Hóladómkirkja

 

Söguágrip biskupsstólsins

Hólar eru ekki nefndir í Landnámu eða þeirra getið í Íslendingasögum. Um miðja 11.öld bjó þar Oxi Hjaltason og lét hann reisa veglega kirkju á Hólum. Er biskupstóll var settur á Norðurlandi 1106 voru Hólar í eigu Illuga prests Bjarnarsonar. Segir í Jóns sögu helga að hann hafi einn Norðlendinga verið reiðubúinn að gefa jörð sína til biskupsseturs.

Fyrstur var Hólabiskup Jón helgi Ögmundarson frá Breiðabólstað í Fljótshlíð (1106-21) og var hann vígður í Lundi. Í hans biskupstíð var hafið skólahald á Hólum, reist fyrsta skólahús sem getur um á Íslandi og byggð dómkirkja. Árið 1200 var helgi Jóns lýst í lögréttu og varð hann þá dýrlingur Norðlendinga.

Á Sturlungaöld var biskup á Hólum Guðmundur góði Arason (1203-1237). Hann átti í deilum við veraldlega höfðingja og hélt fast fram kirkjulögum. Guðmundur var sannheilagur í lifanda lífi, gerði kraftaverk og vígði björg og brunna víða um land, sem bera nafn hans enn í dag. Heima á Hólum er Gvendarbrunnur, skammt norðan Hóladómkirkju og Gvendarskál í Hólabyrðu, ofan Hólastaðar. Munnmæli herma að Guðmundur góði hafi gengið berfættur alla föstudaga upp í Gvendarskál og gert þar bæn sína við stóran stein sem kallaður er Gvendaraltari.

Auðun rauði Þorbergsson, var biskup 1313-1322. Hann var norskur en á þeim tíma var ekki óalgegnt að erlendir menn væru vígðir til biskups á Íslandi. Auðun var stórhuga og lét reisa mikið bjálkahús að norskri fyrirmynd, sem kallað var Auðunarstofa. Hús þetta var í senn heimili og skrifstofa Hólabiskupa næstu aldirnar. Greinargóðar lýsingar eru Auðunarstofu eru til enda stóð hún fram til aldamótanna 1800 eða í nær 500 ár. Árið 2001 var Auðunarstofa endurreist á Hólum og er hún svokallað tilgátuhús og höfð eins lík Auðunarstofu eldri eins og unnt var. Húsið var reist í samvinnu Norðmanna og Íslendinga en það er að langmestu leyti smíðað með handverkfærum og sömu aðferðum og notaðar voru fyrr á öldum. Nú hýsir Auðunarstofa skrifstofu vígslubiskups Hólastiftis og einnig er þar aðstaða til tónleika- og fundahalds og á efri hæð er vinnuaðstaða fyrir gesti Guðbrandsstofnunnar.

Síðastur Hólabiskupa í kaþólskum sið varð Jón Arason (1524-1550). Hann var mikilsvirtur höfðingi og blés til sóknar gegn mótmælendum en beið lægri hlut og var hálshöggvinn ásamt sonum sínum, Birni og Ara, í Skálholti 7.nóvember 1550 að kröfu fógeta konungs. Kirkjuturn Hóladómkirkju var reistur til minningar um Jón á 400 ára dánarári hans, árið 1950. Jarðneskar leifar Jóns Arasonar eru jarðsettar í gólfi turnsins.

Guðbrandur Þorláksson var annar í röð lútherskra biskupa og gengdi biskupsembætti lengst allra Íslendinga í 56 ár (1571-1627). Hann var mikill lærdómsmaður og lagði stund á margar fræðigreinar. Þekktastur er Guðbrandur fyrir bókaútgáfu. Hann gaf út fyrstu íslensku biblíuna og þýddi sjálfur að hluta enda er hún nefnd Guðbrandsbiblía.

Á Hólum var biskupssetur í nær sjö aldir, 1106-1801. Hólastóll var lagður niður með konungsúrskurði árið 1801 og jörðin seld og var í einkaeign til 1882 er Skagfirðingar keyptu hana og stofnuðu bændaskóla. Frá 1986 hefur vígslubiskup Hólastiftis setið staðinn og var biskupsstóllinn endurreistur með lögum 1990.

 

Hólum í Hjaltadal, 551 Sauðárkróki. Sími 453 6300 · Kerfi RSS