Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

biðjandi boðandi þjónandi

Um þjóðkirkjuna

Barn borið til skírnar

Barn borið til skírnar.

Þjóðkirkjan er evangelísk-lúthersk kirkja. Hún er frjálst og sjálfstætt trúfélag sem starfar um allt land. Allir landsmenn geta tilheyrt henni. Þéttriðið net sókna um land allt tryggir að þjónusta kirkjunnar nái til landsmanna allra. Þjóðkirkjan er opin öllum, allir eiga aðgang að þjónustu hennar og eru ekki krafðir um trúarafstöðu.

Þjónusta á öllum æviskeiðum

Guðsþjónustur helgidaganna og helgar athafnir þjóðkirkjunnar, svo sem skírn, ferming, brúðkaup, útför, eru áningarstaðir á lífsins leið, með veganesti orðs og atferlis sem styrkja samfélagið milli fólks og kynslóða og efla von og lífsþrótt. Þar verður hin opna þjóðkirkja sýnileg, með sína löngu hefð og sögu og sterka framtíðarsýn í ljósi Jesú Krists.

Í blíðu og stríðu lífsins þörfnumst við stuðnings og samfylgdar annars fólks, fjölskyldu og vina. Þjóðkirkjan hefur um aldir lagt til rými, iðkun, tákn og orð til að tjá gleði og sorg, ein og með öðrum. Í einrúmi og opinberlega er beðið fyrir fólki og samfélagi. Barnastarf kirkjunnar er stuðningur við trúaruppeldi heimilanna þar sem börnum er kennt að elska Guð og biðja. Leiðsögn í andlegum efnum, fræðsla og uppbygging í trú er mikilvægur þáttur í þjónustu kirkjunnar. Sálgæsla presta og djákna reynist ómetanleg hjálp þegar glímt er við dýpstu og örðugustu lífsspurningar.

Þjóðkirkjan hefur með höndum margs konar félagslega þjónustu, kærleiksþjónustu safnaða og neyðaraðstoð innanlands og þróunar og neyðarhjálp á alþjóðavettvangi um farveg Hjálparstarfs kirkjunnar. Prestar og djáknar í sóknum og á stofnunum veita fólki stuðning, ráðgjöf, sálgæslu auk leiðsagnar í andlegum efnum. Stuðningur við fólk í hjúskaparerfiðleikum er umtalsverður þáttur í starfi presta og með Fjölskylduþjónustu kirkjunnar er veitt dýrmæt þjónusta til stuðnings fjölskyldum.

Skipulag

Biskup, vígslubiskupar, prófastar og prestar

Biskup Íslands er æðsti embættismaður þjóðkirkjunnar. Biskup fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Agnes M. Sigurðardóttir er biskups Íslands.

Henni til fulltingis eru tveir vígslubiskupar. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, og Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum. Biskuparnir þrír eiga sæti á biskupafundi sem er haldinn til samráðs um biskupsþjónustuna og upplýsinga um málefni kirkju og kristni.

Biskupi til aðstoðar starfa einnig níu prófastar sem gegna forystuhlutverki, hver í sínu prófastsdæmi.

Í prestaköllum um allt land starfa á annað hundrað sóknarpresta og  presta. Prestarnir teljast til embættismanna kirkjunnar. Að auki starfa í sóknum þjóðkirkjunnar fjöldi djákna, organista, kirkjuvarða, æskulýðsfulltrúa  auk annars starfsfólks og mikill fjöldi sjálfboðaliða sem meðal annars þjóna í sóknarnefndum kirkjunnar.

Stifti og prófastsdæmi, prestaköll og sóknir

Ísland er eitt biskupsdæmi. Landið skiptist í tvö umdæmi vígslubiskupanna í Skálholti og á Hólum. Biskupsdæmið skiptist jafnframt í níu prófastsdæmi og 270 sóknir. Sóknin er grunneining kirkjunnar á hverjum stað.

Biskupsstofa, Kirkjuþing, Kirkjuráð

Biskupsstofa er skrifstofa biskups Íslands og kirkjuráðs. Hún er til húsa í Kirkjuhúsinu að Laugavegi 31 í Reykjavík. Þar starfa á þriðja tug starfsmanna við margvíslega þjónustu. Kirkjuhúsið hýsir einnig aðra starfsemi á vegum þjóðkirkjunnar eða tengda henni, s.s. Kirkjugarðaráð, Skálholtsútgáfuna og verslunina Kirkjuhúsið.

Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. Þingið kemur saman að minnsta kosti tvisvar á ári, að hausti og að vori. Á þinginu sitja 29 fulltrúar, 14 vígðir og 15 leikmenn. Forseti kirkjuþings er kjörinn úr röðum leikmanna. Núverandi forseti er Magnús E. Kristjánsson.

Kirkjuráð fer með  framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar eftir markaðri stefnu laga og samþykkta kirkjuþings. Í ráðinu sitja fimm fulltrúar, biskup Íslands sem er forseti ráðsins, tveir vígðir og tveir leikmenn sem eru kjörnir af kirkjuþingi. Í kirkjuráði sitja nú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sr. Elínborg Gísladóttir, sr. Gísli Gunnarsson, Stefán Magnússon og Svana Helen Björnsdóttir.

Algengar spurningar

Hvernig skrái ég mig í þjóðkirkjuna?

Í hvaða sókn er ég?