Dómkirkjan

 

Dómkórinn frumflytur Magnificat eftir Hildigunni Rúnarsdóttur laugardaginn 9. nóvember kl. 17:00

Tónlistardögum Dómkirkjunnar , sem staðið hafa yfir að undanförnu, lýkur á laugardaginn þegar kórinn frumflytur glænýtt verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur á tónleikum í Dómkirkjunni kl. 17  9 nóvember. Einnig verða flutt nokkur íslensk lög eftir Önnu S. Þorvaldsdóttur, Báru Grímsdóttur o. fl.

Um ríflega 30 ára skeið hefur Dómkórinn staðið fyrir tónlistardögum kirkjunnar undir heitinu Soli Deo Gloria, Guði einum dýrð. Af því tilefni hafa á hverju ári verið frumflutt ný tónverk sem samin eru sérstaklega fyrir kórinn eða organistann. Með þessu móti hefur drjúgur skerfur bæst við íslenska kirkjutónlist fyrir tilverknað kórsins. Að þessu sinni er það nýtt kórverk í tólf köflum, Magnificat eftir Hildigunni Rúnarsdóttur.

„Hildigunnur er úr þekktri tónlistarfjölskyldu í Garðabænum og hóf ung að læra á fiðlu og syngja í Skólakór Garðabæjar. Hún lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1989 með tónsmíðar sem aðalgrein. Því námi hélt hún áfram hjá prófessor Gunter Friedrichs í Hamborg og Svend Hvidtfelt Nielsen í Kaupmannahöfn. Hún hefur samið margskonar tónlist, barnaóperu, dansa fyrir hljómsveit, konserta, að ógleymdum sönglögum og tónverkum. Meðal þeirra síðastnefndu má nefna messu í minningu Guðbrands Þorlákssonar fyrir kór, hljómsveit og einsöngvara en um það verk sagði gagnrýnandi Morgunblaðsins, Jón Ólafur Sigurðsson, meðal annars: Hildigunnur er alin upp í vönduðum kórsöng og fer það ekkert á milli mála í verkum hennar. Þekking hennar og innsæi á textanum eru auðsæ. Tónlistin í öllum sínum fjölbreytileika undirstrikar og dregur fram innihaldið sem varla verður betur gert. Þar má finna innileg ávörp og bænaráköll, blíðu og angurværð, einnig lofsöngva sem dansa af gleði í rytmískum takti. Virðuleika eins og t.d. í upphafi Gloriu og Credo sem og í upphafi og niðurlagi Sanctus með sínum dansandi Hosíanna. Nístandi pínu Jesú í trúarjátningunni og síðan angurværðina í dauðanum, mjúkt millispil sem endar í dansandi gleði upprisunnar þar sem alt og kór tilkynna undriðmeð miklum fögnuði…“

Kórstjóri á tónleikunum er Kári Þormar dómorganisti.

Laufey Böðvarsdóttir, 7/11 2013 kl. 16.34

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS