Dómkirkjan

 

Gamlárskvöld 2018, prédikun séra Sveins Valgeirssonar.

 

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Leiðarlok.

 

Að lokum eftir langan, þungan dag,

Er leið þín öll. Þú sezt á stein við veginn,

Og horfir skyggnum augum yfir sviðið

Eitt andartak

 

Og þú munt minnast þess,

Að eitt sinn, eitt sinn, endur fyrir löngu

Lagðir þú upp frá þessum sama stað.

 

Svona yrkir Steinn Steinarr, tilvistarlegur jafnan.

Hann veltir fyrir sér þeirri ferð sem mannsævin er og undir niðri kraumar spurning um tilgang og merkingu; þótt hann orði það ekki beint.

 

Það má jafnvel ímynda sér að hann sé að kallast á við Einar Ben; jafn ólíkir og þeir annars voru, eins og Einar yrkir í þessu ljóði:

 

Mitt verk er, þá ég fell og fer,

eitt fræ, mitt land, í duft þitt grafið

mín söngvabrot, sem býð ég þér,

eitt blað í ljóðsveig þinn vafið.

En innsta hræring hugar míns,

hún hverfa skal til upphafs síns,

sem báran – endurheimt í hafið.

 

 

Báðir eru þeir á þeim slóðum að lífið sé eins og hringrás og merkingin sem við gefum því helgist annars vegar af starfi okkar; því sem við viljum beina athygli okkar og orku að; það virðist kannski ekki alltaf vega svo þungt en er samt eins og frjókorn sem gefur af sér annað líf, snertir við öðrum. Og á hinn bóginn benda þeir á að upphaf okkar er jafnframt lokatakmarkið.

 

Í ljóði Steins sest maðurinn á nafna hans og lítur til baka yfir farinn veg, sem um leið er vegurinn heim; svo ég vitni nú í enn eitt skáldið, Magga Eiríks og Pálmi Gunnars söng svo fallega hérna um árið;

 

Og margt ber við á leiðinni.

 

En það sem gerðist á veginum er ekkert annað en það sem þú komst að; sumt var að vilja þínum og annað ekki; Það er eins og gengur; en það varst þú og enginn annar sem tókst á við það allt.

 

Steinn nefnir ekki Guð, en við megum vel gera það. Því rétt eins og allt á sér upphaf í Guði þá er hann líka lokatakmarkið.

 

Það er nokkuð merkilegt að lesa þessi ljóð og hlusta á það sem ekki er sagt; að það er dauðinn sem gefur starfinu og spurningunum um tilgang; merkingu, eða merkingarleysi. Ómar hér að baki spurning predikarans ; „Hvaða ávæning hefur maðurinn af öllu erfiði sínu sem hann streitist við undir sólinni”?

 

Úr því að við deyjum öll á endanum; skiptir þá nokkuð öllu máli hvað við gerum? Þannig séð, úr því að hið mikla strokleður strokar út allt sem maður gerir og mann sjálfan á endanum líka?

 

Skiptir þetta einhverju máli?

 

 

Það eru áramót.

Hringnum lokað og nýr er tekinn við sem auðvitað byggist líka á því sem var; undan því komumst við ekkert. Hugurinn hvarflar óneitanlega til hins fyrra um leið og við horfum fram á veg. Við förum yfir orð okkar og gerðir, allt það sem mætti okkur; sumt að því á okkar valdi, annað ekki og vafalítið var töluvert einhvers staðar á gráu svæði; hefðum við getað beitt okkur meir eða betur?

 

Öll „ef” – in sækja á. Hefði ég átt að gera eitthvað, hver er ég að ætla að skipta mér af.

Og hugsanlega; ef til vill spyrðu um leið hver þú sért í því öllu.

 

Er ég meira en athafnir mínar og orð, eða ekki nema sú hugmynd sem ég geri mér um sjálfan mig? Eða aðrir? eða einmitt ekki?

 

 

Það rifjast upp fyrir mér skrýtla sem ég las á feisbókinni fyrir nokrum árum og get ekki gleymt:

 

Þannig var að hann fór á kaffihús, heimspekingurinn Decartes og panta sér kakó. Servitrísan spurði Decartes: Viltu rjóma útí kakóið? Decartes svaraði:

njjaa, nei ég hugsa ekki.

 

PÚFF og hann hvarf með það sama.

 

Sjálfsagt ekki í fyrsta sinn sem snúið er út úr Cógitóinu hans Descartes en hinu er ekki að neita að þessi rökleiðsla hans og niðurstaða hennar er mikilvæg. Ég hugsa þess vegna er ég; sagði hann; kannski er þetta frum sjálfs styrkingin; grunnurinn að því að átta sig á því að hvort sem þér líkar betur eða verr, þá snýst þetta um þig.

Og því hvernig þú kemur fram við aðra.

