Dómkirkjan

 

Örhugvekja séra Elínborgar á víðsjárverðum tímum Í Matteusarguðspjalli er ritað. „Verið ekki áhyggjufull um líf yðar. “ Það eru margir áhyggjufullir um þessar mundir. Þetta eru vissulega víðsjárverðir tímar sem við lifum. FORDÆMALAUSIR eins og margítrekað hefur verið síðustu daga. Mörgum líður eins og þeir séu staddir í kennslubók í sagnfræði eða hafi farið 100 ár aftur í tímann. En þá hljóma þessi orð Jesú: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar! Þetta hljómar í senn fjarstæðukennt en líka svo uppörvandi. Jesús veit að lífsbaráttan er oft á tíðum erfið og við getum vel ímyndað okkur hvað flensur og sjúkdómar ógnuðu lífi manna fyrr á öldum, engu að síður er boðskapur hans sá að þrátt fyrir þetta má ekki láta áhyggjurnar taka of mikið pláss. Það sama á við núna á þessum „fordæmalausu“ tímum. Við megum lifa djarflega án þess að við hegðum okkur gáleysislega. Við megum lifa í æðruleysi enda þótt við förum að tilmælum landlæknis og sóttvarnarlæknis. Við megum lifa áhyggjulaus einn dag í einu enda þótt við gerum okkur ljóst að við gætum þurft að takast á við veikindi og erfiðleika síðar. Hjá Matteusi er líka ritað: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ Ég hygg að þetta séu gagnleg orð til að hafa í huga til að létta gönguna þessa dagana. Við skulum ekki hafa áhyggjur af morgundeginum, því við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því fyrirfram sem ekki hefur þegar gerst! Áhyggjur hafa tilhneigingu til að minnka okkur og svipta okkur gleðinni og á víðsjárverðum tímum ættum við einmitt að hlúa að gleðinni og æðruleysinu. Lifa einn dag í einu, eitt andartak í einu. Lóan er komin og ég sá fyrir utan elliheimilið Grund í gær að krókusarnir eru farnir að stinga sér upp úr grassverðinum. Þetta minnir okkur á að njóta þess fagra og smáa. Njóta fegurðar náttúrunnar og augnabliksins. Vera til staðar í því sem gerist þegar það gerist. Ekki hafa áhyggjur af morgundeginum!

Laufey Böðvarsdóttir, 19/3 2020 kl. 11.59

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS