Strandarkirkja

 

Helgigripir Strandarkirkju og minningarmörk

Strandarkirkja á sér marga og merkilega gripi sem hér verður gert grein fyrir.

Árið 2003 voru eftirfarandi gripir skráðir:

- Altaristafla, þessi altaristafla er eftirmynd af altaristöflu G.T. Wegeners í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hún er máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1865. Myndin sýnir Krist stíga upp úr gröf sinni haldandi á sigurfána.

- Kaleikur og patína úr silfri í gotneskum stíl sem talin eru vera frá 14 öld og koma frá Þýskalandi, bæði gyllt með gamalli logagyllingu.

- Kaleikur annar og patína úr sifri (ógyllt). Þessi kaleikur er frá 1940 og patínan frá 1950. Í skálina er grafið Gjörið þetta í mína minningu. Smíðað af Óskari Gíslasyni gullsmið í Reykjavík.

- Oblátuöskjur úr silfri, ógylltar og kringlóttar. Smíðaðar af Ásbirni Jacobsen íslenskum gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn árið1867.

- Þjónustukaleikur ásamt patínu úr silfri í tréhylki. Mjög lítil áhöld, smiður er óþekktur en gripirnir eru taldir íslenskir og frá miðri 19 öld.

- Altarisstjakar 2 úr látúni. Frá lokum 19. eða upphafi 20 aldar.

- Altarisstjakar 2 úr kopar, í nýgotneskum stíl. Líklega frá 1920, eru sagðir nýjir í vísitasíu Jóns biskups Helgasonar frá árinu 1926.

- Altarisstjaki úr kopar, tvíarma fyrir 5 kerti. Líklega frá lokum 19 aldar.

- Altarisstjakar tveir úr silfruðum léttmálmi. Frá öndverðri 20 öld, eru á orgeli.

- Altarisstjaki úr léttmálmi, tvíarma og fyrir 3 kerti. Ekki notaður.

- Silfurstjakar tveir. Smíðaðir af Sigtryggi J. Helgasyni gullsmið á Akureyri um 1960. Brynjólfur Brynjólfsson Bryti á Akureyri gaf kirkjunni stakana.

- Blómavasar tveir renndir úr kopar. Smíðaðir í Reykjavík 1992 að undirlagi Kristófers Bjarnasonar .

- Altarisdúkur úr hvítu hörlérefti. Gerður, eftir eldri dúk frá 1925, af Guðbjörgu Andrésdóttur árið 1999 í Reykjavík.

- Altarisklæði úr rauðu flaueli. Fengið í kirkjuna 1939 eða 1940.

- Altarisklæði úr rauðu flaueli. Haft yfir hinu fyrrnefnda til hlífðar en er tekið af við hátíðarmessur.

- Silfurkross á svörtum tréstalli. Til minnigar um Magnús Torfason sýslumann Árnesinga (1921-1936) sem beitti sér fyrir landgræðslu umhverfis kirkjuna. Krossinn stendur ofan á steinþró sem geymir ösku sýslumannsins.

- Kristmynd úr tré, máluð. Stytta keypt í fornmunaverslun í Reykjavík og gefin Strandarkirkju af Rolf Johansen stórkaupmanni. Sögð vera frá um 1820.

- Marímynd úr trefjaplasti, nýleg. Kom árið 2000 í kirkjuna.

- Númeratafla með ártalinu 1865. Áletrun: FYRIR PRJEDIKUN og EFTIR PRJEDIKUN. Henni fylgir númerastokkur með renniloki. Gefið af Stefáni Eyjólfssyni íHerdísarvík.

- Minningarskjöldur úr silfri á mahóníplötu. Til minnigar um bræður frá Þorláksgerði í Selvogi sem drukknuðu 1931 og 1947. Guðna Hans og Árna Sverri Bjarnasyni.

- Skírnarskál úr látúni, felld í sexstrendan smíðaðann stöpul. Skálin er frá 1926 en stöpullinn frá 1950-51.

- Kanna úr kopar, fyrir skírnarvatn. Nýleg.

- Sálmabækur tvær í vönduðu alskinnbandi. Með gylltu skrauti á spjöldum og kili. Prentaðar í Reykjavík 1871 og gefnar kirkjunni árið 1873 af jómfrú Sigríði Jónsdóttur í Herdísarvík.