 

 

Hver ertu: Ertu það sem þú gerir? All nokkuð hefur vrið rætt um Kulnun udanfarið; nokkurn veginn það sama og áður var kalla að brenna út eða upp, hvort tveggja jafn alvarlegt og er afleiðing þess, held ég að vera og mikið. ætla of mikið en ætla sér ekki af.

 

Kulnun vegna þess að hlutverkin okkar eru of mörg?

 

Erum við kannski of upptekin af því hver við séum, og mættum ef til vill spyrja frekar hvernig við erum? Hættum að hengja nafnorð á okkur, skreyta okkur með hlutverkum  og reynum frekar að einbeita okkur að því hvernig við gerum hlutina. Að einkunnirnar um okkur séu ekki fyrst og fremst kategóríur og hlutverk sem við verðum að standa okkur 100% í, hvort sem það er í vinnu, heimili eða í frístundum, að ég tali nú ekki um á samfélagsmiðlum.

 

Ég spurði áðan: skiptir þetta brölt manns allt einhverju máli?

 

Ég vil gerast svo djarfur að segja: Já það skiptir máli. Það skiptir máli hvað þú gerir og kannski skiptir ennþá meira máli hvernig þú gerir það.

 

Undir augliti Guðs.

Og í viðmóti samferðarmanna þinna og samskiptum þínum við þá.

Eftir því sem ég kem oftar í sorgarhús; reyni að horfa í kalda og ósveigjanlega ásjónu dauðans með fólki sem hefur misst; allt of oft við ótímabæran dauða; þá sannfærist ég betur og betur um það að skikkanleg samskipti er það dýrmætasta; krónur til eða frá í launaumslaginu eru þar ekki í fyrsta sæti þó svo við vitum öll að ákveðinn hofmóður felist í því að tala þannig um efnahagslega afkomu eins og hún skipti ekki máli. Vissulega gerir hún það.

En burtséð frá því; það kemur ekkert í staðinn fyrir það að eiga góð samskipti hvert við annað. Frægð, frami og ríkidæmi?? Ég veit það ekki, segir ekki einhvers staðar í Orðskviðunum að betri sé þurr brauðbiti með ró en fullt hús af fórnarkjöti með deilum.

Að samskiptin einkennist af eindrægni, heiðarleika og kærleika; samstöðu og samkennd. Og húmor; að við tökum hlutina; hvert annað og okkur sjálf hæfilega hátíðlega.

 

 

Dúnmjúkum höndum strauk kulið um krónu og ax

Og kvöldið stóð álengdar, hikandi feimið og beið.

Að baki okkur týndist í mistrið hin langfarna leið

Eins og léttstigin barnsspor í rökkur hins hnígandi dags.

 

Og við settumst við veginn tveir ferðlúnir framandi menn

Eins og fuglar, sem þöndu sinn væng yfir úthöfin breið.

Hve gott er að hvíla sig rótt, eins og lokið sé leið,

Þótt langur og eilífur gangur bíði manns enn

 

 

Steinn er enn við leistann sinn; hann yrkir um vegferð mannsins, mark hans og tilgang.

 

En ég held að það sé ekkert annað í boði en að halda á. Gangan heldur áfram. Sem betur fer.

 

Og ég held það sé margt að hlakka til á þeirri göngu. Það veltur svolítið á viðhorfi þínu; með hvaða hugarfari þú tekur á móti því sem ber við á leiðinni. Viljum við byggja upp og líta bjartsýn og jákvæð fram á veg eða ætum við að ergja okkur til öryggis yfir hverju því sem mætir. Það væri nátturulega afleitt að missa af góðum pirringi.

 

Já hver ertu? Kristinn mannskilningur segir að þú  sért sköpun guðs, dýrmætur sem slíkur og í sjálfum þér og um leið samverkamaður Guðs. Þú getur ekki allt og átt ekki að geta allt; en þú mátt þiggja það að lifa náðina sem þér er gefin; að þú mátt vera eins og þú ert; réttlættur og réttlátur.

 

 

Enn þetta ár. Guðspjall gamlárskvölds horfir fram á við – Fíkjutréð, sem eigandanum fannst ekki gera annað en að teppa verðmætt pláss, fær einn annað tækifæri. Vegna þess að víngarðsmaðurinn er miskunnsamur; endurtekning hans er að styðja til þroska það sem lítinn þroska hefur sýnt.  Og tréð þarf ekki að gera allt sjálft; víngarðsmaðurinn ætlar að hlíka að því, gefa því áburð og ljós og aðra virkt og spara hvergi í því.

 

Og það eigum við líka að gera, ekki síst gagnvart þeim sem hafa tapað áttum og eru að reyna að fóta sig að nýju.

 

Hjálpum hvert öðru til góðra verka, styðjum hvert annað; reynum að gera þetta saman.

 

2019 verður frábært ár!

 

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

 

Takið postullegri blessun:

 

Kærleikur Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum. Amen.

Laufey Böðvarsdóttir, 1/1 2019 kl. 1.49

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS