Hafnarfjarðarkirkja

 

Upplýsingar um athafnir

Hvað er kristin trú? Trúhneigð er manninum eðlislæg, en að vera kristin manneskja er viljaákvörðun, að fylgja Kristi og leyfa honum að móta líf sitt. Trú lærir maður einungis með því að trúa, með því að biðja, með því að rækja, iðka trúna. Þú lærir að synda með því að synda, hjóla með því að hjóla.

Eins er með trúna.

Trúrækni er lífsmáti þar sem við leitumst við að móta líf okkar svo að það verði ummyndað af trúnni, voninni og kærleikanum, því sem aldrei verður frá okkur tekið, að eilífu. Kristin trú er að fylgja Jesú Kristi, að elska Guð og biðja, lesa Biblíuna og íhuga orð hennar, biðja í Jesú nafni, rækja guðsþjónustu kirkjunnar og leitast við að lifa í samræmi við orð Guðs og vilja, elska Guð af hjarta og náungann eins og sjálfan sig.

Messa

Sunnudagurinn er dagur Drottins. Þá er almenn guðsþjónusta safnaðarins í kirkjunni. Guðsþjónusta er sérhver samkoma safnaðar í nafni Jesú Krists. Postulasagan greinir frá því er trúin á Krist breiddist út og mikill fjöldi karla og kvenna gerðist lærisveinar.

„Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar. (P. 2.42) Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. P.2. 46

Þegar neytt er heilagrar kvöldmáltíðar í guðsþjónustunni, þá er guðsþjónustan kölluð messa, þótt málvenja sé að blanda þessum heitum saman. Að taka þátt í sameiginlegri guðsþjónustu á sunnudegi er hluti af því að halda hvíldardaginn heilagan.

Og er stundin var komin, gekk hann til borðs og postularnir með honum. Og hann sagði við þá: Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður, áður en ég líð. Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar, fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki. Þá tók hann kaleik, gjörði þakkir og sagði: Takið þetta og skiptið með yður. Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins, fyrr en Guðs ríki kemur. Og hann tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu. Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt. Lk. 22.14-20

Í stærri og fjölmennari söfnuðum í þéttbýli er messað hvern helgan dag, en í smærri söfnuðum á landsbyggðinni er guðsþjónustuhald samkvæmt ákveðinni reglu til skiptis í kirkjunum í prestakallinu. Það eru því ekki alir sem eiga kost á því að sækja guðsþjónustu hvern helgan dag, heldur eiga samtal við Guð í einrúmi eða með fjölskyldu sinni.

Jesús sagði: ,,En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. Mt.6.6.

Trúin hefur tvær meginvíddir. Önnur tengir Guð og mann, hin er samfélag hinna kristnu innbyrðis. Kristinn maður leitar samfélagsins við Guð í bæn sinni og íhugun og í samfélagi trúbræðra og trúsystra . Kristinn söfnuður kemur saman til guðsþjónustu. Það er eðli hans. Þar fræðist hann um Guð og vilja hans með því að hlusta á Orð hans í lestrum úr Biblíunni og útleggingu eða túlkun þess í predikuninni. Hann lofar Guð með sálmum og söngvum og biður til hans og þakkar honum í bæn og söng.

,,Og svo bar við er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum”. Lk. 24.30-31.

Eins og allt líf kristins manns ætti að vera guðsþjónusta, þá er hlutverk guðsþjónustunnar sem fram fer í kirkjunni ekki bundið við þann tíma einan sem dvalið er í kirkjuhúsinu, heldur breytist þjónustan við Guð í húsi hans í þjónustuna við náungann úti í hinu daglega lífi. Guð kallar söfnuðinn saman og sendir hann út til þjónustu. Þetta er einkenni guðsþjónustunnar. Almenn guðsþjónusta safnaðarins, eða mesan, fer fram samkvæmt ákveðnum reglum sem Þjóðkirkjan hefur samþykkt. Form messunnar er að finna í handbókum kirkjunnar. Það er Handbók eða helgisiðabók kirkjunnar frá 1981 og einnig er það að finna fremst í Sálmabók kirkjunnar frá 1997.

Skírn

Skírn er innganga í kirkju Krists. Hún hefur tíðkast frá öndverðu í kristninni og er sáttmálstákn. Skírn er ekki einkaathöfn fjölskyldu, heldur athöfn kirkjunnar í heild. Þegar skírn fer fram utan guðsþjónustunnar, er kirkjan, söfnuðurinn, þó ekki fjarri. Þau sem eru viðstödd skírnarathöfn, eru fulltrúar kirkjunnar í heild og fyrir kirkjunnar hönd vottar að viðkomandi skírn.

Prestar kirkjunnar annast skírnarþjónustu í guðsþjónustu, í sérathöfnum í kirkjunni, kapellunni sem tekur um 25 manns, eða í heimahúsum, allt eftir óskum foreldra.

