndast hafði í hrauninu. Ógerningur var fyrir hana að komast upp aftur. Smágrasblettur er í botni gjárinnar en síðan taka snarbrattir hamrar við. Löngu seinna komu menn þar að og sáu aðeins beinagrindina, dapurlega sjón. Fjárborgin er hinsvegar staður vonar og trausts, bæði fyrir menn og skepnur.

Ljúfi lausnari, laust mig hart, leystir frá löstum, soltinn og einmana, ráfar um hraunið, kominn á vonarvöl, náð þín ein nægir mér.

Víst vildi ég bjarga lambinu. Heyrði ég glöggt jarmið bergmála í klettunum. Garmurinn brást mér í þetta sinn. Nú er ég gráti nær.

 

­­­­Mynd.21

Góði hirðirinn

Mynd.22

Nú er ég gráti nær

Signý Sigmundsdóttir

á Miðfelli í Hrunamannahreppi

 

Sigmundur Jóhannsson og Rósa kona hans voru vinnuhjú og eignuðust tvær dætur, Önnu og Signýju. Signý fæddist 1853. Var tekin til fósturs og ólst upp á Miðfelli í Hrunamannahreppi. Hún var mjög trúuð og óeigingjörn. Árið 1887 er talið líklegt að Signý hafi farið frá Miðfelli og flust til Reykjavíkur og átt heima á Grímsstaðaholtinu. Lengi vann hún við að bera vatn í hús.

 

Mynd.23

Signý átti fimm fermingarsystkini.

 

Í dag, hvern morgun eg svo bið.

Aldrei lát mig þig skiljast við,

sálu, hugur og hjartað mitt

hugsi og standi‘ á ríki þitt.

 

Hallgrímur Pétursson

 

Mynd.24

Mynd.25

Ferming Signýjar

Fermingarbörnin sex voru einlæglega trúuð. Friðarboginn skein yfir hverju og einu. Nú voru þau komin í fullorðinna manna tölu. Reyndar höfðu þau tekið þátt í öllum búverkum allt frá blautu barnsbeini. Síðar á lífsleiðinni vakti hjásetan oft hjá þeim minningar um bjartar nætur og fegurð sumarsins fremur en jarm lambanna.

Mynd.26

 Mynd.27

Ferming Signýjar

 

Ævi Signýjar var ekki dans á rósum. Hún vann í mörg ár við það að bera vatn í hús í Reykjavík. Þægindi, svo sem vatnsleiðslur með heitu og köldu vatni, þekktust ekki  þá. Svo fíngerð sem Signý var, réð hún ekki við þetta erfiða starf. Að lokum varð hún krypplingur. En trúna missti hún aldrei:

 

,,Þegar mér ganga þrautir nær

þér snú þú til mín, Jesú kær…“

Hallgrím Pétursson

 

Línurnar tvær voru eflaust skráðar í vitund Signýjar og mynduðu einhverskonar trúarstef í lífi hennar. Ég ákvað því að rita þær á ofanverða myndina sem sýnir Signýju ellihruma og bogna í baki; þá orðin krypplingur. En blessunardaggir yfirskyggja allt og verða æ sýnilegri eftir því sem á ævina leið. Geislarnir að ofan tákna bænheyrslu um styrk sem hún hafði beðið Frelsarann um.

 

 Mynd.28

Bænheyrsla Signýjar

 

Spor englanna                                                           Lúpínurnar við Hvaleyrarvatn

Sjáið hvílíkt undur!                                                     Nú blána hólar og hæðir

Allt lifnar við.                                                             af lúpínum:

Mjúkir hnoðrar                                                            Stoltir íbúar við vatnið

í hlíðinni                                                                      bjóða hrossagaukum

niður við vatnið,                                                          og maríuerlum heim.

loðnir að utan                                                              ,,Þrestir og hrafnar,

en fagurbláir innst inni,                                               verið velkomnir allir,

ýmist sægrænir                                                            hér er gott

eða gráleitir…                                                              að hreiðra um sig

Englar hafa átt                                                                        og njóta hvíldar.”

hér leið um                                                                  Náttúran er gjöful.

og skilið eftir spor sín.                                     Englar brosa í þeirri vissu,

Heilög jörð.-                                                                að einnig örþreyttir menn

,,Enginn hlutur                                                            finni unað við vatnið.

er mér um megn”,

mælir Drottinn allsherjar.

