Ísafjarðarkirkja

 

Fjölskylduvæn guðsþjónusta og jólatrésskemmtun

Fjölskylduguðsþjónsusta verður í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 16. desember klukkan 11:00 árdegis. Þessa guðsþjónustu höfum við stundum nefnt “Jólasöngva fjölskyldunnar”. Þar sameinum við kirkjuskólann og guðsþjónustu sunnudagsins í eitt. Kirkjuskólabörnin syngja og fá afhentan límmiða með mynd úr Biblíunni. Börn úr Tónlistarskóla Ísafjarðar syngja og leika á hljóðfæri. Það verður brúðuleikhús og margt fleira. Eftir messuna verður svo jólaball í safnaðarheimilinu en þar ætlum við að dansa í kringum jólatré.

Magnús Erlingsson, 11/12 2018

Sígræn kirkja í Vesturbænum

Steingrímur Þórhallsson, garðyrkjumaður og organisti Neskirkju:  „Ég hef í nokkur ár talað fyrir því í Neskirkju að tengja náttúru og helgihald saman, tengja ræktun blóma/matjurta við ræktun andans, hugans og líkamans.  Það er nokkuð, sem kirkjan ætti að vera að þjóna líka.  Allt kirkjuárið var meira og minna tengt náttúrunni.  En um leið og það var aftengt þá misstum við tenginguna við lífið og fólkið.  Nú eru þessir helgisiðir bara siðanna vegna en ekki til að fagna birtu, uppskeru og svo frv.  Neskirkja hefur talsverða lóð, sem er ekkert nýtt, og ég myndi vilja að þar yrði ræktunarsvæði, sem hverfi og kirkja kæmu saman í og reglulega yrðu haldnar einhverjar samkomur því tengt.  Við höfum þegar gert eitt og annað á þessu sviði, m.a. staðið fyrir haustfagnaði og eldað mat úr heimaræktuðu grænmeti og við Tómas Ponzi stóðum að ræktunarmessu í vor.  Þá hefur Neskirkja gróðursett birkitré með fermingarbörnum í Heiðmörk undanfarin ár, eitt tré fyrir hvert fermingarbarn. “

Magnús Erlingsson, 11/12 2018

Litlu jól eldri borgara

Sunnudaginn 9. desember kl. 15:00 bauð Kvenfélag Ísafjarðarkirkju eldri borgarum bæjarins á Litlu-jólahátíð í Ísafjarðarkirkju.  Hátíðin hófst inni í kirkjunni með tónlistarfultningi og ávörpum.  Síðan voru bornar fram veitingar í safnaðarheimilinu.  Hátíðin tókst mjög vel.

Magnús Erlingsson, 7/12 2018

Aðventuhátíð barnanna í Hnífsdal

Sunnudaginn 9. desember kl. 11:00 var aðventuhátíð barnanna í Hnífsdalskapellu.  Fermingrbörn kveiktu á kertunum á aðventukransinum og lesa upp texta.  Börn úr kirkjuskólanum fluttu helgileik jólanna.  Það var spilað tvíhent á píanó.  Það var almennur söngur og sögð jólasaga.  Foreldrar komu og fögnuðu aðventunni með börnunum í Dalnum.

Magnús Erlingsson, 7/12 2018

Ljósakrossar í kirkjugörðunum á Ísafirði og í Hnífsdal

Á aðventu setja magir upp ljósakrossa á leiði ástvina sinna.  Miðað er við að ljósakrossarnir logi alla aðventuna og þar til jólatímanum lýkur eða til 6. janúar.  Einstaklingar koma með sína krossa og stinga þeim í samband.  Gjaldið fyrir að tengja rafmagnsljósakross er 3.000 krónur.

Fólki er bent á að hafa samband við kirkjugarðsvörðinn Elvar Ingason í síma 783-2623 eða síma 456-3560 til að fá nánari upplýsingar um rafmagnsspennu krossanna og eins hvernig skuli koma greiðslunni til skila.

Magnús Erlingsson, 2/12 2018

Aðventukvöld 2. desember

Aðventukvöldið er 2. desember kl. 20:00. Kór Ísafjarðarkirkju ásamt einsöngvurum og ungu fólki flytur fallega aðventu- og jólatónlist. Einleikur á orgel og klarinett. Fermingarbörn tendra ljósin og lesa upp.

