Strandarkirkja

 

Strandarkirkja, áheitastaður í norðri

eftir Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur

,,Þetta er ekkert venjulegt hús,
Heldur himinn á jörðu.
Því Drottinn himnanna býr hér…”

Þannig hefst bæn sem mætir þeim sem koma inn í fordyri Strandarkirkju, hún er eftir séra Sigurð Pálsson, skrautrituð af kaþólskum nunnum, innrömmuð og tilbúin að veita okkur sem komum í kirkjuna sáluhjálp í lífsins ólgu sjó.

Eitthvert magnaðasta fyrirbæri á Íslandi er Strandarkirkja í Selvogi og fyrir því eru margar ástæður. Ég hafði heyrt um kirkjuna, sérstöðu hennar og kraft þegar ég ákvað að heimsækja hana sjálf og ,,upplifa” hana í algjöru návígi. Ég hafði samband við kirkjuvörðinn í Strandarkirkju og sagði honum að ég væri að kynna mér sögu kirkjunnar og að mig langaði að koma og skoða hana, ég hafði komið í kirkjuna einhvertíma sem barn en var búin að gleyma þeirri heimsókn að mestu.

Kirkjuvörðurinn var svo elskulegur að bjóða mér að koma og dvelja í bústað við kirkjuna og eyða þannig með henni dágóðum tíma í einrúmi og skoða hana að vild. Ég þáði það og hélt af stað þangað eina votviðrasama helgi í marsmánuði 2007 ásamt eiginmanni og ungri dóttur.

Kirkjan í návígi

Strax þegar í Selvoginn var komið fannst mér ég vera komin á sérstakan stað, ólíkan öllum stöðum sem ég hafði komið á áður. Við komum svo að kirkjunni og bústaðnum þar sem við fengum lykil í hendur. Við komum okkur fyrir í hlýlegum bústaðnum og hringdum í bónda nokkurn sem býr á næsta bæ og þekkir sögu kirkjunnar og staðarins eins og lófa sinn.

Bóndinn kemur til okkar og byrjar að segja okkur sögur sem sumar hverjar náðu langt aftur í aldir, einhverjar hafði ég lesið en aðrar var ég að heyra í fyrsta sinn. Eitt það sem mér fannst magnaðast í frásögn hans var hvernig hann lýsti umhverfinu eins og það leit út á öldum áður. Hann benti út um gluggann og greindi frá því hvar hver bær hafði staðið þegar mikil byggð var á svæðinu. Maður leit út og virti fyrir sér hólana í landslaginu og sá fyrir sér húsin og iðandi mannlífið sem einhvertíma hafði verið á staðnum. Við litum líka út á úfið hafið. Það var dimmt yfir, hvasst og mikið regn þennan dag og við settum okkur í spor bátsverjana sem eygðu land en sáu ekki fram á að komast að landi í íllviðri við grýtta ströndina.

Helgisögnin

Ég hafði nýlega lesið um helgisögnina um tilurð kirkjunnar og ætla að rekja hana aðeins hér svo lesendur átti sig á hvað ég er að fara: Einhverju sinni var ungur bóndi að koma frá Noregi á skipi sínu þar sem hann hafði sótt sér við til húsagerðar. Þegar hann er að koma að landi lendir hann í sjávarháska í dimmviðri og fær ekkert við ráðið. Bóndinn fyllist örvæntingu og heitir því að hann muni gefa allan húsagerðarviðinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi. Þegar hann hafði unnið þetta heit birtist honum ljósengill framundan stefni skipsins og verður þessi sýn honum stefnumið sem hann stýrir eftir. Engillinn leiðir svo skipið gegnum brimið og bárust skipverjar þannig inn í vík eina nálægt Strönd sem nefnist Engilsvík eftir þetta. Þar skammt fyrir ofan malarkamb var reist hin fyrsta Strandarkirkja.

Þessi helgisögn er talin vera frá 12. öld og hefur verið til í manna minnum allt frá þeim tíma. Hún hefur orðið til þess að Strandarkirkja hefur alla tíð verið áheitakirkja og verið mörgum sáluhjálp í gegnum lífsins raunir. Nokkrar aðrar helgisagnir eru til en þessi hefur verið hvað mest áberandi. Strönd er einmitt einn af þessum bæjum sem bóndinn greindi frá, en hann stóð við kirkjuna og það má ennþá greinilega sjá móta fyrir því að þar hafi eitt sinn staðið bær norður af kirkjunni og það er líka merkt á skemmtilegan hátt eins og fleiri bæjarstæði í nágrenni við kirkjuna.

Fyrr á tímum var Strönd í Selvogi stórbýli, þar sem land og sjór hefur gefið mikið af sér. Strönd í Selvogi er fyrst getið í Sturlungu og þar segir að sumarið 1238 hafi Gissur Þorvaldsson látið taka upp bú þar fyrir Dufgusi Þorleifssyni sem var fyrsti nafngreindi bóndi á Strönd.

