Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

 

Héraðsprestur

Sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir hefur tímabundið tekið við starfi héraðsprests í Reykjavíkurprófasts vestra. Sr Ása Laufey mun leysa af sr. Evu Björk Valdimarsdóttur sem hverfu til annarra starfa fram til næstu áramóta, 31.12.2018.

Við bjóðum sr. Ásu Laufeyju velkomna   til starfa  og óskum henni velfarnaðar í störfum sínum fyrir prófastsdæmið.

Birna Birgisdóttir, 21/8 2018

Sumarleyfi.

Skrifstofa prófastsdæmisins verður lokuð frá og með 12. júní til 27. júní vegna sumarleyfa.

Birna Birgisdóttir, 11/6 2018

MESSUÞJÓNAHÁTÍÐ 2018

Messuþjónahátíð verður haldinn í safnaðarheimili Háteigskirkju þriðjudagskvöldð 23. maí n.k. kl. 20.

Messuþjónar er hvattir til að koma og hitta messuþjóna úr öðrum kirkjum og eiga saman uppbyggilega og gleðilega kvöldstund.

Fjölbreytt dagskrá, við munum beina sjónum okkar að söng, lofgjörð og útgáfu nýju sálmabókarinnar, Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Steinar Logi Helgason og séra Jón Helgi Þórarinsson munu fjalla um efnið.  Góðar veitingar verða fram bornar í boði prófastsdæmanna.

Verið hjartanlega velkomin!

 

Birna Birgisdóttir, 23/5 2018

Héraðsfundur 2018

Héraðsfundur 2018 hjá  Reykjavíkurprófastsdæmi vestra verður haldinn í Áskirkju miðvikudaginn 23. maí n.k. Fundurinn hefst kl. 18:00.

Birna Birgisdóttir, 8/5 2018

Samkirkjuleg bænavika

Fólkið í kirkjunni er kallað til að biðja saman og í einrúmi þessa viku 18. – 25. janúar, til að biðja fyrir einingu kristinna manna með systrum og bræðrum í trúnni um víða veröld.

Efni bænaviku fyrir einingu kristninnar kemur að þessu sinni frá kirkjum í Karabíska hafinu. Saga kristninnar á því svæði inniheldur ákveðna þversögn. Annars vegar notuðu nýlenduherrarnir Biblíuna til að réttlæta undirokun upprunalegra íbúa landanna og þeirra sem voru flutt nauðug frá Afríku, Indlandi og Kína. Mörgum var útrýmt, fólk var hlekkjað og hneppt í þrældóm og þjáð undir ranglátum vinnuaðstæðum. Hins vegar varð Biblían uppspretta huggunar og frelsunar fyrir mörg þeirra sem þjáðust undir valdi nýlenduherranna.

Í dag er Biblían áfram uppspretta huggunar og frelsunar, hvati kristnu fólki á karabíska svæðinu til að takast á við þær aðstæður sem um þessar mundir gera lítið úr mannlegri reisn og lífsgæðum. Um leið og járnhlekkir þrælkunar falla af höndum okkar verður til nýtt band kærleika og samfélags í fjölskyldu mannkyns, band sem tjáir eininguna sem við biðjum um sem kristin samfélög.

Orðið er kristnum mönnum uppspretta trúar og vonar. Lestrarnir eru valdir með efni hvers dags í huga til að vekja til samkenndar og bæna fyrir söfnuðunum og fólki á karabíska svæðinu um leið að láta anda Guðs minna okkur á það annað sem neyðin kennir okkur að biðja fyrir. Þemasöngur vikunnar birtist hér í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar, efnið þýddi Hjalti Þorkelsson og Þorkell Örn Ólason og María Ágústsdóttir skrifaði inngang og þýddi efni fyrir sameiginlega guðsþjónustu. Efnið er allt aðgengilegt á vef Þjóðkirkjunnar á kirkjan.is og eything.com.

Á vefsíðunni Bænavika má sjá dagskrá vikunnar og lestra fyrir hvern dag og fleira efni.

Birna Birgisdóttir, 18/1 2018

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir skipaður héraðsprestur.

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir hefur verið skipaður héraðsprestur hjá Reykjavíkurprófastsdæmi vestra  frá 1. nóvember 2017.  Hún mun starfa samhliða sr. Maríu Ágústsdóttur sem setið hefur í embætti héraðsprests um langt skeið.  Við bjóðum sr. Evu Björk velkomna til starfa og óskum henni velfarnaðar í störfum sínum fyrir prófastsdæmið.

Birna Birgisdóttir, 16/11 2017

Legið yfir Lúther Í Neskirkju. Námskeið í tilefni 500 ára afmæli siðaskiptanna.

Þann 31. október næstkomandi eru 500 ár liðin frá atburði sem gerbreytti mannkynsögunni. Þá mótmælti munkurinn Marteinn Lúther aflátssölu kirkjunnar og sagan segir að hann hafi neglt blöð með 95 andmælum á kirkjudyrnar í Wittenberg. Upp frá því hófst atburðarrás sem leiddi til þess að kirkjan klofnaði.

Lúther var merkilegur höfundur. Að sumu leyti var hann byltingarmaður, framsýnn og frumlegur í hugsun. Hann ögraði valdinu og höfðaði fremur til samvisku sinnar en embætta og samþykkta kirkjunnar. Á öðrum sviðum var hann barn síns tíma, fæddur á miðöldum og lifði tíma mikilla átaka. Hann hvatti til ofsókna gegn uppreisnarsinnum úr röðum bænda og sendi frá sér kver þar sem hann formælti gyðingum með afdrifaríkum hætti.

