Strandarkirkja

 

Sumarið 2014. Mikið um að vera

,,Englar og menn” verða í Strandarkirkju á laugardögum í sumar (2014) í júlí nánar tiltekið. Sjá nánar hér að neðan. Þá verður messað oft í kirkjunni í sumar. Nú á sunnudag messar  Axel Árnason Njarðvík kl. 14.  Snillingurinn Jörg Sondermann spilar á orgelið og stjórnar Kirkjukór Þorlákskirkju sem syngur.

Baldur Kristjánsson, 2/7 2014

Tónlistarhátíð í júlí

Strandarkirkja í Selvogi mun óma af fagurri tónlist á laugardögum í júlímánuði en þar hefst tónlistarhátíðin „Englar og menn“ laugardaginn 5. júlí. Markmið hátíðarinnar er að bjóða upp á lifandi og vandaða tónlistarviðburði á hinum sögufræga stað og auðga um leið tónlistarlíf á Suðurlandi.

Hátíðin hefst með tónleikum laugardaginn 5. júlí kl. 14 undir yfirskriftinni „Ef engill ég væri“. Flytjendur eru Björg Þórhallsdóttir sópran, Elísabet Waage hörpuleikari og Hilmar Örn Agnarsson orgelleikari. Þetta er níunda sumarið sem þær Björg og Elísabet koma fram á tónleikum í Strandarkirkju og Hilmar Örn hefur leikið með þeim síðastliðin þrjú ár. Sérstakur gestur á fyrstu tónleikunum verður Anna Kristín Þórhallsdóttir sópran og systir Bjargar.

Á öðrum tónleikunum, þann 12. júlí, munu Chrissie Thelma Guðmundsdóttir fiðluleikari og Glódís Margrét Guðmundsdóttir píanóleikari koma fram á tónleikum undir yfirskriftinni „Romanza“.

Laugardaginn 19. júlí gleðja feðgarnir Bragi Bergþórsson tenór og Bergþór Pálsson baritón tónleikagesti með söng sínum undir yfirskriftinni „Blásið þið, vindar!“ þar sem meðal annars munu hljóma sönglög Inga T. Lárussonar.

Á lokatónleikum hátíðarinnar þann 26. júlí koma fram þau Gunnar Guðbjörnsson tenór og Helga Bryndís Magnúsdóttir orgelleikari undir yfirskriftinni „Heyr mig, lát mig lífið finna“, en hluti dagskrár þeirra verður tileinkaður 150 ára fæðingarafmæli Einars Benediktssonar ljóðskálds, sem bjó síðustu æviár sín í Herdísarvík í Selvogi.

 

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Strandarkirkjunefnd.Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.500 kr. Ekki er tekið við greiðslukortum.

 

Strandarkirkja er þekkt áheitakirkja og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni. Í Selvogi var fyrr á öldum blómleg byggð með útgerð og landbúnaði en nú er þar orðið strjálbýlt. Fjölmargir ferðamenn heimsækja Selvoginn og þar má njóta útivistar á fallegum gönguleiðum. Með tilkomu nýja Suðurstrandarvegarins hafa samgöngur stórbatnað og ferðamöguleikar orðið fjölbreyttari. Að tónleikum loknum er svo upplagt að fá sér hressingu hjá heimamönnum í kaffihúsinu T-bæ eða í Pylsuvagninum.

 

Hátíðin stendur eins og áður segir yfir á laugardögum í júlímánuði og hefjast tónleikarnir kl. 14.  Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á vef Strandarkirkju; http://kirkjan.is/strandarkirkja/, og á Facebooksíðu hátíðarinnar.

 

Nánari upplýsingar veitir:
Björg Þórhallsdóttir, listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Englar og menn, í síma 898 4016

Baldur Kristjánsson, 2/7 2014

Fjölbreytt tónlistardagskrá í Selvogi sjö sunnudaga í sumar

Strandarkirkja í Selvogi mun óma af fagurri tónlist sjö sunnudaga í sumar, en þar hefst tónlistarhátíðin „Englar og menn“ sunnudaginn 14. júlí. Markmið hátíðarinnar er að bjóða upp á lifandi og vandaða tónlistarviðburði á hinum sögufræga stað og auðga um leið tónlistarlíf á Suðurlandi.

Lesa áfram …

Björg Þórhallsdóttir, 4/7 2013

Páskamessan

Næst í Strandarkirkju er messa á 2. í Páskum, hátíðarmessa í tilefni af upprisunni. Allir velkomnir.

Baldur Kristjánsson, 26/3 2012

Fermingar í Þorláksprestakalli 2012

Lesa áfram …

Baldur Kristjánsson, 16/3 2012

Strandarkirkja um jólin

Hátíðarsöngur Annan í jólum kl. 14:00.  Kór Þorlákskirkju. Organisti og stjórnandi Hannes Baldursson

Baldur Kristjánsson, 24/12 2011

Veiðimannamessa!

það verður veiðimannamessa í Strandarkirkju sunnudaginn 30. október kl. 14:00. Þá fjölmenna veiðimenn í Hlíðarvatni í messu í leit að syndaaflausn. Nánar um þetta siðar.

Baldur Kristjánsson

Baldur Kristjánsson, 4/10 2011

Hannes organisti!

Hannes Baldursson er organisti Strandarkirkju!

Hannes Baldursson (s. 8629944) er organisti Strandarkirkju!

Baldur Kristjánsson, 29/11 2010

Útför Kristófers Bjarnasonar

Útför Kristófers Bjarnasonar fór fram frá Strandarkirkju að viðstöddu miklu fjölmenni 27. október sl. Jón Ragnarsson jarðsöng. Kór Þorlákskirkju söng og organisti og kórstjórnandi var Hannes Baldursson.  Ágætt veður var heiðskírt og milt, eilítið frost þó.  Kristófer var kirkjuvörður í Strandarkirkju 1986- 2001 og annaðist kirkjuna og umhverfi hennar af stakri kostgæfni og ósérhlífni. BK. tók meðfylgjandi myndir. Lesa áfram …

Baldur Kristjánsson, 29/10 2010

Veiðimannamessa 17. október

Kl. 14:00 er svokölluð veiðimannamessa í Strandarkirkju. Í þá messu fjölmenna veiðimenn.

Sunnudagaskóli sunnudag 17. október kl. 11:00 í Þorlákskirkju.  Hafdís stjórnar ásamt Hannesi og Baldri. Nýtt og spennandi efni.

Baldur Kristjánsson, 13/10 2010

Kirkjan er opin alla daga yfir sumartímann. Opnað er um kl. níu og lokað um kvöldmat.

 

Háaleiti 815 Þorlákshöfn. Sími 4833771/8980971 , fax 4833566 · Kerfi RSS