Hafnarfjarðarkirkja

 

Saga Hafnarfjaðarkirkju

Hafnarfjarðarkirkja ber nafn bæjarfélags síns, svo sem venja er með fyrstu kirkju þjóðkirkjusafnaðar í kaupstað, en gengur gjarnan undir nafninu Þjóðkirkjan í Hafnarfirði. Sjö árum eftir að Hafnarfjörður öðlaðist kaupstaðarréttindi var Hafnarfjarðarkirkja reist. Hún var byggð fyrir neðan Hamarinn við strönd og sjó við helsta athafnasvæði bæjarins. Það er táknrænt því Hafnarfjarðarkirkja hefur alla tíð verið bakhjarl í lífsstríði og starfi Hafnfirðinga. Hún er kjarni og miðja bæjarmyndar og er sjófarendum glögg viðmiðun er þeir sigla inn fjörðinn.

Byggingarsaga

Frá öndverðu tilheyrði Hafnarfjörður Garðasókn og sóttu Hafnfirðingar kirkju að Görðum. Var um langan, ógreiðfæran vegarslóða að fara og því talið brýnt að byggja kirkju í hinum ört vaxandi kaupstað sem stofnaður var 1908. Byrjað var að grafa fyrir grunni kirkjunnar haustið 1913 nyrst í sýslumannstúninu undir Hamrinum, helsta kennileiti Hafnarfjarðar. Vorið 1914 hófst byggingarvinnan sem gekk það vel að henni lauk á jólaföstu það ár. Yfirsmiður var Guðni Þorláksson, en hann lést er smíðinni var að ljúka. Herra Þórhallur Bjarnarson biskup vígði Hafnarfjarðarkirkju 4. sunnudag í jólaföstu hinn 20. desember 1914. Séra ÁrniBjörnsson, sem kjörinn hafði verið sóknarprestur Garðasóknar árið áður, var fyrsti prestur hinnar nýju kirkju. 

Áður hafði séra Þorsteinn Briem verið valinn en afsalað sér brauðinu eftir að hluti safnaðarins stofnaði fríkirkju. Sóknin hét áfram Garðasókn til ársins 1966 þegar Garðakirkja var endurvígð það ár sem sóknarkirkja Garðahrepps. Jafnframt voru tvær sóknir stofnaðar í Hafnarfirði, Hafnarfjarðarsókn og Víðistaðasókn. Sú skipan tók þó ekki gildi fyrr en árið 1977. Hafnarfjarðarsókn nær nú yfir kaupstaðinn sunnan og austan Reykjavíkurvegar að Kaldárselselsvegi og Reykjanesbraut en sunnan og vestan þeirra tekur við Ástjarnarsókn sem stofnuð var 2001.

Kirkjubygging

Rögnvaldur Ólafsson fyrsti menntaði íslenski arkitektinn teiknaði Hafnarfjarðarkirkju. Kirkjan er krosskirkja, byggð í nýklassískum rómönskum stíl, en einkenni hans koma fram í bogaformum í kirkjuskipi, kór, hliðarstúkum og gluggum. Mikill stórhugur ríkti meðal sóknarbarna er ráðist var í bygginguna og var kirkjan byggð úr steinsteypu sem var nýlunda á þeim tíma. Kirkjan mun hafa tekið um 400 manns í sæti í upphafi, en þá voru bæjarbúar um 1500. Gerðar hafa verið breytingar á bekkjaskipan kirkjunnar síðan og rúmar hún nú að lágmarki 300 manns í sæti. hefur alla tíð verið bakhjarl í lífsstríði og starfi Hafnfirðinga. Hún er kjarni og miðja bæjarmyndar og er sjófarendum glögg viðmiðun er þeir sigla inn fjörðinn.

Kirkjugripir

Helstu kirkjumunir Garðakirkju, altari, altaristafla, predikunarstóll og skírnarfontur voru gefnir Hafnarfjarðarkirkju. Með í gjöfinni var ljósahjálmur sem er innst í kirkjuskipinu, auk kaleiks, patínu, brauðöskju og hárra silfraðra ljósastika á altari. Altaristaflan, sem sýnir upprisu Jesú, er eftir danska málarann R. J. Carlsen. Jón Þórarinsson cand. theol., síðar skólastjóri Flensborgarskóla, keypti altaristöfluna í Kaupmannahöfn árið 1879. Mun hann einnig hafa keypt þar skreytingar á prédikunarstólinn og silfurskírnarskál. Páll Halldórsson snikkari smíðaði prédikunarstólinn 1880 og að líkindum skírnarfontinn einnig.

Á norðurvegg í kór er útskorin minningartafla um þá sem fórust með togaranum Field Marshall Robertson árið 1925. Á suðurvegg er mynd af séra Árna Björnssyni, máluð af Brynjólfi Þórðarsyni.

Kvenfélag Hafnarfjarðarkirkju gaf altarisgripi úr silfri sem Leifur Kaldal gullsmiður teiknaði og smíðaði í tilefni 20 ára afmælis kirkjunnar 1934. Þeir eru hinir mestu kjörgripir og voru til sýnis á heimssýningunni í New York 1936. Kvenfélagið hefur ennfremur gefið nær allan messuskrúða þ.á.m. hátíðarhökul á 75 ára afmæli kirkjunnar, sem nunnur í Karmelklaustri í Hafnarfirði gerðu. Afkomendur Jóels Fr. Ingvarssonar meðhjálpara gáfu páskahökul sem þær gerðu einnig af sama tilefni. Kirkjan á fjölda annarra fagurra gripa sem velunnarar hafa fært henni m.a. fagurt prédikunarstólsklæði sem Sigrún Jónsdóttir kirkjulistarkona gerði og gaf kirkjunni til minningar um hjónin Guðfinnu Sigurðardóttur og Emil Jónsson og nefndi, „Lífsins tré með jólastjörnu“. Bænakertastjaki úr messingi sem arkitektar Strandbergs hönnuðu var vígður í kirkjunni eftir að kristnihátíðarár hafði verið hringt inn á miðnætti 1. janúar 2000.

Steindir gluggar

Stjörnuglugginn á framhlið kirkjunnar var fyrsti steindi gluggi hennar. Hann var settur upp 1966 í tilefni 50 ára afmælis kirkjunnar tveimur árum fyrr. Kvenfélagið hafði forgöngu um smíði og uppsetningu 20 steindra glugga og lauk verkinu 1971. Fyrirtækið Oidtmann í Linnich í Þýskalandi smíðaði gluggana samkvæmt teikningum Fritz Oidtmann.

 

     

    Strandgötu, 220 Hafnarfjörður. Sími 520-5700 , fax 555-1294 · Kerfi RSS