Dómkirkjan

 

Viðtal við Gunnar Kvaran í Fréttablaðinu í gær.

Við köllum þetta stund með tali og tónum,“ segir Gunnar Kvaran um viðburð í Dómkirkjunni á morgun, sunnudag, klukkan fjögur. Þar ætlar hann, ásamt Hauki Guðlaugssyni organista, að leika ljúfa tónlist milli þess sem hann talar um það sem hann kallar andleg málefni. Hvað skyldi felast í því?

„Þetta eru hugleiðingar um mál sem ég hugsa mikið um dags daglega,“ svarar hann og nefnir fyrsta umræðuefnið sem verður um hinn tæknivædda heim, kosti hans og galla. Annað fjallar um samskipti manna og varðveislu mennskunnar. „Svo tala ég um mátt manneskjunnar til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt,“ segir hann og heldur áfram. „Mér finnst alltof fáir gera sér grein fyrir hvað þeir eru miklir áhrifavaldar. Með því er ég í raun að undirstrika hvað manneskjur eru dýrmætar og því er svo mikilvægt að þeim takist að nýta líf sitt á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.“

Máttur bænarinnar er Gunnari líka ofarlega í huga. „Bænir sem beinast að einni manneskju, fjölskyldu eða heilli þjóð eru andlegt afl því þegar fólk biður frá hjartanu þá er það orka sem heldur áfram að vera til,“ segir Gunnar og bætir við að þeir Haukur organisti muni brjóta upp þessar hugleiðingar með fallegri tónlist sem allir geti skilið. „Við spilum verk eftir Bach, Pablo Casals og Schubert,“ lýsir Gunnar og segir um klukkustundar langa dagskrá að ræða í heildina.

Með stundinni í Dómkirkjunni kveðst Gunnar í raun vera að fara inn á nýjar brautir. „Ég hef auðvitað oft haldið tónleika þar sem ég segi frá tónlistinni og höfundum hennar en þarna er ég að blanda saman tónlist og öðrum hugðarefnum. Þetta er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir. Dómkirkjan tók vel á móti mér þegar ég bar þessa hugmynd undir forráðamenn þar og ef vel gengur á morgun er aldrei að vita nema framhald verði á.“gun@frettabladid.is

Laufey Böðvarsdóttir, 21/1 2018 kl. 8.37

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS