Djáknafélag Íslands

 

Djáknavígsla 24. september

Elísabet Gísladóttir vígist til djákna við athöfn í Dómkirkjunni, sunnudaginn 24. september n.k., klukkan 11. Elísabet mun gegna djáknaþjónustu við hjúkrunarheimilið Sóltún. Einnig hlýtur Sylvía Magnúsdóttir þá prestsvígslu. Hún mun þjóna sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum. Athöfnin er öllum opin og væri gleðilegt ef djáknar fjölmenntu til vígslunnar.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 21/9 2017

Öldrun og efri árin – námskeið fyrir starfsfólk safnaða

 

Námskeið um öldrun og efri árin verður haldið föstudaginn 29. september.  Fyrirlesarar verða dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og Elísabet Berta Bjarnadóttir, félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

Námskeiðið er einkum ætlað starfsfólki safnaða sem starfa meðal eldra fólks.  Að námskeiðinu standa Eldriborgararáð Reykjavíkurprófastsdæmanna og kærleiksþjónustusvið Biskupsstofu. Skráning fer fram hjá Eldriborgararáði í síma 567-4810 eða eldriborgararad@kirkjan.is. Skráningu líkur miðvikudaginn 27. september.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 21/9 2017

Dagur díakóníunnar og alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga

Sunnudaginn 10. september er dagur diakoniunnar eins og alltaf á 13. sunnudegi eftir trinitatis. Þann dag verður útvarpsmessa kl. 11 frá Áskirkju í Reykjavík. Predikun flytur Ásdís Pétursdóttir Blöndal, djákni, og mun hún ásamt sr. Sigurði Jónssoni, sóknarpresti, þjóna fyrir altari. Kammerkór Áskirkju mun syngja undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar, organista. Allir eru velkomnir í Áskirkju og ef þið eruð ekki við störf í eigin kirkju þennan dag væri gaman að sjá ykkur við messuna.

Þessi dagur er einnig alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Af því tilefni verður kyrrðarstund í Dómkirkjunn kl. 20. Að kyrrðarstundinni standa Geðhjálp, Geðsvið Landspítala, Hugarafl, Landlæknisembættið, Minningarsjóður Orra Ómarssonar, Ný dögun, Pieta, Rauði kross Íslands og Þjóðkirkjan. Einnig verða kyrrðarstundir haldnar á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjanesbæ.

Áhugavert væri að fá nánari fregnir af því sem um verður að vera í söfnuðum Þjóðkirkjunnar þennan dag, hvort heldur er til að fagna degi díakóníunnar eða vegna forvarnardagsins.  Frásagnir mætti gjarnan birta á heimasíðum safnaðanna og samfélagsmiðlum. Einnig má senda umfjöllun til birtingar á vef Djáknafélagsins.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 7/9 2017

Fyrirlestur Evu Bjarkar Valdimarsdóttur um fyrirgefninguna

Séra Eva Björk Valdimarsdóttir prestur í Keflavíkurkirkju verður gestur fyrsta fundar Djáknafélags Íslands á nýju ári. Hún mun flytja okkur fyrirlestur um fyrirgefninguna. Að fyrirlestri loknum verða umræður og fyrirspurnir. Samveruna endum við svo á því að borða saman hádegisverð í boði DÍ.

Vinsamlegast skráið þátttöku á Facebooksíðu Djáknafélagsins.

 

Þórey Dögg Jónsdóttir, 25/1 2017

Styrktarsjóður KFH auglýsir eftir umsóknum

Logo - Kristilegt félag heilbrigðisstéttaKristilegt félag heilbrigðisstétta auglýsir nú eftir umsóknum úr styrktarsjóði KFH. Verkefni skulu tengjast markmiðum félagsins.
Styrktarsjóður KFH var stofnaður árið 2009 til minningar um Vigdísi Magnúsdóttur, hjúkrunarforstjóra og formann KFH um árabil.
Umsóknarfrestur er til 20. janúar 2017.

Nánari upplýsingar um styrkinn og frágang umókna eru hér á vef KFH.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 29/12 2016

Jólafundur Djáknafélags Íslands

Djáknafélag Íslands býður félagsfólki sínu til jólafundar
miðvikudagskvöldið 23. nóvember nk. kl. 18:00
í Hjallakirkju í Kópavogi.

Við ætlum að koma saman á lágstemmdum nótum og hlaða batteríin fyrir komandi gleði- og annatíma á vinnustöðum okkar. Sigurbjörg Þorgrímsdóttir djáknakandídat ætlar að leiða okkur í kyrrðarbæn. Við endum svo samveruna á því að halda lítið krúttlegt pálínuboð undir ljúfum jólatónum. DÍ leggur til drykki.

Hlökkum til að sjá ykkur öll, kæru félagar.