Strönd var höfuðból og á miðöldum bjuggu þar lögmenn þar til blómlegt höfuðbólið fór í eyði vegna sandfoks og uppblásturs, t.d. margir ættliðir Erlends sterka lögmanns Ólafssonar en hann var lögmaður frá 1521-1551. Við kirkjuna má sjá stein með nöfnum ábúenda á Strönd. Enda þótt byggðin og stóbýlið legðist í eyði vegna sandfoks stóð kirkjan af sér allt mótlæti harðgerðar náttúrunnar.

Engillinn sem bjargaði bátsverjunum forðum daga er enn á sínum stað, hann er mótaður í granít vestan kirkjugarðsins af listakonunni Gunnfríði Jónsdóttur til minningar um kraftaverkið sem átti sér stað í víkinni. Hann stendur ennþá og horfir út á hafið, tilbúinn að bænheyra þá sem á hann heita. Listakonan Gunnfríður Jónsdóttir á sér legstað í kirkjugarðinum við Strandarkirkju, svo mikil var hrifning hennar af staðnum.


Ólýsanlegur kraftur kirkjunnar

Það er alveg rétt sem sagt er um Strandarkirkju að þar sé einhver ótrúlegur kraftur og eitthvað alveg einstakt við staðinn allan. Kyrrðin sem ríkir í kirkjunni er líka einstök og á eflaust stóran þátt í þeirri helgi sem fólk upplifir á staðnum.

Áheitin eru auðvitað ótrúlegt fyrirbæri út af fyrir sig, eitthvað sem stendur tímans tönn og fólk hættir ekki að heita á kirkjuna þrátt fyrir efasemdaraddir nútímans. Það er líka afar einstakt að áheitin sem fremur eru kaþólskur siður en lútherskur skuli lifa svo vel af í íslensku samfélagi. Vegna áheitanna og gjafa er Strandarkirkja einhver ríkasta kirkja landsins, það streyma til hennar áheit bæði frá Íslendingum og erlendis frá. En hvers vegna heita svona margir á kirkjuna? Það er ekki annað hægt en að vera sannfærður um það að áheitin rætast og kirkjan borgi fyrir sig vegna þess að fólk borgar einungis til hennar ef það telur áheitið hafa gengið eftir.

Árið 1964 segir Árni Óla, í ritgerð sinni Áheitatrú á Íslandi, eftirfarandi um áheitin:

,,Áheitatrúin er trú á góð máttarvöld. Í trúnni á Strandarkirkju birtist vissan um, að til sé hulinn verndarkraftur. Er sú trú engu óvísindalegri heldur en trúin á að í geimnum leiki óteljandi geislar og orkustraumar sem nú hefur verið sannað”.

Strandarkirkja er lítil kirkja og afskekkt, það eru ekki margir sem sækja þangað guðsþjónustur, í sókninni eru innan við 20 manns. En þó svo að áheitin og sögurnar í kringum þau séu hið dularfyllsta mál eru þau um leið dæmi um sanna og einlæga guðstrú. Þau eru einnig sönnun þess að kraftaverkin gerast í heiminum eða að minnsta kosti trúir sá stóri hópur fólks því innilega sem heitir á Strandarkirkju á ári hverju.

Stundum er talað um að það að heita á kirkjur sé sprottið af þörf fólks fyrir samband við verndandi mátt og það tengi hann þannig kirkjunni þótt trúin sem þeim fylgir sé einkamál. Stundum tekur fólk t.d. fram að það vilji ekki láta nafn síns getið þegar kirkjunni eru færðar gjafir. Í könnun sem Guðfræðistofnun gerði árið 1986, þar sem spurt var um áheit á kirkjur, kom í ljós að u.þ.b. þriðji hver Íslendingur hefur einhvertíma heitið á kirkju. Það er ekki ólíklegt að langflestir þeirra hafi heitið á Strandarkirkju.

Það má segja að hægt sé að skipta þeim sem heita á kirkjuna upp í tvo hópa. Annars vegar eru það þeir sem heita á kirkjuna ef eitthvað bjátar á og finnst þeir þurfa á kraftaverki, stóru eða smáu, að halda. Hins vegar eru það þeir sem t.d. borga alltaf einhverja vissa upphæð til kirkjunnar á ári hverju og trúa því að hún veiti þeim vernd sína í staðinn. Þannig heita sumir kannski bara einu sinni á ævinni á Strandarkirkju meðan aðrir gera það jafnt og þétt allt lífið.

Eins og áður segir eru áheit fremur kaþólskur siður en lútherskur og siðbreytingin hefur eflaust haft sitt að segja um trú manna á Strandarkirkju. Biskupar og prestar hafa vafalaust reynt að mæla gegn áheitunum eftir siðbreytingu og fundist fé fólksins betur varið í eitthvað annað. En áheitin héldu áfram og ekkert gat stöðvað þau.

Fyrir siðbreytingu voru Skálholt og Kallaðarnes mestu áheitastaðir Íslendinga og er stundum talið að Strandarkirkja hafi leyst þessa tvo staði við siðbreytingu, hvað áheitin varðar.

