Strandarkirkja

 

Um tilurð síðunnar

Þegar kom að því að ég stóð frammi fyrir því að velja mér miðlunarverkefni í námi mínu í Hagnýtri menningarmiðlun þá datt mér strax í hug að gaman væri að gera verkefni um menningu tengda kirkjum. Það þróaðist síðan þannig að ég ákvað að gera verkefni um Strandarkirkju í Selvogi sem er þessi heimasíða. Þar með hófst tímabil þar sem ég gerði allt sem ég gat til þess að kynnast þessari einstöku kirkju og þeim sérstaka helgidómi sem hún er.

Til þess að kynnast henni hef ég sótt kirkjuna heim og tekið myndir sem ég birti hér á síðunni, ég hef hitt mikið að góðu fólki sem hefur veitt mér viðtöl og að sjálfsögðu hef ég lesið margar áhugaverðar bækur um kirkjuna og sögu hennar. Allt hefur þetta veitt mér innsýn í það ótrúlega fyrirbæri sem kirkjan er. Það má með sönnu segja að hún sé engri annari kirkju lík.

Með því að útbúa þessa heimasíðu er það von mín að saga kirkjunnar og sá sérstaki staður sem hún á í hugum og hjörtum fólks megi varðveitast áfram. Hún er liður í því að gera sögu hennar aðgengilegri fyrir almenning og leyfa sem flestum að njóta góðs af því að virða hana fyrir sér á myndum og lesa um hana sögur. Eitt af því sem mér fannst einna skemmtilegast við vinnu heimasíðunnar var að hitta fólkið og heyra það lýsa persónulegri upplifun sinni af kirkjunni.

Ég þakka öllum sem vildu hitta mig og öllum sem lögðu mér lið í þessari vinnu.

Guðrún Rannveig Stefánsdóttir

     

    Háaleiti 815 Þorlákshöfn. Sími 4833771/8980971 , fax 4833566 · Kerfi RSS