Foreldrar sýna börnum kærleika sinn og elsku með því að færa þau til skírnar. Þeir sýna einnig kærleika sinn í verki með því að láta ekki þar við sitja heldur axla þá ábyrgð sem skírn barnsins leggur þeim á herðar, að ala það upp í ljósi fyrirheita skírnarinnar, kenna því að elska Guð, tilbiðja hann, varðveita orð hans og sakramenti og þjóna náunganum í kærleika, eins og segir í ávarpi prestsins að lokinni skírninni.

Kirkjan kemur til móts við foreldra með því að bjóða til barnastarfs í söfnuðinum. Það er gæfa margra barna að eignast í vöggugjöf trú á Guð og bænina. Börn sem læra vers og bænir, heima og í kirkjunni, búa að því allt lífið. Bænin er besta veganestið til lífsferðar.

Hvað er skírn?

Eftir upprisuna kallaði Jesús lærisveinana til fundar við sig í Galíleu. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Matt. 28. 18-20 Þessi hvatning Jesú er oft nefnd skírnarskipunin.

Í henni býður Jesús lærisveinum sínum að gera alla að lærisveinum, hann segir þeim að skíra alla þá sem vilja verða lærisveinar hans og hann segir þeim að kenna öllum orð hans og vilja eins og við lesum í Biblíunni – í Nýja testamentinu

Það er í boði Jesú sjálfs, samkvæmt orðum hans, að við látum skíra börnin okkar.

Við skírnarathöfnina er einnig lesinn þessi texti:
“Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma. Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.” – Mark 10. 13-16

Barn er skírt af því að Guð elskar það og vill votta því elsku sína.
Barn er skírt af því að foreldrar elska það og vilja fela það góðum Guði.

Það er algengast að nafn eða nöfn barns sé nefnt fyrsta sinni við skírnina. Lög um mannanöfn marka umgjörð nafngjafa. Nauðsynlegt er að láta prest vita með góðum fyrirvara um nafn og nöfn skírnarvotta, sem eru tveir hið minnsta Ef nafn er ekki til á mannanafnaskrá er nauðsynlegt að sækja um leyfi fyrir því til Mannanafnanefndar, sem reynir að afgreiða málin snarlega.
 

Skírnarsálmar
252: Ó, blíði Jesús, blessa þú
250: Til mín skal börnin bera
251: Andi Guðs sveif áður fyr 
253: Guð faðir sé vörður og verndari þinn
255: Ég grundvöll á, sem get ég treyst 
26: Nú gjaldi Guði þökk 
585: Full af gleði yfir lífsins undri
503: Ó, Jesús, bróðir besti
504: Ástarfaðir himinhæða

Ferming

Ferming er guðsþjónusta, þar sem skírður einstaklingur staðfestir með játningu sinni þá játningu, sem aðrir fóru með fyrir hans hönd á unga aldri. Fermingin fer fram, þegar viðkomandi barn hefur lokið fermingarundirbúningi og fræðslu fyrir athöfnina.
Fermingarbörn eru klædd hvítum kirtlum og sitja í kór kirkjunnar. Tónlist og sálmar eru gjarnan valin úr æskulýðsstarfi kirkjunnar, lög sem fermingarbörnin þekkja.

Þegar fermingarbarn er kallað upp að altari með fullu nafni til þess að staðfesta skírnina er það spurt; viltu leitast við að hafa frelsarann Jesú Krist að leiðtoga lífsins? Fermingarbarn svarar játandi og krýpur síðan niður. Prestur leggur hönd á höfuð þess og segir; almáttur Guð þinn ástríki faðir, styrki þig og leiði að eilífu. Þá rís fermingarbarn upp og tekur í hönd prestsins og mælir ritningargreinina, sem fermingarbarnið hefur sjálft valið úr ritningunni.

Altarisganga er hluti fermingarinnar og fer hún fram í fermingarmessunni og fer fram eins og í öllum öðrum messum vetrarins í kirkjunni.

Fermingarbörn eru beðin að vera dugleg að sækja messur með fjölskyldum sínum og þau skulu mæta í messur ekki sjaldnar er 10 sinnum yfir veturinn. 

Hjónavígsla

Kirkjuleg hjónavígsla eða gifting, fer lang oftast fram í kirkju. Hún getur þó einnig farið fram á öðrum stöðum eftir samkomulagi við prest. Hin veraldlega umgjörð hjónavígslunnar fer eftir lögum um Stofnun og slit hjúskapar.

Hjónaefni skulu vera 18 ára eða eldri og ekki haldin sjúkdómum, sem valdið geta meinbugum á hjúskap. Ekkjur eða ekklar, sem stofna á ný til hjúskapar skulu hafa lokið búskiptum. Þá verða einstaklingar, sem áður hafa verið í hjónabandi að hafa gengið frá lögskilnaði. Skilnaður að borði og sæng nægir þar ekki.

Tveir svaramenn skulu vera viðstaddir athöfnina og eru þeir vottar þess að hún hafi farið fram auk þess að vottfesta upplýsingar, sem hjónaefnin gefa sjálf. Hjónavígsluathöfn í kirkju getur verið með ólíkum hætti hvað varðar hina ytri umgjörð.