- Guðbrandsbiblía ljósprentuð frá árinu 1984. Gefin til minningar um Ölvi Gunnarsson frá Þjórsártúni sem drukknaði árið 1981 við Þorlákshöfn.

- Stólar tveir í endurreisnarstíl. Brúðarstólar sem sagðir eru smíðaðir í Danmörku árið 1910. Keyptir í kirkjuna árið 1999. Sá þriðji er til í geymslu.

- Ljósahjálmur fyrir 12 ljós. Sagður koma úr sænskri kirkju og vera frá árinu 1885. Var keyptur í fornmunaverslun í Reykjavík árið 2000.

-Ljósahjálmur, svipaður hinum, einnig fyrir 12 ljós. Fengin á sama stað og hinn.

- Ljósahjálmur úr kristal. Gerður af Preciosa-Lustry, fyrirtæki í N-Bæheimi. Þessi gerð er kennd við Maríu Theresu keisaraynju af Austurríki og sögð vera framleidd fyrst árið 1724.

- Harmóníum frá 1898, sex radda. Hið fyrsta sem kom í kirkjuna, fengið fyrir meðalgöngu Jóns Pálssonar gjaldkera frá Stokkseyri.

- Pípuorgel frá árinu 1969. Orgelið er þýskt, af gerðinni Walker, sex radda og með einu hljómborði og fótspili. Keypt þegar gert var við kirkjuna 1967-68.

- Saumuð mynd með ullarbandi af Maríu með geislakrans og skrautverk umhverfis hana. Einkennismerki guðspjallamannana má sjá í hornunum. Myndin var skilin eftir í Strandarkirkju fyrir allnokkrum árum og var augljóslega gjöf til kirkjunnar.

- Klukkur tvær úr kopar í turni. Önnur með áletruninni: ENGEMVNDER GRIMSSON 1646. Ingimundur Grímsson f.1610 sem var lögmaður og bóndi á Strönd hefur væntanlega gefið klukkuna. Hin klukkan er með áletruninni: ANNO 1740.

Eldri klukkan

Yngri klukkan

- Prestaspaði, svartmálaður með venjulegu rekulagi. Líklega frá 19 öld.

- Hringur úr kopar sem festur er á kross úr kopar. Var á útihurð en er nú yfir innri hurð kirkjunnar. Mun hafa verið hurðahamar úr skipinu Andreas sem var norskt timburfluttnigaskip er strandaði í Selvogi árið 1896. Áhöfnin bjargaðist.

Safngripir

Nokkrir gripir sem tilheyra Strandarkirkju eru á söfnum t.d. á Þjóðminjasafninu og á Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka. Má þer nefna altarisklæði frá 18 öld, skírnafont og olíulampa.

Minningarmörk

Lágir ávalir fjörusteinar, náttúrulega slípaðir og fallegir, eru einkennandi fyrir minningarmörkin í kirkjugarði Strandarkirkju. Hér má einnig nefna legstein Gunnfríðar Jónsdóttur (1889-1968) sem var höfundur höggmyndarinnar Landsýn sem stendur vestan við kirkjugarðinn.

Minningarsteinn um látna sjómenn er í suðausturhorni garðsins. Þetta er blágrýtisstuðull c.a. 107 cm hár. Á steininum er ártalið1994 neðst og mynd af skipi efst, fyrir neðan myndina stendur: TIL MINNINGAR UM LÁTNA SJÓMENN. Og svo eru tvö erindi eftir sr. Helga Sveinsson sem þjónaði Strandarkirkju í 24 ár.

Í garðinum má einnig finna minningarstein um eftirfarandi presta: Séra Eirík Magnússon, séra Grím Ingimundarson og séra Lárus Scheving Hallgrímsson. Og svo er minnisvarði á leiði séra Eggerts Sigfússonar sem var síðasti prestur Selvogsþinga.

(Heimild: Kirkjur Íslands. 4 bindi. Og Strandarkirkja í Selvogi eftir Magnús Guðjónsson. Myndir: Guðrún R. Stefánsdóttir)

     

    Háaleiti 815 Þorlákshöfn. Sími 4833771/8980971 , fax 4833566 · Kerfi RSS