Þórey Dögg Jónsdóttir, 16/11 2016

Dagskrá DÍ fram að áramótum

Mánudaginn 10. október 2016 kl. 10:10 mun Díana Ósk Óskarsdóttir halda fyrir okkur námskeið um meðvirkni. Díana Ósk er guðfræðingur að mennt og hefur mikla þekkingu á málefninu. Hún gaf út bókina Vertu þín besta vinkona. Bókin fjallar um meðvirkni. Súpa og brauð í hádeginu í boði DÍ. Námskeiðið er félagsmönnum að kostnaðarlausu og fer það fram í safnaðarheimili Fella- og Hólakirkju.

Jólafundur DÍ verður haldinn 23. nóvember kl. 18:00 í Hjallakirkju í Kópavogi. Sigurbjörg Þorgrímsdóttir mun leiða okkur í kyrrðarbæn og undirbúa okkur þannig fyrir annirnar sem framundan verða hjá okkur flestum. Stjórn DÍ leggur til drykki, en hver og einn tekur með sér eitthvert smáræði á sameiginlegt hlaðborð. Vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Mánudaginn 30. janúar kl. 10:00 mun séra Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Keflavíkurkirkju, flytja fyrirlestur um fyrirgefninguna á félagsfundi DÍ. Staðsetning er ekki enn staðfest. Hádegisverður er í boði DÍ. Fyrirlesturinn er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Takið þessar dagsetningar frá og fjölmennum á fundina. Við viljum benda ykkur á, að tímasetningar fundanna eru ákvarðaðar með fjölskylduhagsmuni að leiðarljósi. Frekari upplýsingar um námskeið og fyrirlestra vorsins birtast síðar.

 

Ólöf I. Daviðsdóttir, 26/9 2016

Djáknum boðið til Skálholtshátíðar

Skálholtsdómskirkja

Skálholtshátíð fer fram dagana 23. og 24. júlí 2016. Vígslubiskup, Kristján Valur Ingólfsson, býður djáknum Skálholtsumdæmis til hátíðarinnar. Djáknar sem ætla að taka þátt eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna það á netfangið vigslubiskup[hjá]skalholt.is því taka þarf frá sæti fyrir þá við athöfnina.

Hátíðarmessa verður klukkan 14 á sunnudeginum. Gengið verður til hennar frá Skálholtsskóla fimm mínútum fyrr. Djáknar ganga þar næst á eftir krossbera, með sín embættistákn, en þó ekki skrýddir. Hér er dagskrá Skálholtshátíðar aðgengileg.

Nánar er fjallað um hátíðina á vef Skálholts. Í aðdraganda hátíðarinnar er svo fjölþjóðlegt og samkirkjulegt málþing  listamanna og fræðimanna í Skálholtsskóla undir yfirskriftinni: Horft yfir hindranir.  Þar fer fram samtal um menningu, trú og listir milli folks frá  frá Hvíta-Rússlandi, Armeníu, Austurríki, Þýskalandi og Íslandi og frá þremur kirkjudeildum; orþodox kirkjunni, rómversk-kaþólsk kirkjunni og kirkjum mótmælenda.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 16/7 2016

Frá aðalfundi Eurodiaconia 2016

Ragnheiður og Hunda Hrönn

Ragnheiður Sverrisdóttir, verkefnisstjóri á Biskupsstofu og sr. Hulda Hrönn M. Helga-
dóttir sóttu aðalfund Eurodiaconia sem haldinn var 8.- 10. júní 2016 í Utrecht í Hollandi.

Eurodiaconia

Eurodiaconia eru samtök kirkna og kærleiksþjónustufélaga í Evrópu. Á aðalfundi þeirra í júní 2016 var yfirskriftin gestrisni (hostility). Fulltrúar kirkjunnar voru sr. Hulda Hrönn Helgadóttir og Ragnheiður Sverrisdóttir. Íslendingar sýna oft gestrisni og vináttu hver við annan og það er mikilvægt.  Hins vegar er líka mikilvægt að vera gestrisin gagnvart þeim sem við þekkjum lítið og jafnvel ekkert. Átt er við fólk í margvíslegri neyð. Bæði félögin og hið opinbera eru hvött til að vera opin gagnvart fólki sem er útskúfað eða fær ekki að vera virkir þátttakendur í daglegu lífi venjulegra borgara eða eru á flótta. Svo segir: „Við munum halda áfram kærleiksstarfi sem er byggt á kristinni trú og innblásin af fordæmi Krists sem er byggist á þrem atriðum: talsmannshlutverkinu (advocacy), félagslegum störfum og kærleika.

Hér má sjá ályktun aðalfundar Eurodiaconia 2016:

Eflum gestrisni Evrópu.

Gestrisni er eitt af  grundvallaratriðum kærleiksþjónustunnar. Hún fjallar um hvernig við tengjumst hvert öðru í því samfélagi sem við lifum og hrærumst í. Gestrisni felur í sér virðingu gagnvart öðrum þrátt fyrir að við mannfólkið séum ólík innbirgðis. Um leið og við virðum hvert annað þurfum við að viðurkenna ófullkomleika okkar sjálfra og vænta þess að aðrir líti einnig þannig á sjálfa sig.