Það er frábært að hefja aðventuna með himneskri tónlist, slaka á og svífa inn í annan heim.  Komið og njótið.  Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Magnús Erlingsson, 26/11 2018

Umhverfisfræðsla á Akureyri

Sindri Geir Óskarsson, guðfræðingur:  „Í Glerárkirkju stóð prófastsdæmið fyrir röð fræðslukvölda um umhverfismál, þar sem boðið var upp á fræðilega og hagnýta fyrirlestra til skiptis.  Þar fengum við m.a. Árna Finnsson hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands til að ræða við okkur um súrnun sjávar og Huldu B. Waage, sem er vegan-aðgerðarsinni, til að ræða ávinninginn fyrir náttúruna af því að draga úr kjötneyslu.  Við buðum upp á vinnukvöld, þar sem við bjuggum til fjölnota innkaupapoka.  En trúarlegi þátturinn fékk líka sitt pláss.  Fjallað var um arfleið Frans frá Assisí, við skoðuðum hvernig 12 sporin geta stutt okkur í því að losna úr hlekkjum neysluhyggju og boðskapur keltneskrar kristni fyrir okkur, sem þurfum að endurnýja tengslin við náttúruna, var ræddur.  Í tengslum við þetta var unnið með umhverfismál í barnastarfi kirkjunnar og krakkarnir bjuggu til fjölnota poka úr gömlum bolum.  Það var mjög misjafnt hver mætingin var á fræðslukvöldin en við streymdum þeim beint á Facebook og þar með stækkaði áheyrendahópurinn töluvert.”

Magnús Erlingsson, 20/11 2018

Guðsþjónusta á næst síðasta sunnudegi kirkjuársins

Sunnudaginn 18. nóvember kl. 11:00 var guðsþjónusta í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng sálma, sem allir kunna.  Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.

Þetta var síðasta messan í röð af messum þarsem við rifjuðum upp þekktar Biblíusögur úr Gamla testamentinu.  Sögurnar um Ísak voru teknar til umfjöllunar.

Magnús Erlingsson, 15/11 2018

Allra heilagra messa haldin hátíðleg

Sunnudaginn 4. nóvember kl. 11:00 var messa í Ísafjarðarkirkju.  Kór Ísafjarðarkirkju söng sígilda sálma.  Organisti var Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.

Á fyrsta sunnudegi í nóvember minnumst við látinna ástvina.  Við þökkum fyrir það, sem liðið er, um leið og við lítum til framtíðar.

Textar messunnar voru allir um Abraham, einn af höfuðfeðrunum í Biblíunni.  Lagði sóknarpresturinn út af þeim textum og tengdi það við vangaveltur um lífshlaup mannsins.

Magnús Erlingsson, 31/10 2018

Skref í rétta átt í Keflavík

Sr. Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur Keflavíkurkirkju:  „Í Keflavíkurkirkju fengum við starfsmenn Umhverfisstofnunar á fund til að ræða hvernig við gætum orðið grænni.  Í framhaldinu fórum við að flokka rusl, sem var ekki almennt gert í sveitarfélaginu.  Við kaupum aðeins umhverfismerktar hreinlætisvörur og allt starfsfólk kirkjunnar hjólar eða gengur til vinnu.  Til að spara pappír og blek þá ipad-væddum við kórinn og nú hlaða þau nótunum niður fyrir messur og tónleika.  Við fengum pípara til að leiðbeina okkur með hitaveitukerfið og við nánast slökkvum á því í apríl, það getur orðið örlítið kalt en við spörum mikið á því, bæði orku og peninga.  Við rifum upp runna í garði kirkjunnar og komum upp matjurtagarði, þar sem við ræktum grænmeti, sem er notað í uppskerusúpur eftir messu á haustin, einnig sultum við rabbabara og nýtum í hjónabandssælur vetrarins.  Það, sem er næst á dagskrá, er að koma upp hjólaskýli við kirkjuna. “

Magnús Erlingsson, 29/10 2018

Ísafjarðarkirkja er evangelísk lútersk kirkja.
Sóknarprestur er sr. Magnús Erlingsson. Sími prestsins er 844-7153. Netfang hans er isafjardarkirkja@simnet.is.
Kirkjuþjónn og kirkjugarðsvörður er Elvar Ingason. Sími 456-3560.

Þriðjudagur

Viðtalstími prests er milli 11 og 12. Skrifstofan er uppi á 2. hæð safnaðarheimilisins, gengið inn frá Sólgötu. Síminn er 456-3171.
Fundur hjá æskulýðsfélaginu kl. 20:00.

Dagskrá ...