Hóladómkirkja

 

Auðunarstofa

Fyrr á öldum stóð á hús á Hólum sem kallað var Auðunarstofa eftir Auðuni rauða sem var Hólabiskup 1313-1322. Auðun var norskur og lét reisa hús að norskri fyrirmynd í biskupstíð sinni, líklega um 1317. Þetta hús, Auðunarstofa hin forna, hefur verið afar vel byggt og glæsilegt hús á sínum tíma en hún stóð í tæpar fimm aldir eða allt til ársins 1810, er Hólastóll hafði verið lagður niður og jörðin seld.

Auðunarstofa, sú er nú stendur á Hólum er tilgátuhús, reist árið 2001. Húsið er gert með þrennskonar byggingarlagi; stokkverki, stafverki og steinhleðslu. Stuðst var við ritaðar heimildir um hina fornu stofu og rannsóknir á svipuðum húsum sem enn standa í Noregi og Færeyjum.

Auðunarstofa hin forna var í senn heimili og vinnustaður Hólabiskupa. Auðunarstofa hin nýja er listaverk sem ber horfnum byggingaraðferðum vitnisburð. Þar er til húsa skrifstofu vígslubiskups og aðstaða fræðimanna á vegum Guðbrandsstofnunar. Salur eða hin eiginlega stofa, hentar vel til tónlistarflutnings og fundahalda. Þar er sýning á verkfærunum sem notuð voru við smíði stofunnar, og margmiðlunarbúnaður fyrir fornbókasafnið sem geymt er í kjallara hússins. Auk þess er í kjallara skrúði dómkirkjunnar og fleiri góðir gripir.

     

    Hólum í Hjaltadal, 551 Sauðárkróki. Sími 453 6300 · Kerfi RSS