Grensáskirkja

 

Fjölskylduguðsþjónusta í Grensáskirkju 18.11.18 kl. 11

Bústaðakirkja og Grensáskirkja bjóða fjölskyldur af öllum gerðum velkomnar til guðsþjónustu í Grensáskirkju næstkomandi sunnudag, þann 18. nóvember, kl. 11 með þátttöku sunnudagaskólans úr Bústaðakirkju. Uppbyggjandi boðskapur og líflegur söngur í umsjá Daníels, Sóleyjar, Ástu organista, félaga í Kirkjukór Grensáskirkju, fermingarbarna vorsins og sr. Maríu. Barna- og stúlknakórar Bústaðakirkju syngja undir stjórn Svövu Kristínar Ingólfsdóttur.  Eitthvað gott að maula á eftir. Verið öll velkomin.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 13/11 2018

Kirkjuklukkum hringt gegn einelti

Núna kl. 13, þann 8. nóvember, hringjum við klukkum Grensáskirkju í 7 mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar. Þetta er liður í alþjóðlegu, árlegu átaki gegn einelti.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 8/11 2018

Vikan í Grensáskirkju

Á þriðjudögum er kyrrðarstund í hádeginu og léttur málsverður á eftir. Á miðvikudögum mæta eldri borgarar kl. 14-15.30 og spila bingó fyrsta miðvikudag mánaðarins. Helgistund á undan og kaffi á eftir. Á fimmtudögum er núvitundariðkun kl. 18.15-18.45. Verið velkomin.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 6/11 2018

Tvær messur sunnudaginn 4. nóvember

Sunnudagsmorgun í Grensáskirkju hefst kl. 10 með morgunkaffi og svo bænastund í kapellunni kl. 10.15. Kl. 11 hefst messa með hefðbundinni áhöfn, Ásta á orgelinu og félagar úr Kirkjukór Grensáskirkju leiða söng, sr. María prédikar og þjónar ásamt messuhóp 1 og nokkrum fermingarungmennum. Kl. 17 er seinni messa dagsins, svonefnd Batamessa. Hún er á vegum 12-spora starfsins og Vina í bata. Sólrún, Björn og þeirra fólk úr 12-spora starfinu leiða stundina ásamt Ástu organista og sr. Maríu. Bjarki Björnsson leikur á gítar. Á eftir er hressing í safnaðarheimilinu. Þið eruð öll velkomin.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 29/10 2018

Sr. Karl Sigurbjörnsson segir frá Ísraelsferð

Í nokkur skipti á hverju misseri er eldri borgurum í Grensássókn boðið til síðdegissamveru í kirkjunni sinni. Slík samvera verður næst miðvikudaginn 31. október. Stundin hefst með helgistund í kirkjunni kl. 17.30 og síðan kemur góður gestur. Að þessu sinni höfum við fengið sr. Karl Sigurbjörnsson til að koma og segja frá ferð sem þau hjónin fóru nýlega í til Landsins helga ásamt hópi fólks. Létt máltíð er borin fram í safnaðarheimilinu um hálf sjö og kostar hún kr. 1.000.- Skráning er í síma 528 4410 og lýkur henni mánudaginn 29.10.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 29/10 2018

Kyrrðarstund á þriðjudögum kl. 12

Í hádeginu á þriðjudögum er boðið upp á kyrrðar- og fyrirbænastund í Grensáskirkju. Stundin hefst með orgelleik, síðan er sunginn sálmur og hlýtt á gott orð. Að því búnu er samfélag um máltíð Drottins og bænarefni borin fram. Koma má bænarefnum til Þuríðar kirkjuvarðar eða sr. Maríu í síma 528 4410. Eftir stundina er borin fram létt máltíð gegn vægu gjaldi. Verið velkomin í kirkjuna ykkar.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 28/10 2018

Núvitundariðkun á kristnum grunni

Boðið er upp á núvitundariðkun í kapellu Grensáskirkju alla fimmtudaga kl. 18.15-18.45. Í núvitund könnum við líðan okkar, hugsanir og tilfinningar og hvílum í augnablikinu og andardrættinum sem er Guðs gjöf. Byggt er á bókinni “Núvitund – Hagnýt leiðsögn til að finna frið í hamstola heimi” eftir Mark Williams og Danny Penman sem nýlega kom út hjá Forlaginu í þýðingu Guðna Kolbeinssonar og sett í samhengi við þann kristna grundvöll sem kirkjustarfið hvílir á. Umsjón hefur dr. María Ágústsdóttir sem hefur áratuga reynslu af iðkun og kennslu í kristinni íhugun. Skráning er óþörf en stundvísi mikilvæg. Gott er að koma með hlýja sokka og teppi.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 23/10 2018

Messa á siðbótardaginn 28.10.

Sunnudaginn 28. október er siðbótardagurinn víða haldinn hátíðlegur þó rétt dagsetning sé 31. október. Hér í Grensáskirkju syngjum við sálm eftir Lúther, klæðumst rauðu og veltum fyrir okkur áhrifum þess að boða fagnaðarerindið á öldum ljósvakans. Ásdís Björg Kristinsdóttir frá útvarpsstöðinni Lindinni kynnir okkur starfsemina þar og samskot verða tekin til Lindarinnar. Við fáum líka einsöng í tilefni af Söngskóladeginum en það er söngkonan Ragnheiður Jóhanna Júlíusdóttir sem heimsækir Grensáskirkju. Prestur er sr. María Ágústsdóttir, Ásta Haraldsdóttir leikur undir söng félaga í Kirkjukór Grensáskirkju og messuhópur 4 þjónar ásamt fermingarbörnum vorsins. Heitt á könnunni frá kl. 10, bænastund í kapellu kl. 10.15. Sunnudagaskólinn er í Bústaðakirkju.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 23/10 2018

Fræðsla um samskipti við önnur trúarbrögð

Mánudaginn 22. október kl. 15-16 býður Hjálparstarf kirkjunnar til fræðslu um samskipti við önnur trúarbrögð í kennslustofu safnaðarheimilis Grensáskirkju. Formaður starfshóps þjóðkirkjunnar um samskipti við önnur trúarbrögð, Bjarni Randver Sigurvinsson, guðfræðingur og trúarbragðafræðingur, annast fræðsluna. Fjallað verður um ólíka trúarhópa og hvernig hægt sé að byggja brýr á milli þeirra. Boðið er upp á léttar veitingar. Skráning er hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, sími 528 4400, netfang help@help.is.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 16/10 2018

Sr. Ragnar Gunnarsson þjónar á sunnudaginn

Hér í Grensáskirkju hefst sunnudagurinn með morgunverði kl. 10 sem messuþjónar reiða fram gegn vægu gjaldi (kr. 200.- á mann, hámark kr. 500.- á fjölskyldu). Bænastund er í kapellu kl. 10.15 en messan hefst kl. 11. Sr. Ragnar Gunnarsson, kristniboði, þjónar að þessu sinni en bæði organistinn og þjónandi sóknarprestur eru í stuttu vetrarfríi. Félagar í Kirkjukór Grensáskirkju leiða söng. Samskot eru tekin til Sambands íslenskra kristniboðsfélaga. Molasopi á eftir. Sunnudagaskólinn er í Bústaðakirkju. Verið velkomin í kirkjurnar í hverfinu ykkar.

Áslaug Sif Guðjónsdóttir, 16/10 2018

Grensáskirkja er opin alla virka daga frá kl. 10 til 15. Sími kirkjunnar er 528-4410.

 

Grensáskirkja, Háaleitisbraut 66, 103 Reykjavík. Sími 5284410 · Kerfi RSS