Vestfjarðaprófastsdæmi

 

Lokakveðja

Til stendur að leggja þessa heimasíðu niður og verður henni lokað eftir tvo mánuði.

Vestfjarðaprófastsdæmi mun eftirleiðis nota Fasbókina til að koma upplýsingum á framfæri.  Slóðin þangað er:  https://www.facebook.com/profastinum/

Notendum þessarar síðu er þökkuð samfylgdin.

Magnús Erlingsson, 10/1 2019

Auglýst verður eftir presti í hálft starf

Biskup Íslands hefur ákveðið að auglýsa eftir presti í hálft starf  í Patreksfjarðarprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi.  Skipað verður í það embætti til fimm ára eins og önnur prestsembætti.  Auglýsingin verður birt inan tíðar þegar þarfagreining liggur fyrir.

Auglýsingar um prestsembætti eru til birtingu í 4 vikur.  Síðan þarf umsóknarfrestur að liða.  Þá eru umsóknirnar sendir til matsnefndar.  Eftir að matsnefnd hefur birt niðurstöðu þá tekur við kærufrestur.  Að honum liðnum þá er málið sent heim í hérað.  Þar mun kjörnefnd prestakallsins kjósa prest.

Magnús Erlingsson, 4/12 2018

Auglýst eftir presti til að þjóna á Patreksfirði

Þann 12. nóvember síðastliðinn auglýsti biskup Íslands eftir presti til að sinna, ásamt skipuðum sóknarpresti, tímabundinni prestsþjónustu í Patreksfjarðarprestakalli, Vestfjarðaprófastsdæmi, frá 1. desember 2018 – 31. maí 2019. Umsóknarfrestur var til 23. nóvember.  Enginn prestur gaf sig fram til að sinna þessari þjónustu.  Þrír guðfræðingar sýndu málinu hins vegar áhuga en þar sem þeir voru ekki prestsvígðir þá uppfylltu þeir ekki skilyrði auglýsingarinnar.

Magnús Erlingsson, 4/12 2018

Kirkjuþing

Kirkjuþing er nýafstaðið.  Kirkjuþing fer með æðsta vald í málefnum Þjóðkirkjunnar, markar henni stefnu og stýrir henni með því að setja starfsreglur.  Á Kirkjuþingi sitja 29 fulltrúar og eru 12 þeirra vígðir þjónar en 17 eru leikmenn.  Vestfirðingar eiga tvo fulltrúa á þinginu.  Fyrir hönd lærðra situr sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir frá Þingeyri og fyrir hönd leikmanna er Árný Herbertsdóttir frá Ísafirði.

Magnús Erlingsson, 14/11 2018

Guðsþjónusta í Hólskirkju í Bolungarvík

Sunnudaginn 28. október kl. 14:00 verður guðsþjónusta í Hólskirkju í Bolungarvík.  Sr. Magnús Erlingsson þjónar fyrir altari. Guðrún Bjarnveig Magnúsdóttir leikur á orgel. Kirkjukórinn syngur.

Magnús Erlingsson, 17/10 2018

Fermingarbörnum líður vel í guðsþjónustunni

Síðastliðið vor var gerð könnun meðal foreldra fermingarbarna í söfnuðum Kjalarnessprófastsdæmis og þau spurð um ýmsa þætti er lúta að fermingarfræðslunni, helgihaldi, þátttöku í æskulýðsstarfi og trúarlegu uppeldi. Markmiðið var að leggja mat á árangurinn og hvað er vel gert eða má betur fara.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru fermingarstarfið nýtur trausts meðal foreldranna og þeir eru ánægðir með fermingarstarfið, þ.e. umgjörð starfsins, upplýsingaflæði, námsefnið og fermingarfræðara. Það á einnig við um viðburði í starfinu s.s. fermingarbarnaferðalagið í Vatnaskóg, söfnun fyrir vatnsbrunnum í hjálparstarfi og sameiginlega fermingarbarnahátíð sem voru haldnar í fyrsta skiptið á síðasta ári í prófastsdæminu. Að mati foreldra jókst áhugi barnanna á trúnni og þau voru áhugasöm um fræðsluna.

