Breiðholtskirkja

 

Safnaðarstarf

 

Fjölbreytt helgihald og safnaðarstarf er í Breiðholtskirkju yfir vetarmánuðina.  Starfið er öllum opið og endurgjaldslaust.

Messur
með altarisgöngu eru í Breiðholtskirkju hvern helgan dag kl. 11 og á tímabilinu frá sept. til loka apríl eru þær því samtímis sunnudagaskólanum. Börnin eru þá með hinum fullorðnu í messubyrjun, en fara síðan niður í safnaðarheimilið og ljúka samveru sinni þar.  Síðasta sunnudag í mánuði yfir vetrartímann er fjölskylduguðsþjónusta.

Alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholtskirkju (The International Congregation in Breiðholts Church)

kemur saman á sunnudögum kl. 14:00 í Breiðholtskirkju. Hann hefur bænastundir og guðsþjónustur sem fara fram á ensku og túlkaðar á önnur tungumál. Séra Toshiki Toma, prestur innflytjenda, hefur umsjón með starfinu.

Sunnudagaskólinn
er samtímis messunni á sunndögum kl. 11 frá byrjun september til loka apríl.  Með því fyrirkomulagi gefst fjölskyldunni tækifæri til að byrja hvíldardaginn með því að ganga saman til kirkju. Með slíkri kirkjugöngu gefast dýrmætar stundir þar sem börnin læra bænir og söngva og fá tækifæri til þess að kynnast frelsaranum.  Ung börn geta ekki sjálf borið ábyrgð á kirkjusókn sinni og því er það hlutverk foreldra eða afa og ömmu að minna þau á barnastarfið, hvetja þau til þátttöku og fylgja þeim til kirkju.

Kyrrðarstundir
eru í hádeginu á miðvikudögum kl. 12:00 allt árið. Organistinn byrjar á því að leika á orgelið meðan fólk er að koma til kirkju. Kl. 12:10 hefst síðan stutt helgistund með ritningarlestri, altarisgöngu og fyrirbæn. Að stundinni lokinni, um kl. 12:40 stendur til boða léttur málsverður í safnaðarheimilinu. Þátttakendur og starfsfólk kirkjunnar taka á móti bænarefnum.

Foreldramorgnar
eru í safnaðarheimilinu alla fimmtudagsmorgna kl. 10-12 frá septemberbyrjun til loka maí.  Á foreldramorgnum gefst foreldrum kjörið tækifæri til að koma saman og njóta samverunnar í vinalegu umhverfi, ræða ýmis mál, fræðast og miðla öðrum af reynslu sinni. Hefst 7. sept. 2018.

Kirkjukrakkar
nefnist starfið sem ætlað er börnum á aldrinum 6-9 ára. Þessar samverustundir eru í safnaðarheimilinu á miðvikudögum kl. 16:00 – 17:00.  Boðið er upp á fylgd frá Bakkaseli fyrir þau börn sem þar eru. Hefst 5. sept. 2018.

TTT
er ætlað fyrir 10-12 ára börn. Þessar samverur eru í safnaðarheimilinu á miðvikudögum kl. 17:30 – 18:30. Dagskrá TTT er fjölbreytt og skemmtileg þar sem kærleikur Guðs ræður ríkjum. Hefst 5. sept. 2018.

Samverur eldri borgara – Maður er manns gaman
Hvern miðvikudag frá byrjun september til loka apríl eru samverur eldri borgara í safnaðarheimilinu kl. 13:15. Hefst 5. sept. 2018.

Tómasarmessur
eru að jafnaði síðasta sunnudag í mánuði kl. 20 á tímabilinu september til apríl. Heiti messunnar er dregið af postulanum Tómasi, sem ekki vildi trúa upprisu Drottins nema hann fengi sjálfur að sjá hann og þreifa á sárum hans. Þessari guðsþjónustu er ætlað að gera nútímamanninum auðveldara að skynja nærveru Drottins. Lögð er áhersla á upplifunarþátt messunnar, t.d. með margvíslegri bænaþjónustu, sálgæslu og fjölbreytilegum söng og tónlist, allt frá hefðbundnum sálmum við orgelleik til nútíma trúarsöngva við undirleik hljómsveitar. Stór hópur fólks tekur jafnan þátt í undirbúningi og framkvæmd Tómasarmessunnar.

Kirkjukór
Aðalstarf kórsins er þátttaka í guðsþjónustum og öðrum athöfnum á vegum safnaðarins, svo sem aðventuhátíð og tónleikum.  Kórinn getur enn bætt við sig kórfélögum og er áhugasömum bent á að hafa samband við organista kirkjunnar,  Örn Magnússon.

Biblíulestrar
Á fimmtudögum (10 vikur á haustmisseri og 10 vikur á vormisseri) eru haldnir biblíulestrar í Breiðholtskirkju á vegum Leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar og Reykjavíkurprófastsdæmis eystra. Leiðbeinandi á námskeiðinu er dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur.

Hollvinafélag kirkjunnar
stendur fyrir almennum félagsfundum nokkrum sinnum á vetri auk þess að standa fyrir virkri þátttöku félagsfólks í starfi og gleði safnaðarins.  Markmið félagsins er að styðja við kirkju- og menningarstarf í söfnuðinum, styrkja söfnuðinn fjárhagslega og félagslega og hvetja til þátttöku sóknarbarna og annara áhugasamra í því starfi sem kirkjan býður upp á.

 

 

Breðholtskirkja, Þangbakka 5, 109 Reykjavík. Sími 587 1500 , fax 5870185 · Kerfi RSS