Á okkar dögum tilheyra um 400 milljónir kristinna manna söfnuðum sem kenna sig við guðfræði Lúthers. Þjóðkirkjan á Íslandi er í þessum hópi en þar er vel að merkja ekki litið á þennan áhrifaríka mann sem dýrling. Þvert á móti er gagnrýni og sjálfsmat inngreypt í hugmyndafræði þessara samtaka og er upphafsmaðurinn síður en svo undanskilinn slíku.

Sunnudagur 8. október kl. 16:00
Leikrit um Lúther
Verkið fjallar um æskuár Lúthers og spurt hvers vegna hann setti fram gagnrýni á kaþólsku kirkjuna sem á þeim tíma þótti óhugsandi. Stoppleikhópurinn flytur verkið eftir handriti, í leikgerð og leikstjórn Valgeirs Skagfjörðs og Stoppleikhópsins. Leikritið er ætlað fullorðnum og eldri börnum. Valgeir Skagfjörð, Eggert A. Kaaber og Katrín Þorkelsdóttir fara með hlutverk í sýningunni.

Þriðjudagur 10. október kl. 20:00
Gramsað í kolli Lúthers
Hvað var gamalt og hvað var nýtt í þessari guðfræði? Fjallað verður um helstu kenningar hans sem draga má fram í slagorðum siðaskiptanna: Ritningin ein (sola Scriptura), náðin ein (sola Gratia), trúin ein (sola fidei).

Þriðjudagur 17. október kl. 20:00
Tímar umskipta og átaka
Hver var atburðarrás siðaskiptanna, bæði á meginlandi Evrópu og hér uppi á Íslandi? Hverjir komu þar við sögu og hvað dilk drógu þeir atburðir á eftir sér?

Þriðjudagur 24. október kl. 20:00
500 árum síðar
Hvað er að vera lúthersk? Sagt frá starfi Lútherska heimsambandsins sem er í hópi öflugustu hjálparsamtaka í heimi. Gestur kvöldsins er Magnea Sverrisdóttir sem átti sæti í stjórn sambandsins um árabil.

Þriðjudagur 31. október kl. 20:00
95 hurðir
Siðbótarafmæli í Neskirkju. Gagnrýni og sjálfsrýni á okkar dögum. Opnuð verður sýning Rúnars Reynissonar á 95 íslenskum kirkjuhurðum. Samantekt og umræður.

 

Birna Birgisdóttir, 3/10 2017

Kynningarfundur vegna kjörs í embætti vígslubiskups í Skálholti.

Kynningarfundur fyrir kjörmenn í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra verður haldinn í safnaðarheimili Háteigskirkju miðvikudagskvöldið 27. september kl. 20:00.  Frambjóðendur til embættisins eru:  Sr. Axel Árnason Njarðvík, sr. Eiríkur Jóhannsson og sr. Kristján Björnsson.

Fundurinn er öllum opin. Þeir sem hafa atkvæðisrétt eru hvattir til að mæta.

 

 

 

 

Birna Birgisdóttir, 26/9 2017

Öldrun og efri árin

Námskeiðið Öldrun og efri árin verður haldið í Breiðholtskirkju föstudaginn 29. september nk. kl. 9:30-14:00. Námskeiðið er á vegum Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma og kærleiksþjónustusviðs Biskupsstofu.

Fyrirlesarar:

- Dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir, félagsráðgjafi, dósent í félagsráðgjöf, Háskóla Íslands

- Elísabet Berta Bjarnadóttir, félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar. 

Markhópur: Starfsfólk safnaða sem starfa meðal eldra fólks. Námskeiðið er ókeypis.

Skráning: Skráning hjá Eldriborgararáði í síma 567-4810 eða eldriborgararad@kirkjan.is Skráningu líkur miðvikudaginn 27. september n.k.

Dagskráin er eftirfarandi:

9.30     Mannfjöldaþróun og fjölgun aldraðra og hvaða áhrif þessi þróun hefur á einstaklinginn, fjölskylduna og samfélagið.

Fyrirspurnir og umræður

10.30   Hvað gerist þegar við eldumst?

Félagslegar, líkamlegar og tilfinningalegar breytingar sem eiga sér stað. Viðhorf til eldri borgara og nauðsyn þess að vinna gegn fordómum gagnvart öldrun. Hlutverk eldra fólks og undirbúningur starfsloka. Hvað tekur við þegar eftirlaunaaldri er náð?

Fyrirspurnir og umræður

11.45   Hádegisverður

12.30   Hvernig er hægt vinna gegn félagslegri einangrun á efri árum og stuðla að virkri þátttöku eldra fólks í     samfélaginu?

Stutt yfirlit yfir þá þjónustu sem stendur öldruðum til boða og þá þjónustu sem aldraðir veita í samfélaginu.

Fyrirspurnir og umræður

13.00   Stuðningur við starfsfólk í öldrunarstarfi kirkjunnar. Elísabet Berta Bjarnadóttir, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

Birna Birgisdóttir, 21/9 2017

Haustguðþjónusta Eldriborgararáðs.

Haustguðþjónusta Eldriborgararáðs verður haldin í Breiðholtskirkju sunnudaginn 17. september kl. 11:00. Svala Sigríður Thomsen djákni predikar og þjónar fyrir altari ásamt séra Þórhalli Heimissyni og Þóreyju Dögg Jónsdóttur djákna. Kór Breiðholtskirkju leiðir almennan safnaðarsöng undir stjórn Arnar Magnússonar. Einsöng syngur Marta Guðrún Halldórsdóttir.  Eftir guðþjónustuna verður boðið upp á veitingar í safnaðarheimili kirkjunnar.

Allir eru innilega velkomnir og takið með ykkur gesti.

Birna Birgisdóttir, 12/9 2017