Hóladómkirkja

 

Kirknatal

Hóladómkirkja – núverandi kirkja

Dómkirkja sú af steini, sem enn stendur á Hólum var reist á dögum Gísla Magnússonar biskups. Þegar leitað var eftir við Gísla að hann tæki biskupsvígslu færðist hann undan í fyrstu en þá var Hólastaður í niðurníðslu og árferði slæmt. Hann lét þó til leiðast eftir að danska kirkjustjórnarráðið og Ludvig Harboe biskup höfðu heitið honum stuðningi sínum við uppbyggingu staðarins. Undirbúningur að endurreisn Hólaldómkirkju var strax hafinn og fljótlega kom upp sú hugmynd að byggja varanlega úr steini því það var talið ódýrara og ekki þurfa eins mikið viðhald og timburhús.Einnig þótti komið tækifæri til að vekja áhuga landsmanna á að notfæra sér innlent byggingarefni og tileinka sér nýjar byggingaraðferðir. Því varð úr að Laurids de Thurah yfirhúsameista Dana var falið að gera tillöguuppdrátt að nýrri steinkirkju. Thurah fól efnilegum múrarasveini Johan Christhop Sabinsky að fara til Íslands og stjórna verkinu. Sabinsky hafði góð meðmæli og var sagður jafnvígur á steinsmíði og múrverk og því vel hæfur til starfans.

Sabinsky kom til Hóla í ágúst 1757 og fór þegar að huga að grjótnáminu. Í Hólabyrðu er að finna fágætan rauðan stein sem ákveðið hafði verið að nota í bygginguna. Ráðnir voru menn úr nágrenninu til aðstoðar Sabinsky sem sprengdi steininn með púðri og lét færa heim á vagni og sleða þegar frost var í jörðu. Steinninn var svo hogginn til heim á staðnum. Þessari vinnu miðaði seint, bæði gekk illa að fá menn til verksins og kvartaði Sabinsky undan litlu verksviti og leti landans í bréfi til kirkjustjórnarráðsins. Vorið eftir var gefin út konungleg tilskipun þar sem bændur í Húnavatnssýslu, Skagafirði og Eyjafirði voru skyldaðir til vinnu kauplaust við kirkjusmíðina. Þetta mun hafa verið siður erlendis en norðlenskir bændur áttu ekki slíku að venjast og kölluðu ólög. Sabinsky kvartar sáran í bréfum til kirkjustjórnarráðsins undan sambúð við verkamenn sína og óskaði margsinnis eftir að fá fleiri múrara að utan, sér til hjálpar við smíðina. Þegar yfirlauk varð kirkjan töluvert breytt frá því sem var á upphaflegri teikningu Thurah og réði Gísli biskup miklu um skipan innan kirkju, t.d. lét hann stækka kórinn og færa prédikunarstólinn framar í kirkjuna. Hann lét tvo ónafngreinda Íslendinga smíða milligerð milli kór og kirkju, svipaða og hafði verið í Halldórukirkju í staðinn fyrir lágt spjaldþil sem teikningin sýndi. Kirkjubyggingin tók mun lengri tíma en áætlað hafði verið í upphafi og fór fram úr fjárhagsáætlunum en Gísli Magnússon biskup vígði kirkjuna 20. nóvember 1763.

Kirkjur fyrri tíðar

Fyrstu kirkju í Hjaltadal byggði Þorvarður Spak-Böðvarson á bæ sínum Ási, árið 984. Það var sextán vetrum áður en kristni var lögtekin á Íslandi og er sagt að heiðnum mönnum hafi líkað illa.

Sú kirkja sem nú stendur er sjöunda kirkjan sem stendur á Hólum og fimmta dómkirkjan.

 1. Kirkja Oxa Hjaltasonar, um 1050
 2. Önnur Hólakirkja, eftir 1050, fyrir 1106
 3. Kirkja Jóns Ögmundssonar, eftir 1106
 4. Kirkja Jörundar Þorsteinssonar fyrir eða um 1300
  (Auðun rauði hóf smíði steinkirkju en lauk ekki)
 5. Kirkja Péturs Nikulássonar, eftir 1394
 6. Kirkja Halldóru Guðbrandsdóttur, 1627
 7. Núverandi steinkirkja, byggð í tíð Gísla Magnússonar, 1763

Kirkja Oxa var byggð um miðja 11. öld og segir í Jóns sögu helga að sú kirkja hafi mest gjör verið undir tréþaki á öllu Íslandi og að Oxi hafi lagt til hennar mikil auðæfi. En kirkja þessi stóð ekki lengi því að hún varð eldi að bráð „með öllu skrúði sínu og leyndum dómi guðs“.

