Íslenski söfnuðurinn í London

 

Fermingarferð til Íslands

Sæunn Þórisdóttir

Föstudaginn 22.Október lagði ég af stað ásamt fjölskyldu minni frá Bristol á Stansted flugvöllinn. Eftir mikla umferð, vorum við loksins á leiðarenda og gengum inn með töskurnar mínar. Þegar inn var komið hitti ég allan hópinn sem var komin til að ferðast til Íslands og eyða helginni saman í Skálholti. Ég tékkaði inn töskurnar, og kvaddi fjölskylduna.

Þegar við vorum búin að tékka okkur sjálf inn, áttum við frían tíma í 30 mínútur. Á þeim tíma var ég mest með Markúsi, sem ég þekkti fyrir, og Ernu vinkonu hans. Ég og Erna náðum voða vel saman og vorum fljótlega orðnar hinar bestu vinkonur. Loksins var tími komin til að fara upp að hliðinu, og inn í flugvélina. Ég fékk að skipta um sæti við Séra Sigurð, svo ég gæti setið við hliðina á Ernu. Flugið gekk eins og í sögu. Ég og Erna blöðruðum um lífið og tilveruna alla leiðina. Flugvélin lenti loks á Keflavíkurflugvelli, og þar beið frænka mín eftir mér. Allir fóru sína leið, heim til ættingja eða vina, en síðan hittumst við öll aftur snemma á laugardagsmorgni um klukkan 9 á rútustöðinni í Reykjavík. Við fórum uppí rútuna. Ég og Erna sátum auðvitað saman og spjölluðum alla leiðina. Það var þessi fína leiðsögukona í rútunni sem kynnti fyrir okkur Ísland á leiðinni upp að Skálholti. Við stoppuðum í Hveragerði, þar sem að ég keypti mér pylsu með öllu, æðislegt alveg hreint. En jæja, eftir rúmlega klukkutíma keyrslu vorum við loksins komin að Skálholti. Við fengum það verk að koma okkur fyrir á svefnstöðum, sem voru þrír sumarbústaðir.

- Eftir það hófst dagskráin.

Við gerðum heilmikið þennan laugardag sem var ótrúlega fróðlegt og spennandi. Séra Bernarður kynnti fyrir okkur Skálholt, og sýndi okkur hitt og þetta. Síðan bjuggum við til leikrit um “Miskunsama Samverjann” og lékum, sem mér fannst eitt af því skemmtilegasta í ferðinni. Rétt undir kvöldmat, héldum við upp í kirkju og tókum þátt í helgistund sem var eitthvað sem ég hafði aldrei gert áður, og fannst afar athyglisvert.

Eftir kvöldmat héldum við kvöldvöku ásamt unglingakór Grafarvogskirkju sem heppnaðist bara mjög vel. Allskonar leikir í gangi og fjör. Seinna það kvöld hittust víst allir í “strákahúsinu”, nema ég og Erna, en við vorum bara að slappa af í rólegheitunum inni í okkar bústað. Vorum með heilan helling af nammi og gosi, auk þess rændum við tækinu úr stofuni svo við gætum hlustað á tónlist. Hefðum ekki getað haft það betra. Síðan vorum við steinrotaðar rétt um 2 leitið þá nótt.

Við vöknuðum sprækar á sunnudagsmorgninum um 9 leitið. Skruppum svo niður í matsal um klukkan 10 og fengum morgunverð. Eftir hann fór dagskráin á fullt. Ég var einnig mjög ánægð með sunnudaginn. Við fórum í messu fyrir hádegi sem var bara fín, kórinn frá Grafarvogskirkju söng sem var rosa flott. Eftir hádegi hittumst við og fórum í allskonar leiki, á meðan hver og einn var sendur út í kirkju til að semja bæn og fara svo með til Guðs. Leiðin kom að mér og ég dreif mig út í kirkju. Í andyrinu beið Séra Sigurður og bað mig um að semja bænina. Að því loknu fór ég inn í kirkju, settist niður og byrjaði að lesa upp það sem ég skrifaði. Mér fannst þetta rosalega skrítin tilfinning, að sitja þarna ein inni í kirkju, talandi við “einhvern” þarna uppi. Ég var frekar stressuð af einhverjum ástæðum og leið ekkert voða vel þarna ein inni.

En jæja dagurinn hélt áfram og við fórum aftur í helgistund, þó allt öðruvísi en frá deginum áður. Þetta var það sem mér fannst eiginlega skemmtilegast. Þetta var eitthvað svo róleg og hljóðlát stund. Við stelpurnar töluðum allar um eftir á hvað þetta hefði verið flott.

Við fórum síðan upp í bústaðina og pökkuðum niður, ferðin var á enda.

Mér fannst Skálholtskirkjan rosalega falleg, og vakti sérstaklega athygli hjá mér stóra myndin af Jesú fyrir ofan altarið. Í heildina litið er ég bara mjög ánægð með þessa ferð, og finnst hún hafa verið einstaklega vel heppnuð. Það var frábært að getað kynnst öllum þessum skemmilegu krökkum sem eru í sömu stöðu og maður sjálfur. Prestur, farastjóri og kennarar voru æðislega skemmilegir, stóðu sig eins og hetjur. Og síðast en ekki síst var mjög gaman að koma á Skálholt og kynna sér þann merka stað.

     

    Íslenski söfnuðurinn í London,b/t sr. Steinunnar Arnþrúðar Björnsdóttur, Embassy of Iceland London, 2A Hans Street, London SW1X 0JE. Sími tel. 44 (0) 20 7259 3999. · Kerfi RSS