,,Árnessýsla átti um aldir tvo mestu áheitastaði landsins, Skálholt og Kallaðarnes. Og enn á hún mesta áheitastaðinn, þar sem er Strandarkirkja. Hún er líkt og arftaki beggja hinna kirknanna. Það er ekki fyrr en eftir að siðbótamenn hafa afnumið og bannað áheit á Þorláksskrín og krossinn helga í Kallaðarnesi, að áheit manna taka að berast til Strandarkirkju.”

Áheitin lifðu tímans tönn og lifa enn sem hluti af trúarlífi okkar Íslendinga. Árni Óla segir í ritgerð sinni að það sé rangt að halda því fram að áheitin hafi borist hingað til lands með pápiskum sið. Hann segir að áheitatrúin sé miklu eldri og eigi líklega rætur sínar að rekja til þess að maðurinn fór fyrst að huga að og gera sér grein fyrir því að til væru æðri máttarvöld. Maðurinn hefur svo leitað ráða til að komast í samband við þessi æðri máttarvöld og fá þau þannig til að hjálpa sér. Slíka trú má finna í öllum löndum og hefur gefist fólki vel, annars mundi hún ekki halda velli. Svona trú er ekki hægt að banna því menn standa vörð um það sem þeim er heilagt. Við kristintökuna blönduðust saman kristnar og heiðnar hugmyndir. Með siðbótinni var blandað saman pápískum og lúterskum hugmyndum, allt hafði þetta glundroða og öfgar í för með sér. En þegar upp er staðið er það eina sem hélst óbreytt trúin á góð og ill öfl.

Einlæg sannfæring og trú

Þó nokkuð hefur verið skrifað um Strandarkirkju og um hana hafa verið ort bæði ljóð og sálmar. Hún hefur blásið mönnum í brjóst hvata og orku til að trúa og vona að draumar þeirra og þrár rætist. Hún hefur veitt sáluhjálp þeim sem á hana trúa og margir eiga hjá sér ótrúlegar og fallegar sögur af því hvernig kirkjan hefur veitt þeim aðstoð þegar lífið hefur verið erfitt.

Í Erindi um Strandarkirkju eftir séra Ólaf Ólafsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 2. okt. 1927 má lesa eftirfarandi:

,,Strandarkirkja er og hefir lengi verið í meðvitund þjóðarinnar sem helgur dómur; og á helga dóma trúa menn í hjarta sínu, hvort sem menn uppskera fyrir það lof eða last; og jeg bæti því við, að þessi trú veitir ótölulegum fjölda manna ólýsanlegan styrkleika í lífsbaráttunni”.

Ólafur bætir því við að trúin á Strandarkirkju sé íslensk þjóðtrú og að hún sé sannfæring manna sem beri að virða. Maður á rétt á að fá að fylgja sannfæringu sinni og hana geti engin tekið frá manni. Þessi grein Ólafs er skrifuð sem svar við umfjöllun um Strandarkirku sem hafði átt sér stað í samfélaginu á þessum tíma. Uppi höfðu verið raddir sem vildu beina áheitum fólks annað en á Strandarkirkju, þangað sem peningunum væri betur varið. Það hafa alltaf öðru hvoru komið upp slíkar deilur manna á milli. En þeir sem heita á Strandakirkju gera það vegna sannfæringar sinnar og trúar, ekki af því að þeir vilji endilega styrkja kirkjuna með fé. Sóknarprestur Strandarkirkju Baldur Kristjánsson sagði mér, þegar ég spurði hann um áheitin, að hann fengi mikið af bréfum bæði hérlendis og erlendis frá þar sem fólk lýsir upplifun sinni og óskum, stundum á mörgum blaðsíðum. Þessi bréf liggja stundum á altarinu eftir að ferðamenn hafa heimsótt kirkjuna. Fólk langar að deila með prestinum þeirri trúarlegu reynslu sem það hefur orðið fyrir og segja frá hvernig kirkjan hefur hjálpað því.

Svona getur lítil afskekkt kirkja norður á Íslandi haft áhrif á líf fólks víðsvegar um heiminn og ég vona að það sé öllum ljóst sem þetta lesa að Strandarkirkja er ekkert venjulegt hús.

Megi Strandarkirkja halda áfram að vera sá helgi staður sem hún hefur alltaf verið og vonandi á hún eftir að verða mörgum innan handar í lífinu og kraftaverkin halda áfram að gerast.

Heimildir

Magnús Guðjónsson, Strandarkirkja í Selvogi (Reykjavík 2001, 3. útg.)

Árni Óla, Fyrirburður í Strandarkirkju (Reykjavík 1974) Birtist í Morgunn tímarit um andleg málefni.

Pétur Pétursson, Kristni á Íslandi (Reykjavík 2000)

Árni Óla, Grúsk (Reykjavík 1964)

Morgunblaðið. 2. okt. 1927. Ólafur Ólafsson: ,,Erindi um Strandarkirkju”.

     

    Háaleiti 815 Þorlákshöfn. Sími 4833771/8980971 , fax 4833566 · Kerfi RSS