Hóladómkirkja

 

Munir kirkjunnar

Altarisbrík, “Hólabríkin”

Jafnan er talið að Jón Arason hafi gefið bríkina kirkjunni á þriðja tug sextándualdar. Bríkin er úr eik, 170 cm háog 340 cm breið. Innan í henni eru útskorin líkneski súlur og skrautverk úr kirsuberjaviði. Á bak hlið bríkarinnar eru málverk. Ekki er vitað fyrir víst hvaðan bríkin er upprunnin. Lengi var haldið fram að hún væri frá Niðurlöndum en listfræðingar telja hana líkari þýskum bríkum. Hólabríkin ber aldurinn vel og hefur mest öll upprunaleg málning hennar og blaðgylling varðveist.

Ljósastaki Gísla biskups Þorlákssonar

Stærsti stjakinn á altarinu er þriggja arma með typpi í miðju. Á stjakinn er grafið að hann sé gjöf Gísla biskups Þorlákssonar, árið 1679.

Stjakar

Á altari eru einnig tveir stórir kopar stjakar. Þeirra er getið í úttekt 1657 og segir að Þorlákur biskup Skúlason og Kristín Gísladóttir hafi gefið þá kirkjunni.

Hjálmur Jóns biskups Vigfússonar

Í kór hangir veglegur 20 kerta ljósahjálmur með þemur krönsum af ljósaliljum hverjum upp af öðrum. Á honum er áletrun, IONAS WIGFVISIVS MAG, þ.e Jón biskup Vigfússon, d.1690. Guðríður Þórðardóttir ekkja Jóns gaf kirkjunni hjálminn fyrir legstað manns síns.

Kaleikar með patínum og bakstursöskjur

  
Ljósm: Broddi Reyr Hansen
Tveir gylltir silfurkaleikar með tilheyrandi patínum eru í eigu Hóladómkirkju. Þeir eru með ensku lagi, næsta áþekkir en misstórir. Munu vera frá 13.öld og teljast til elstu kaleika á Norðurlöndum. Á þeim eru engin merki eða stimplar sem vísa til upprunalands en talið er að þeir geti jafnvel verið íslenkt smíð.

Bakstursöskjur (oblátudósir), einfaldar að gerð með strikuðum hornum úr silfri. Þær voru gefnar af Árna biskupi Þórarinssyni, árið 1784.

Altarisbrík með alabastur

Yfir frúardyrum er forn altaristafla með vængjum. Stærð töflunnar er 92 cm x 198,5cm. Hún er með vængjum og sýnir píslarvætti Krists á sjö lágmyndum. Bríkin er í síðgotnenskum stíl. Hún er talin gerð í Nottingham í Englandi um 1470.

Róðukross

Á norðurvegg gegnt frúardyrum er róðukross úr tré, gipsaður og málaður. Hæð 3,01 m. Þorlákur Skúlason biskup mun hafa gefið kirkjunni krossinn ásamt prédikunarstól fyrir leg sitt. Róðan er í fullri líkamsstærð, í gotneskum stíl og útlent verk. Líklega frá fyrri hluta 16.aldar en kann að vera eldri. Krossinn var málaður upp á 19.öld.

Skírnarsár

Í miðri kirkju að norðanverðu stendur skírnarsár, útskorinn og fagurlega skreyttur með myndum, biblíutilvitnunum og ártalinu 1674. Einnig kemur fram nafn listamannsins, Guðmundar Guðmundssonar frá Bjarnastaðahlíð í Skagafirði. Efnið í skírnarsánum er kléberg en það finnst ekki í íslenskri náttúru.

Guðbrandsbiblía

Í kór er Guðbrandsbiblía í sýniborði, gefin af prentarafélaginu á 500 ára afmæli prentlistarinnar 1940.

Minningartafla Ingibjargar Benediktsdóttur

Minningartafla Ingibjargar Benediktsdóttur hangir á suðurvegg í kór. Hún var kona Gísla biskups Þorlákssonar. Leidd hafa verið rök að því að taflan sé verk Þórðar Þorlákssonar (1637-1697), hann var bróðir Gísla og síðar biskup í Skálholti.
 

Minningarmark Einars biskups Þorsteinssonar og Ingibjargar Gísladóttur

Róðukross hangir á suðurvegg kirkjunnar. Hann er forn, velútskorinn og á þvertréð er skrifað: Ef nokkurn þister kome hann til min og drecke .Joh. cap 7. Undir krossinn hafa verið settar myndir af konu og karli og upphafstafirnir HETHS og JGD (Herra Einar Þorsteinsson og Ingibjörg Gísladóttir).

Kirkjuklukkur

Í forkirkju standa miklir viðir sem halda uppi kirkjuklukkunum. Þeir eru taldir vera úr næstu kirkju á undan, Halldórukirkju sem Halldóra, dóttir Guðbrands Þorlákssonar lét reisa árið 1627. Kirkjuklukkur í forkirkjunni eru tvær og teljast báðar ungar, sú stærri frá 1885 en hin minni frá 1784.

 

 

Ljósm: Broddi Reyr Hansen

Orgel

Fremst í kirkjunni er fjórtán radda pípu orgel smíðað í Danmörku. Þorsteinn Gunnarsson arkítekt hannaði umgjörðina en orgelið var fullbúið og vígt 1990.

     

    Hólum í Hjaltadal, 551 Sauðárkróki. Sími 453 6300 · Kerfi RSS