Gestrisni er að opna hjörtu okkar og dyr fyrir þeim sem eru í neyð en um leið að viðurkenna að við sjálf erum einnig í þörf fyrir samstöðu og von. Gestrisni er að gefa og þiggja.

Við getum spurt okkur hvort við séum gestrisin gagnvart þeim sem eru geðfatlaðir, einmana eða fátæk. Því miður er svarið sorglegt en einfalt NEI. Í kreppunni og eftir hana hefur ótryggt atvinnuástand og fátækt aukist í Evrópu. Afleiðing niðurskurðar á ellilífeyri hrekur eldra fólk út í fátækt og ungt fólk háir harða baráttu í leit að atvinnu. Draumur flóttafólks um betri framtíð hrynur í yfirfullum flóttamannabúðum og Rómafólki er daglega mismunað.

Fulltrúar á aðalfundi Eurodiaconia 2016 kalla eftir ákvörðum valdhafa í allri  Evrópu um að sýna raunverulega gestrisni og innleiða metnaðarfullar og samþættar aðgerðir í baráttunni gegn fátækt og félagslegri útskúfun með því að endurheimta  jafnvægi á milli hagvaxtar og félagslegra fjárfestinga, taka ákvarðanir um samþættar aðgerði og byggja brýr frekar en girðingar, og hafna algjörlega útlendingahatri og hatursáróðri og fordæma slíkt.

Aðalfundur Eurodiaconia skorar á ráðamenn í Evrópu að sýna gestrisni.

Fundurinn kallar á Evrópubúa að opna hjörtu sín og huga gagnvart fólki sem stendur frammi fyrir fátækt og útskúfun, að sigrast á hatri og hræðslu með því að tjá kærleika og von og viðurkenna að framandi einstaklingur er náungi okkar. Við munum halda áfram kærleiksstarfi sem er byggt á kristinni trú og innblásin af fordæmi Krists sem er byggist á þrem atriðum: talsmannshlutverkinu (advocacy), félagslegum störfum og kærleika.

Í talsmannahlutverkinu munum við ekki láta afskiptalausar skaðlegar félagslegar afleiðingar aðgerða í efnahagsmálum. Við viljum sannfæra þau sem taka pólitískar ákvarðanir um gildi gestrisni, og skapa og viðhalda samfélagslegum breytingum sem grasrótarhreyfingar vinna að.

Með störfum okkar og samstarfi við hið opinbera viljum við halda áfram að ná til þúsunda einstaklinga í neyð. Við leggjum áherslu á mikilvægi þjónustu okkar og góðu aðgengi að henni og gæðum þrátt fyrir að fjárveitingar frá opinberum aðilum hafi dregist saman.

Þó störf okkar byggist á störfum fagfólks, viljum við styrkja sjálfboðaliða og notendur þjónustunnar til að taka þátt störfum okkar og aðgerðum.

Út frá ímynd og eðli kærleiksþjónustunnar munum við halda áfram starfi okkar til að sýna kristin gildi eins og gestrisni, samstöðu og kærleika í verki. Við viljum sýna að kristin trú í verki er ekki aðeins einkamál heldur einnig ábyrgð opinberra aðila. Kærleiksþjónusta, diakonia, er ekki ný af nálinni heldur hefur skýrt hlutverk í nútíma samfélagi.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 1/7 2016

Útskrift úr starfsþjálfun Þjóðkirkjunnar

Starfsþjálfun 2016

Brautskráning úr starfsþjálfun þjóðkirkjunnar fer fram einu sinni á ári. Á þessu námssári hafa 3 prestssefni og 4 djáknaefni lokið henni. Nemendur við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands sem hyggjast starfa sem prestar eða djáknar í þjóðkirkjunni ber skylda til að taka starfsþjálfun. Í henni felst m.a. persónuleikapróf, kyrrðardagar og í þjálfun í söfnuði. Eftir að þjálfun lýkur og nemandi hefur brautskráðst frá HÍ öðlast hann embættisgengi.

Á myndinni má sjá þau sem útskrifuðust í Dómkirkjunni 29. júní ásamt sr. Kristjáni Val Ingólfssyni, vígslubiskupi sem er lengst til vinstri á myndinni. Útskriftarnemar eru Sylvía Magnúsdóttir, guðfræðingur, Anna Hulda Júlíusdóttir, Eydís Ösp Eyþórsdóttir og Yrja Kristinsdóttir, djáknakandídatar og Ólafur Jón Magnússon, guðfræðingur. Auk þeirra útskrifaðist Arnór Bjarki Blomsterberg guðfræðingur fyrr í vetur.

Ólöf I. Daviðsdóttir, 1/7 2016


Djáknafélag Íslands
Grensáskirkju
108 Reykjavík

 

· Kerfi RSS