Þátttaka fermingarbarna í helgihaldinu er stór þáttur í fermingarstarfinu. Mikill meirihluti foreldra (72%) er sammála því að barnið sitt er ánægt með að sækja messur og helgihald. Einnig eru foreldrar jákvæð í garð helgihaldsins sem kemur fram í því að þeim líður vel í helgihaldinu, finnst prédikanirnar vera góðar og auðskiljanlegar og nær öllum finnst fermingarmessan vera falleg og hátíðleg stund. Þessi jákvæða niðurstaða kemur e.t.v. á óvart í ljós umræðunnar, þar sem helgihaldið er stundum gagnrýnt fyrir að vera þunglamalegt og gamaldags.

Skýrsla með niðurstöðum könnunarinnar má finna hér: Könnun meðal foreldra fermingarbarna í söfnuðum Kjalarnessprófastsdæmi, 2018.

Magnús Erlingsson, 17/10 2018

Hver má nota kirkju og til hvers?

Að gefnu tilefni þá hefur biskup Íslands skrifað prestum og formönnum sóknarnefnda bréf til að minna á hvaða reglur gilda um notkun kirkna.

Í Samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar stendur:  “Kirkja er vígð, frátekin fyrir helga iðkun, bæn, prédikun orðsins og þjónustu sakramentanna. Ekki skal nota kirkju til annarra athafna en þeirra sem teljast samrýmast tilgangi hennar og stöðu sem vígðs helgidóms þjóðkirkjunnar, svo sem borgaralegra athafna eða athafna á vegum annarra trúfélaga en kristinna.”

Í Samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar stendur einnig:  “Hjónavígslu annast prestur sem rétt hefur sem vígslumaður skv. hjúskaparlögum, að undangenginni könnun hjúskaparskilyrða sem löggildur könnunarmaður annast.”

Sóknarprestur og sóknarnefnd bera sameiginlega ábyrgð á helgidóminum.  Sóknarprestur ber ábyrgð á að ekkert fari þar fram sem ekki samrýmist vígðum helgidómi þjóðkirkjunnar.  Þessir tveir aðilar geta ákveðið að lána kirkjur eða leigja þær undir tónleika, leiksýningar eða fundi með því fororði að kirkjuhúsinu sé sýnd full virðing.

Magnús Erlingsson, 24/9 2018

Ályktun héraðsfundar um breytt skipulag prestsþjónustu

Á nýliðnum héraðsfundi var samþykkt eftirfarandi ályktun:  “Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis haldinn á Suðureyri 2. september 2018 þakkar kirkjuyfirvöldum fyrir framkomnar tillögur um breytingar á skipulagi prestsþjónustunnar þar sem lagt er upp með aukið samstarf og samvinnu. Hins vegar þykir okkur sem þörf sé á frekari útfærslu á þessum hugmyndum. Óljóst sé hver skuli leiða samstarfið og vera sóknarprestur á hverju samstarfssvæði, hvernig sé valið í það embætti eða hvort prestar skiptist á að vera sóknarprestar líkt og raunin er með embætti kirkjuhirðis í Svíþjóð svo dæmi sé tekið. Héraðsfundur hvetur kirkjuyfirvöld til að útfæra þessar tillögur betur og þá í samráði við heimamenn.”

Magnús Erlingsson, 6/9 2018

Ályktun héraðsfundar um Reykhóla- og Patreksfjarðarprestakall

Á nýliðnum héraðsfundi var samþykkt eftirfarandi ályktun:  “Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis haldinn á Suðureyri 2. september 2018 skorar á kirkjuyfirvöld að reisa hið snarasta nýtt prestssetur á Reykhólum. Ennfremur er skorað á kirkjuyfirvöld að tveir prestar í fullu starfi verði þjónandi í Patreksfjarðarprestakalli.”

Magnús Erlingsson, 6/9 2018

Sr. Hildur Björk leysir af

Vegna veikinda sr. Elínar S. Guðmundsdóttur þá hefur biskup Íslands falið fráfarandi presti, sr. Hildi Björk Hörpudóttur að leysa af sem sóknarprestur í Reykhólaprestakalli allt til loka októbermánaðar.

Magnús Erlingsson, 22/8 2018

Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis er sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur í Ísafirði.

Vefir sókna
Ísafjarðarkirkja
Reykhólakirkja

Forsíðumyndin
Myndin, sem prýðir forsíðu vefsins, er af krossmarkinu á Óshlíðinni við Ísafjarðardjúp.

 

Safnaðarheimili Hólskirkju, Aðalstræti 22, 415 Bolungarvík. Sími 456 7435 · Kerfi RSS