Háteigskirkja

 

Kirkjan

 Allt fram til ársins 1940 var Reykjavík eitt prestakall sem heyrði undir Kjalarnesprófastdæmi, en þá var skipt í Dómkirkjuprestakall, Nesprestakall, Hallgrímsprestakall og Laugarnesprestakall. Árið 1952 var prestaköllunum fjölgað og bættust þá við Langholtsprestakall, Bústaðaprestakall og Háteigsprestakall. Háteigsprestakall var stofnað með lögum 17. júlí 1952, en árið 1963 breyttust sóknarmörk með stofnun Grensásprestakalls.

Prestkostningar fóru fyrst fram í Háteigssókn í október 1952 og var sr. Jón Þorvarðarson kosinn lögmætri kosningu og þjónaði hann söfnuðinum til október 1976.

Á fyrsta fundi safnaðarins sem haldinn var í Sjómannaskólanum 1952 var kosin safnaðarstjórn. Fyrsti formaður sóknarnefndar var Þorbjörn Jóhannesson. Í upphafi var söfnuðurinn án kirkju, en organisti var ráðinn og kór. Messað var í Fossvogskirkju og í hátíðarsal Sjómannaskólans.

Ekki leið á löngu þar til upp komu hugmyndir að byggja kirkju og fengin lóð. Halldór H. Jónsson arkitekt var ráðinn til að hanna kirkjuna. Með sameiginlegu átaki sóknarnefndar, byggingarnefndar, fjáröflunarnefndar og vinnufúsra handa hófst bygging Háteigskirkju í september 1957. Þórður Jasonarson, formaður sóknarnefndar tók fyrstu skóflustunguna. Tókst að byggja kirkjuna á næstu árum með mismiklum byggingarhraða.

Á aðventu 1965 var ákveðið að vígja kirkjuna, þótt ýmsu væri ólokið. Var athöfnin vegleg í alla staði og fjölmenn. Biskup Íslands, hr. Sigurbjörn Einarsson vígði kirkjuna.

Sr. Arngrímur Jónsson hóf störf í janúar 1964, en hann hafði hlotið flest atkvæði í prestskosningum 1. desember 1963. Hann þjónaði söfnuðinum til ársins 1993. Sr. Jón Þorvarðarson fékk lausn frá embætti í júlí 1976 og var efnt til prestskosninga sama ár. Sr. Tómas Sveinsson hlaut flest atkvæði og var skipaður í embættið í nóvember sama ár og gegndi því til ársins 2013  ásamt sr. Helgu Soffíu Konráðsdóttur, sem var ráðin að kirkjunni í október 1993.

Sr. Helga Soffía varð sóknarprestur við starfslok sr. Tómasar og henni við hlið starfar sr. Eiríkur Jóhannsson. Veturinn 2016-2017 er sr. Helga Soffía í leyfi frá störfum til að helga sig verkefnum sínum sem prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Sr. Eiríkur gegnir embætti sóknarprests og með honum starfar sr. María Ágústsdóttir.

 

     

    Háteigsvegur 27-29, 105 Reykjavík. Sími 511 5400 , fax 511 5411 · Kerfi RSS