Einfaldasta formið er þegar brúðhjón ganga saman til kirkju. Stundum er þessi athöfn án tónlistar en oftar kjósa brúðhjónin að organisti leiki brúðarmars.

Það form, sem er algengast í dag er þegar brúðgumi og svaramaður hans mæta tímanlega til kirkju og sitja hægra megin, þegar horft er inn eftir kirkjunni. Þeir rísa úr sætum og taka þannig á móti gestum.

Brúður gengur inn kirkjugólf til vinstri handar svaramanni sínum og sitja þau vinstra megin í kór kirkjunnar, gegnt brúðguma og svaramanni hans. Hjónaefnin sitja í sætum nær söfnuði.

Eftir brúðarmarsinn er leikinn eða sunginn sálmur til helgunar brúðhjónum og þeirra athöfn. Þá flytur prestur bæn frá altari.

Þá er aftur flutt tónlist eftir óskum brúðhjóna, sem þau velja í samráði við organista og prest.

Þá ganga brúðhjón fram fyrir altari þar sem prestur flytur ávarp til þeirra og les úr ritningunni um hjónabandið og sambúð læriveinanna. Þar á eftir fylgir hjónavígslan sjálf með spurningum til brúðhjóna það er vígsluheiti. Þá er handsal sáttmálans, yfirlýsing, bæn og blessun. Séu hringar settir upp í athöfninni eru þeir settir upp fyrir handsal. Brúðhjón krjúpa undir bæninni. Þá rísa brúðhjón upp og óska hvort öðru til hamingju með kossi og ganga síðan til sæta. Brúðurin í sama sæti og áður og brúðgumi við hlið hennar. Svaramenn sitja nú gegnt brúðhjónum.

Eftir vígsluna er flutt tónlist og síðan ganga brúðhjón úr kirkju og er brúður brúðguma til hægri handar.

Hjónavígsla getur einnig farið fram í almennri messu safnaðarins. Tónlist, sem er valin til flutnings í athöfninni þarf að hæfa tilefninu og helgidóminum.

Af brúðarsálmum í sálmabók má nefna sálma nr:
261: Ef heimili og húsin með
262: Ó himnafaðir, hjá oss ver
263: Vor Guð, í Jesú nafni nú
264: Heyr börn þín, Guð faðir
265: Ó lífsins faðir, láni krýn
590: Faðir vor, þín eilíf elska vakir
716: Kærleikans faðir allri hugsun
717: Hve gott og fagurt og indælt

Einnig má nefna sálma nr.
4: Dýrð í hæstum hæðum
22: Þú, mikli Guð ert með oss
26: Nú gjaldi Guði þökk
357: Þú, Guð, sem stýrir stjarna her
533: Ljúk upp, mig langar innar
544: Dýrlegi Jesús, Drottinn allra
545: Vér fetum brautu bjarta
572: Lofsöngur ómar
701: Guð faðir, himnum hærri
703: Líður að dögun
712: Dag í senn
731: Drottinn Guð af himni háum
732: Leið mig, Guð
747: Laudate omnes gentes
748: Laudate Dominum
749: Lofa Guð, mín sál
750: Confitemini Domino
751: Oculi nostri
752: Vona á Guð

Útför

Útför er sérstök tegund guðsþjónustu, þar sem látinn er kvaddur með bæn og þakkargjörð og falinn vernd Guðs í trú á sigur hins upprisna Drottins og frelsara. Bænin og orðið skipa öndvegið í útförinni og í þá þjónustu sækja aðstandendur sér styrk og huggun. Form á útför getur verið breytilegt en oftast fer útför á Íslandi fram með eftirfarandi hætti:

1. Forspil, leikið á orgel
2. bæn, prestur flytur bæn frá altari
3. sálmur/tónlist.
4. ritningarlestur.
5. sálmur/tónlist.
6. ritningarlestur
7. sálmur/tónlist
8. minningarorð
9. sálmur/tónlist
10. bæn og Faðir vor
11. sálmur/tónlist
12. moldun og blessun
13. sálmur.
14. eftirspil og kista borin úr kirkju.

Þetta form eða þessu líkt er algengasta formið á útför. Stundum eru fengnir einsöngvarar eða einleikarar til að flytja tónlist. Ástvinir sitja venjulega fremst til vinstri í kirkjunni en líkmenn, þ.e. þeir sem bera kistuna fremst hægra megin. Líkmenn eru annaðhvort 6 eða 8. Við undirbúning á útfararathöfn eru prestur og organisti aðstandendum til aðstoðar á frekari útfærslu athafnarinnar. Útfararstofur sjá um allan ytri umbúnað athafnarinnar og aðstoða aðstandendur eins og kostur er. Blómin eru tákn um sköpun Guðs, sem er ný á hverjum degi. Í sorgarkransi minna þau okkur á nálægð Guðs og með blómunum viljum við tjá samúð okkar.

Tekið af www.kirkjan.is 

 

Strandgötu, 220 Hafnarfjörður. Sími 520-5700 , fax 555-1294 · Kerfi RSS