Hafnarfjarðarkirkja

 

Kórar

Þrennir kórar eru starfandi í Hafnarfjarðarkirkju:

Barbörukórinn var stofnaður í janúar 2007 af Guðmundi Sigurðssyni, organista Hafnarfjarðarkirkju.  Kórinn er skipaður vel menntuðum atvinnusöngvurum, sem flestir eru Hafnfirðingar, og dregur nafn sitt af heilagri Barböru en stytta af dýrlingnum fannst árið 1950 við uppgröft í Kapelluhrauni í Hafnarfirði.  Kórinn kemur reglulega fram við helgihald Hafnarfjarðarkirkju og er þar mikil áhersla lögð á flutning vandaðrar kirkjutónlistar enda er aðstaðan í kirkjunni í miklum sérflokki. Nýverið flutti kórinn ásamt kammersveit Missa Brevis nr. 7 í B dúr eftir Haydn við útvarpsmessu í kirkjunni og við orgelvígslu í lok nóvember sl. flutti kórinn kantötuna “Nun komm der Heiden Heiland” eftir J.S. Bach með barokkhljóðfærum.  Við slík tækifæri taka kórfélagar gjarnan að sér einsöngshlutverk í verkunum.  Þá flytur kórinn mótettur og smærri verk úr ýmsum áttum við messur í kirkjunni og á tónleikum.   Kórinn tók þátt í frumflutningi nýrra laga Jóns Ásgeirssonar við Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Hallgrímskirkju árið 2009.  Þá hefur Barbörukórinn í Hafnarfirði frumflutt fjölda nýrra útsetninga á þjóðlegum kirkjutónlistararfi Íslendinga.  Við orgelvígslu í Hafnarfjarðarkirkju 30. nóv. sl. flutti kórinn t.a.m. nýjar útsetningar eftir þjóðlagafræðinginn Smára Ólason sem hann tileinkaði kórnum sérstaklega og einnig flutti kórinn fjölda útsetninga hans á tónleikum í október 2009.

Lux Aeterna er óformlegur grasrótarsönghópur í Hafnarfjarðarkirkju sem skipaður er áhugafólki um gregorssöng.  Meðlimir hópsins leiða söng við við gregorskar morgunmessur í Hafnarfjarðarkirkju á miðvikudagsmorgnum og standa jafnframt fyrir tíðasöng í kirkjunni.  Umsjón með starfi hópsins er Guðmundur Sigurðsson, organisti Hafnarfjarðarkirkju. Allir áhugasamir eru velkomnir að syngja með hópnum.

Barna og unglingakór Hafnarfjarðarkirkju sem hefur verið virkur kór í Hafnarfjarðarkirkju í mörg ár og syngur við hinar ýmsu helgiathafnir í kirkjunni. Kórinn er undir stjórn Helgu Loftsdóttur kórstjóra og Önnu Magnúsdóttur píanóleikara.

Sjá heimasíðu Barna- og unglingakórsins hér.

     

    Strandgötu, 220 Hafnarfjörður. Sími 520-5700 , fax 555-1294 · Kerfi RSS