Háteigskirkja

 

Kórmynd

Krossinn og ljós heilagrar þrenningar

Mósaikmynd í kór Háteigskirkju eftir Benedikt Gunnarsson, listmálara.
Efni, útfærsla og uppsetning: Franz Mayer´sche Hofkunstanstalt, München, Þýskalandi.
Gefandi: Kvenfélag Háteigssóknar, 18.12.1988

Aðdragandinn
1985 gengu konur úr Kvenfélagi Háteigssóknar á fund sóknarnefndar og gerðu nefndarfólki grein fyrir þeim vilja kvenfélagskvenna að kosta undirbúning, gerð og uppsetningu kórmyndar í Háteigskirkju. Í framhaldi af þeim fundi var stofnuð sérstök framkvæmdanefnd sem leitaði til Kirkjulistanefndar sem tilnefndi Björn Th. Björnsson listfræðing til þess að vinna með framkvæmdanefndinni.

Fyrstu skrefin
Efnt var til lokaðrar hugmyndasamkeppni myndlistarmanna um kórmynd í kirkjuna. Þrír listamenn voru fengnir til að koma með hugmyndir, þau Þorbjörg Höskuldsdóttir, listmálari, Björg Þorsteinsdóttir listmálari og Benedikt Gunnarsson, listmálari. Í dómnefnd voru skipaðir þeir Halldór H. Jónsson, arkitekt kirkjunnar, sr. Tómas Sveinsson, annar sóknarpresta við kirkjuna og Leifur Breiðfjörð, glerlistarmaður.

Val myndar
Níu tillögur bárust til dómnefndar frá listmálurunum þremur og valdi nefndin aðra af tveimur tillögum Benedikts Gunnarssonar. Full eining var um valið og sagði nefndin í álitsgerð sinni m.a.: ,,Verkið sýnir vel þann grundvöll sem lifandi kirkja byggir á, þ.e. hinn eilífa Guð sem sendir í syni sínum ljósið til jarðarinnar.” Til kynningar á vali myndar var haldin sýning á öllum tillögunum í Listasafni Alþýðu.

Framkvæmdin
Ákveðið var að ganga til samninga um efni, útfærslu og uppsetningu á myndinni við Franz Mayer´sche Hofkunstanstalt í München, Þýskalandi og fór höfundur myndarinnar alls þrjár ferðir þangað á meðan á vinnslu verksins stóð, fylgdist með öllum framgangi verksins, vann við ýmsa erfiðari framkvæmdaþætti myndgerðarinnar og hafði umsjón með uppsetningarvinnunni í Háteigskirkju. Kórmyndin var fyrsta verkið sem þetta fyrirtæki vann fyrir íslenska kirkju. Auk þess var Benedikt fyrsti íslenski listamaðurinn vann með fyrirtækinu við slíkt stórverk.

Efnisval
Myndin er lögð úr misþykku mósaikefni, sem að meginhluta er úr handsteyptu plötugleri og feneysku glersmelti, en Benedikt réði efnisvali og efnisnotkun. Auk fyrrgreinds efnis valdi hann einnig fjölmarga náttúrusteina, þar á meðal ýmsar tegundir marmara og hálf-eðalsteina. Þá er að finna antíkgler, tilhöggvið gler, blaðgull og blaðsilfur í myndinni. Um efnisvalið segir höfundur: ,,Vegna misþykktar efnisins magnast samspil ljóss og skugga, dýptarverkunin verður áhrifameiri svo og allt líf myndarinnar. Ekkert mósaikefni er til sem að fegurð, litstyrk, ljósþoli og blæbrigðaauðgi er þessu fremra.”

Staðsetning myndarinnar
Mósaikverkinu var valin staður á vegg yfir og á bak við altari kirkjunnar. Um þær aðstæður segir höfundar m.a.: ,,Hafa ber í huga að formgerð kórbyggingarinnar sem myndin er felld að veldur því að myndheildin er í raun þrívíð en birtist skoðanda utan úr kirkjuskipinu sem tvívítt verk. Þannig er það hugsað og þannig er það sterkast. En kórboginn og hálfhvolf hans stuðla einnig að mjög ákveðnu og óvæntu lífi myndarinnar þar sem hún breytist mjög í víddum og litstyrk við nærskoðun.” Myndin er átta metra há og er í heild sinni um 40 fermetrar.

Megininntak myndarinnar
Um myndina segir Benedikt m.a.: ,,Myndin fjallar í knöppu formi um ljósið, ígildi lífsins sjálfs andspænis hrópandi kvöl og nístandi sorg. Hún er um hið sístreymandi lífsins ljós, sem aldrei slokknar þótt fari langt um dimman og kaldan veg himindjúpsins. Hún er um ljósið sem þú átt líf þitt undir og ef til vill sálarheill. Hún er um sannkristin guðleg öfl sem megna að færa þér huggun, frið og fegurð, hvort heldur þú tekst á við harminn eða fagnar lífi á gleðistund. Hún er um lífssannindi sem alla varðar.”

Hér að neðan er erindi Benedikts í heild sinni sem hann flutti við afhendingu kórmyndarinnar.