Vorið er á næsta leiti.

 

Jesús: Liljur vallarins…

 Mynd.29

 

 Ógn býr í jökli

 

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi yrkir:

 

Í gegnum móðu og mistur

ég mikil undur sé.

Ég sé þig koma, Kristur,

með krossins þunga tré…

 

 

Gosið 2010

 

Stjörf og skelfingu lostin

svarta myrkur um miðjan dag.

Megi þjóðinni hlotnast blessun

um síðir.

Myrkur um miðjan dag

menn máttvana með grímur,

máttug samhjálp meðbræðra.

Menn muna séra Jón Steingrímsson,

en nú er öldin önnur.

Hljóðar og lostnar skelfingu

hlusta fjarlægar þjóðir

á fregnir af gosinu, sjá gosið

í stofunni heima hjá sér,

hringja jafnvel til að sýna

samhug og velvild.

Einn heimur, ein sál

eingöngu eina sekúndu

á mælistiku tímans,

viðleitni þó – í fjölmiðla fári…

Íslendingar víkja aldrei af hólmi.

Ég vildi að gosinu linnti!

Landar veita viðnám hverju sinni,

von og sterkur vilji vinni.

 

 Mynd.30

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi yrkir:

 

Í gegnum móðu og mistur

ég mikil undur sé.

Ég sé þig koma, Kristur,

með krossins þunga tré…

 

Ég fell að fótum þínum

og faðma lífsins tré.

Með innri augum mínum

ég undur mikil sé

Þú stýrir vorsins veldi

og verndar hverja rós.

Frá þínum ástareldi

fá allir heimar ljós.

 

Mynd.31

 

Bókaskrá II

 Mynd.32

Heimildir

1. The story of Christian Spirituality – Two thousand years, from East to West.
©2001. Lion Publishing p/c, Sandy Lane West , Oxford, England

2. Landið þitt Ísland. 2. bindi. Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1981. Þorsteinn Jósefsson. Steindór Steindórsson. Bls. 278: „Krosshólar“, bls. 158: Hvammur

3. Íslands handbókin: Náttúra, saga og sérkenni. Tómas Einarsson og Helgi Magnússon. Örn og Örlygur 1989. Bls. 194: Krosshólar. Fyrra bindi.

4. „Helgafell“. Kristmann Guðmundsson. Reykjavík 1951. Unuhúsi Garðastræti 15-17. Guðmundur Gíslason Hagalín og höfundur þýddu.

5. Landnáma bls. 135-136

6. Landnámið fyrir landnám. Árni Óla. Setberg, Reykjavík 1979. Bls. 135, 137

7. Breiðfirðingur : tímarit Breiðfirðingafélagsins. 14. hefti 1955. 24-25 árgangur 1966 bls. 55. 1982 bls 47

8. Laxdæla

9. Íslenskar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. Tínt hefur saman Páll Eggert Ólason. I. bindi bls. 109. Reykjavík 1948

10. Iceland. Hjálmar R. Bárðarson. Reykjavík. Publisher Hjálmar R. Bárðarson. P.O. Box 998 121 Reykjavík. ©1982

11. Íslensk þjóðmenning. Haraldur Ólafsson. Brendan. Írski skinnbáturinn

12. Greftrun Auðar Djúpúðgu. Stefán Karlsson. Minjar og menntir. 481

13. Klaustrin á Íslandi. Janus Jónsson. Hið íslenska bókmenntafélag 1887. (Ásólfur alskik)

14. Dein Tod ist unser Leben. Kreuz-Meditationen von Jörg Zink. Bls. 2-3. Verlag am Eschbach 1987 Im Alten Rathaus

 

 

     

    Víðistaðakirkja, Garðavegi 23, 220 Hafnarfjörður. Sími 565 2050 , fax 565 5390 · Kerfi RSS