Um aðra Hólakirkju er ekki mikið vitað annað en að hún stóð fram á daga Jóns Ögmundarsonar. Líklegt er talið að hún hafi þótt hæfa þegar Hólar urðu biskupssetur.
Ekki hafði Jón Ögmundarson setið nema skamma stund á Hólum þegar hann lét taka ofan kirkjuna og reisa í hennar stað „mikla kirkju og volduga“. Fyrir smíðinni stóð maður að nafni Þóroddur Gamlason „er hagastur var í þann tíma á Íslandi.“ Engar heimildir eru til um stærð Jónskirkju en margt bendir til að hún hafi verið svipuð næstu tveimur kirkjum á Hólum að stærð og lögun.

Jörundur Þorsteinsson varð biskup á Hólum 1267 og gegndi því embætti í 46 ár. Hann lét byggja kirkju í kringum aldamótin 1300 og „prýða með klukkum og skrúði og mörgum öðrum fágætum gersemum.“ Kirkja þessi var timburkirkja í þremur hlutum, framkirkju, kór og stöpli, með tveimur stúkum, spónlögð utan og pentuð innan. Smiðir voru feðgar, Helgi Grímsson og Kolli sonur hans. Um Kolla Helgason var sagt að hann væri „hinn hagasti maður á trésmíði og alla reisingu.“ Kirkja Jörundar stóð til 27. desember 1394 en þá fauk hún í ofviðri „með svo undarlegum atburði að hvert tré brotnaði. Vað þar engu undan bjargað nema líkneskjum og helgum dómum. Var þar undir einn piltur og dó.“

Auðun rauði tók við embætti biskups að Jörundi látnum. Auðun var norskur og hafði með sér steinsmiði og lét brjóta berg úr Hólabyrgðu og færa heim. Hann hóf smíði steinkirkju eins og tíðkaðist erlendis en entis ekki aldur til að ljúka verkinu.

Árið 1391 vígðist til Hóla danskur maður, Pétur Nikulásson. Hann hafði því ekki setið staðinn nema þrjú ár þegar kirkja Jörundar fauk. Pétur lét endurreisa dómkirkjuna frá grunni með líku sniði og fyrri kirkju. Það var timburkirkja gerð af stafverki og með 38 glergluggum. Talið er að Péturskirkja hafi verið veglegust dómkirkna á Hólum og segir í heimildum að hún hafi verið 50 álna löng. Þann tíma sem kirkjan stóð voru gerðar á henni endurbætur og breytingar. Svo fór í norðan fjúkviðri 16.nóvember 1624 að kirkjan fauk í heilu lagi og féll niður í garðinn.

Þegar Péturskirkja fauk var Guðbrandur Þorláksson biskup orðinn gamall maður og karlægur. Umsjón með staðnum og öll staðarforráð hafði Halldóra dóttir hans. Halldóra var skörungur mikill og sendi systurson sinn Þorlák Skúlason þá skólameistara og síðar biskup til Danmerkur að kaupa við í nýja kirkju. Smíði nýrrar kirkju var lokið að fullu 1627 og ávallt kölluð Halldórukirkja. Betri heimildir eru til um gerð Halldórukirkju en miðaldakirknanna. Hún var byggð með sama lagi og Péturskirkja en smærri í sniðum og stúkulaus. Halldórukirkja var útbrotakirkja í ætt við basilíku og er til uppdráttur af kirkjunni gerður 1757 af Sabinsky þeim er smíðaði kirkju þá er nú stendur. Björn Jónsson á Skarðsá ritar um miðja 17.öld að kirkja Halldóru hafi verið „bæði mikið hús og merkilegt, svo slíkt er ekkert á Íslandi.“ Árið 1758 var Halldórukirkja tekin ofan þegar undirbúningi var lokið að smíði steinkirkjunnar.

   

  Hólum í Hjaltadal, 551 Sauðárkróki. Sími 453 6300 · Kerfi RSS