Strandarkirkja

 

Saga

Baldur Kristjánsson tók saman.

 

Strandarkirkja í Selvogi stendur við skerjótta Suðurströndina, leiðarljós þeirra er um sjávarslóð fara. Kirkjan er eins og kunnugt er vinsæl til áheita og um tilurð kirkjunnar hafa myndast helgisagnir sem vitna um þann lífsháska sem sjómönnum var búinn úti fyrir þessari klettóttu, hafnlausu úthafsströnd.

Fyrsta helgisögnin er að Gissur hvíti á 10. og 11. öld hafi fyrst gert kirkju á Strönd og þá úr kirkjuviðnum sem Ólafur Noregskonungur sendi hann hingað með. Gissur ásamt Hjalta Skeggjasyni tengdasyni sínum átti ríkan hlut að kristnitökunni árið 1000. Þessi skoðun byggir eingöngu á kvæði Gríms Thomsens um kirkjuna þar sem segir m.a.

,,Gissur hvíti gjörði heit
guði hús að vanda
hvar sem lífs af laxareit
lands hann kenndi stranda“

Önnur sögn er að kirkjuna hafi reist Árni nokkur formaður þegar hann var að koma með timburfarm frá Noregi. Um þennann Árna yrkir séra Jón Vestmann er hann orti um Strandarkirkju árið 1843. Í kvæðinu er Árni Þorláksson biskup í Skáholti nefndur og sagður gefa honum heimild til kirkjubyggingar á Strönd. Árni var biskup 1269 til 1298 og ætti því Strandarkirkja samkvæmt þessari sögn að hafa verið reist í fyrsta skipti á síðari helmingi 13. aldar.
Í kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti (1195-1211) sem að stofni til er frá árinu 1200 er kirkjan á Strönd hins vegar nefnd.

Þriðja helgisögnin er á þessa leið:
,,Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu eigin skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar. Segir nú ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi á hafi úti á leið sinni til Íslands. Lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir. Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að þessu heiti unnu birtist honum sýn í líki ljósengils framundan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið er hann stýrir eftir. Segir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa. Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Þar skammt fyrir ofan var hin fyrsta Strandarkirkja reist úr fórnarviðnum.“

Sameiginlegt þessum frásögnum er að menn hafi verið á leið til Íslands og lent í hafvillum og sjávarháska uti fyrir þessari hafnlausu strönd og unnið Guði sínum það heit að reisa kirkju þar sem þeir næðu landi. Sennilega hefur lendingin verið um Strandarsund sem er suður og austur af kirkjunni. Kunnugir segja að oft sé kyrrt í Standarsundi þó að haugasjór sé allt um kring.

Núverandi kirkja er frá 1888. Hún var endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og enn endurbætt og endurvígð 13. okt. 1996.

Vorið 1950 var rest var reistur minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík norðvestan við kirkjuna. Er það standmynd á stalli eftir Gunnfríði Jónsdóttur myndhögvara og nefnist Landsýn. Sýnir hún hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki og bendir sjómönnum í lífsháska inn í Engilsvík.

Þjónustuhús var reist nálægt kirkjunni 1988. Í jarðhýsi er snyrtiaðstaða fyrir gesti og gangandi. Umhverfi kirkjunnar er allt til mikillar fyrirmyndar.

Messað er i kirkjunni um jól og páska, að hausti, um miðja vetrarvertíð og á hálfs mánaðar fresti frá miðjum maí og út ágúst, alls um tíu messur á ári. Kirkjukór Þorlákskirkju annast söng og organisti er Hannes Baldursson.  Messurnar eru allvel sóttar, að jafnaði koma 60 til 90 manns til messu. Fólk hvaðanæfa en alltaf allmargir úr bústöðum og úr Þorlákshöfn, en það er gjarnan fólk úr Selvogi og afkomendur þess. Auðvitað koma svo heimamenn en sóknarbörnum fer nú fjölgandi. Nú er búið á fjórum bæjum í Strandarsókn: Götu, Vogsósum 1 og 2 og Þorkelsgerði. Iðulega á sumrin er drukkið kaffi í T bæ eftir messu.

Mikill straumur fólks er í Strandarkirkju og er hún opin um helgar alltaf á vorin, sumrin og haustin og iðulega alla daga á sumrin og oft um helgar á veturna. Umsjónarmaður tekur þá á móti fólki og leiðbeinir því um sögu og nútíð kirkjunnar.
Kirkja og garður er í mjög góðri hirðu og góðu ásigkomulagi. 1986 var land Kirkjunnar girt af og hafin ræktun. Gróðursettar hafa verið 4000 plöntur og sáldrað um 30 kílóum af lúpínufræi. Árlega er áburður borinn á landið. Áður var sandfok illvígt þarna og ógnaði tíðum kirkjunni.

1996 var kirkjan endurbætt að innan, skipt um glugga, einangrað og hvelfing sett yfir kirkjuskipið. 1998 var lokið við byggingu nýs turns á kirkjuna. 1987 var kirkjugarðurinn stækkaður og unnið hefur verið að endurbótum, merkingum og lagfæringum leiða. 1994 var vígt minnismerki um látna sjómenn. Settur hefur verið upp minningarsteinn um presta er þjónuðu og bjuggu í Selvogi. Sumarhúsið Strönd var keypt og sett upp 1988 en það er m.a.a afdrep þeirra er gæta kirkjunnar á sumrin. Gömul bæjarstæði í landi kirkjunnar hafa verið merkt. Útbúið var bílaplan 1988 og aðgengi fatlaðra þaðan og að kirkju tryggt. Steyptar nýjar tröppur. Allt er umhverfi kirkjunnar til fyrirmyndar.

Kirkjuhúsið er upphaflega byggt 1887-88 og mun hafa að mestu haldið
formi sínu óbreyttu síðan. Árið 1968 var kirkjan að mestu endurbyggð. Þó
eru máttarviðir hennar hinir sömu svo og gólf. Við þessa endurbyggingu var
kirkjan lengd um „eitt gluggabil“ eða rúml. 2 metra. Henni var breytt að því leyti að söngloft var sett í hana og hvelfing fjarlægð úr henni og var hún með súð og sýnilegum sperrum. Breytingum er lýst í Biskupsvísitasíu frá 1982 og 1968. Þetta var fært í fyrra horf 1996.

Kirkjan er mjög hlýleg að innan. Dregill er á kirkjugangi. Norðanmegin dyra er skrúðhús vel búið. Þar er eldtraustur skápur sem varðveitir dýrgripi kirkjunnar.
Kerti á altari eru máluð af Sigurbjörgu Eyjólfsdóttur frá Þorkelsgerði.
Fyrir hefur komið að brotist hafi verið inn í Strandarkirku en munir alltaf fundist. Öflugt þjófavarnarkerfi er nú í kirkjunni.
Kirkjan hefur látið mikla fjármuni í sjóvarnargarða framanvið kirkjuna og til beggja átta útmeð.

Pípuorgel kirkjunnar 6 radda af Walker gerð er frá 1969. Gamla orgelið frá 1898 var gefið kirkjunni 1997.
Altaristafla (Upprisan eftir Sigurð Guðmundsson frá 1865) stærð 175 x 118 cm.
Númeratafla er frá 1865 ásamt kassa með númerum.
Altari og prédikunarstóll eru frá 1888.
(Byggt í meginatriðum á riti Magnúsar Guðjónssonar biskupsritara um Strandarkirkju)

     

    Háaleiti 815 Þorlákshöfn. Sími 4833771/8980971 , fax 4833566 · Kerfi RSS