Strandarkirkja

 

Sagan um Strandarkirkju

Á elleftu öld var stórbóndi úr Fljótshlíðinni á leið til íslands með skipið sitt fullt af timbri frá Noregi sem hann ætlaði til að byggja sér nýjan bæ. (Þeir voru svo flott ríku bændurnir á þessum tímum þeir höfðu sín eigin kaupskip til heimilisútréttinga) Þegar bóndinn og skipshöfn hans tóku að nálgast suðurströnd Íslands, skall á aftaka veður. Allir héldu að skipið mundi farast og krupu þeir allir í bæn til Heilagrar Maríu (Sem oft var kölluð STELLA MARIS eða stjarnan sem lýsir sjómönnum í hafsnauð) Eigandi skipsins hét á Maríu Guðsmóður að ef þeir kæmust lífs af mundi hann nota farminn til kirkjubyggingar hvar sem þeir kæmust að landi. – Skyndilega kom þá ljós af himni sem lýsti upp þungbúinn nætur himininn og mennina og himneskt ljós lýsti upp sjóinn fyrir stefni skipsins og frammi fyrir þeim myndaðist líkt og vegur með lygnum sjó þótt á sitt hvora hlið við lygnan sjávarveginn ólmaðist sjórinn með mannhæðar háum hvítfyssandi öldum. Skipið sigldi eftir þessum lygna vegi í átt til strandar og þegar ströndin birtist sjómönnunum stóð hin heilaga María þar með ljósker í hendi (Þegar sagan er sögð á 15 öld hefur hin “Helga Jómfrú” breyst í Engil, því Lútherstrúarmenn vilja að sem minnst sé minnst á Heilaga Guðsmóður en eldri heimildir eigna henni þetta kraftaverk) Um leið og skipið lagði að landi hvarf veran með ljóskerið en eigandi skipsins hélt heit sitt og byggði kirkju þar á ströndinni, svo eina og sér svo fjarri manna byggðum. Og þar stendur hún enn þann dag í dag.

Tvisvar í gegnum aldirnar, hefur átt að flytja kirkjuna nær prestsetri þá þjónandi prests. Í seinna skiptið sem var á 18 öld, hafði presturinn meira segja fengið leyfi biskupsins í Skálholti til kirkjuflutningsins. En daginn áður dó presturinn með sviplegum hætti. Í fyrra skipti var það einn flutningsmanna sem hneig örendur niður, rétt áður en rífa skyldi kirkjuna.

Á 13 öld byrjaði fólk að heita á Strandarkirkju og í 7 aldir hefur fólk hvaðanæfa úr heiminum heitið á kirkjuna. Og hafa áheit farið þannig fram að fólk biður til Guðs, fyrir lækningu sinni eða annarra og heitir vissri fjárupphæð og bænheyri Guð biðjandann, þá fyrst er borguð sú peningaupphæð sem lofað var áður en bænin var beðin. Strandarkirkja er vinsælasta áheitakirkja í Evrópu. Og með áheitapeningum sem koma til Strandarkirkju er ekki aðeins séð um viðhald á Strandarkirkju sem er afskaplega vel við haldin og ótrúlega falleg lítil kirkja, heldur hafa áheitarpeningar til kirkjunnar verið notaðir til að halda við ótal kirkjum á Íslandi.

Mörg tákn og stórmerki hafa gerst í tengslum við þetta fallega Guðshús sem stendur hátt á sjávarkambinum. Svo þegar setið er þar í Kirkjunni við Guðsþjónustur sér maður langt út á Atlanshafið.

Eitt sinn var fundur hjá safnaðarnefnd og prestinum þar í Selvoginum inni í kirkjunni. Var fundinum að ljúka nema meðhjálparinn og presturinn urðu einir eftir til að undirbúa messu næsta sunnudag. Þegar þeir höfðu lokið sínum umræðum og ætluðu út úr kirkjunni, gátu þeir ekki með nokkru móti lokað útihurð kirkjunnar. Hvað sem þeir gerðu, þeir reyndu allt, enda stórir og sterklegir menn. Ekki gátu þeir farið heim og skilið kirkjuna eftir opna. Þeir ákváðu að fara aftur inn í kirkjuna til að ráða ráðum sínum um hvað þeir ættu til bragðs að taka til að loka kirkjuhurðinni. En þegar þeir komu aftur inn í helgidóminn, sáu þeir að þeir höfðu gleymt að slökkva á kertunum á altarinu. Þeir litu hvor á annan fóru svo upp að altarinu og slökktu á kertunum. Gengu síðan út og kirkjuhurðin lokaðist ljúflega á eftir þeim.

Guðrún Ásmundsdóttir

     

    Háaleiti 815 Þorlákshöfn. Sími 4833771/8980971 , fax 4833566 · Kerfi RSS