Mynd mína kalla ég Krossinn og ljós heilagrar þrenningar. Þungamiðja myndarinnar er krossinn, áhrifamesta trúartákn sem þekkist, tákn kristinnar trúar. Önnur tákn eru einnig felld inn í myndheildina og vísa til kristinna lífssanninda. Í upphafi hugmyndasamkeppninnar samdi ég eftirfarandi markmiðsþætti sem ég byggði alla hugmyndaleit og vinnsluþætti á:

  1. Myndin verður að túlka háleitan kristinn boðskap.
  2. Myndformið verður að vera einfalt og auðskilið og taka mið af byggingarstíl kirkjunnar – innviðum hennar.
  3. Viðfangsefnið skal leysast á persónulegan hátt og hafa fagurfræðilega skírskotun til framsækinnar samtímamyndlistar.

Þetta eru þeir þættir sem baráttan stóð um að samræma. Þetta var mikil vinna og ströng. Fjölmörg byggingarfræðileg og sjónfræðileg vandamál þurfti að hafa í huga við hugsanlega fullvinnslu myndarinnar. Frumvinnan hófst hér í kirkjunni; hér sat ég löngum og velti fyrir mér alls konar samræmingarmöguleikum myndmáls og byggingarlistar. Af þessari grunnvinnu spruttu allar síðari hugmyndir og tillögur.

Eins og lífið sjálft kviknar mynd mín af andstæðum. Þessar andstæður eiga rætur í tilfinningalegum átökum og eru burðarásar verksins. Form – og litfræðileg átök undirstrika svo þessa myndþætti. Myndin fjallar í knöppu formi um ljósið, ígildi lífsins sjálfs andspænis hrópandi kvöld og nístandi sorg.

Hún er um hið sístreymandi lífsins ljós, sem aldrei slokknar þótt fari langt um dimman og kaldan veg himindjúpsins. Hún er um ljósið sem þú átt líf þitt undir og e.t.v. sálarheill. Hún er um sannkristin guðleg öfl sem megna að færa þér huggun, frið og fegurð hvort heldur þú tekst á við harminn eða fagnar lífi á gleðistund. Hún er um lífssannindi sem alla varðar.

Lítum nánar á myndina:

Á dimmbláum hringfleti lýsist upp helgasta tákn kristindómsins, krossinn. Birtu sína fær hann að ofan, frá því afli, sem tákngert er efst í ytra hringformi myndar – tákni heilagrar þrenningar. Þar er guli hringurinn tákn eilífðar, – hvíti upphleypti þríhyrningurinn tákn Guðs föður, sonar og heilags anda. Ytri hringurinn sem umlykur myndkjarnann, krossinn og krossgrunninn, er ljóðrænt tilbrigði við hringtákn eilífðarinnar. Hringurinn er sömuleiðis ljósleiðari sem flytur fjölbreytta gullna birtu kringum myndmiðjuna. Efst er birtan sterkust en dvínar eftir því sem neðar dregur í hringblámanum.

Ljósið lifir samt áfram í myrkustu hlutum hringsins í formi lítilla blaðgullsflísa sem eru þar til að endurkasta hlýrri birtu. Lóðrétti flötur krossins leiðir marglitt ljósið niður í glágráan hálfhring sem er hugsaður sem tákn jarðar og þjónar um leið sem baksvið altaris. Frá gullinni ljóssúlu jarðar sem er í formrænni tengingu við krossinn, dreifist svo birtan, hin kristnu lífsgildi í þúsundum litbrigða allt til endimarka jarðarinnar.

Krossinn er upphafinn í veldi ljóss og myndrænna formþátta. Hinir sterku litir hans hafa táknrænt og tilfinningalegt gildi um leið og þeir mynda sterkustu litfræðilegu átök verksins. Mósaikverkið má einnig kalla persónulegan vitnisburð höfundar um djúpa sorg og huggun – eins konar sáttargjörð í grimmum tilfinningaátökum lífs og trúar. Hér er um sammannlega reynslu að ræða sem snertir veigamikið umfjöllunarstef í biðun kristinnar trúar.

Myndlistarverk í kirkju tengist predikuninni og öllu helgihaldi kirkjunnar beint og óbeint. Það á að hvetja manninn til hugleiðinga um kristin lífsviðhorf, um dýpstu rök tilverunnar og um stöðu mannsins í veröldinni. Það á að glæða fegurðarskyn, efla tilfinningaþroska og færa manninn þannig nær Guði.

Jesús Kristur er aflvaki þessa mósaikverks, – mynd hans lýsir alla innviði þess. Megi myndsýn mín og túlkun flytjast áfram og verða samgróin trúarvitun og lífi sem flestra manna. Ég vona einnig að kirkjan megi áfram nýta sér mátt listarinnar í sókn sinni og baráttu fyrir útbreiðslu kristinna lífssanninda og fyrir verndun lífs á jörð.

     

    Háteigsvegur 27-29, 105 Reykjavík. Sími 511 5400 , fax 511 5411 · Kerfi RSS